27.02.1957
Sameinað þing: 40. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 406 í D-deild Alþingistíðinda. (2845)

104. mál, olía frá varnarliðinu

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Mig undrar það, með hverjum hætti hæstv. ráðh. telur sig vera þess umkominn að svara fsp., sem hér er borin fram. Það er spurt einfaldlega um það, hvað kosti tiltekin vara, sem ríkisstj. er látið í té að kaupa. Og það er ofur eðlilegt, að slík fsp. komi fram á Alþingi. Hvað liggur á bak við það, að hæstv. utanrrh. kemur hér og neitar að gefa þessar upplýsingar? Í þessu felst mjög mikil og alvarleg lítilsvirðing á þeim rétti, sem þingmönnum er ætlaður í fyrirspurnatímunum, að koma í raun og veru upp í ræðustólinn og segja: Þér kemur bara ekkert við að vita um það, sem þú spurðir um. — Ég skal ekki trúa því, að hæstv. ráðh., eftir að hv. fyrirspyrjandi hefur ítrekað fsp. sína, ætli að sitja þegjandi undir því og skjóta sér hjá því að svara því, sem raunverulega var spurt um, því að það dettur engum þm. í hug að halda, að hæstv. ríkisstj. viti ekki um það raunverulega verð, sem hér er um að ræða. Ef þetta mál á svo fram að ganga sem nú er komið, þá tel ég, að það stefni í mjög alvarlega átt með fyrirspurnatímana, ef annað ætti að verða eftir þessu. Og ég fæ mig ekki að óreyndu til að trúa því, að hæstv. núverandi utanrrh., sem bæði fyrr og síðar hefur gefið svör og góðar upplýsingar varðandi sitt mikilvæga embætti og þau mál, sem undir hann heyra, verði ekki við jafneinföldum hlut eins og þessu, þegar ekki er beint margbrotnara máli að honum heldur en því að gefa svör við því, hvað tiltekin vara, í þessu tilfelli olía sú, sem látin er í té af varnarliðinu, kostar. Og að sjálfsögðu erum við engu nær, eins og hv. fyrirspyrjandi sagði, þó að sagt sé, að hún sé seld á kostnaðarverði eða því verði, sem það hefur kostað varnarliðið að koma olíunni þarna. Eru Íslendingar þarna að fá olíu, sem er þeim dýrari eða miklu hagkvæmari heldur en ella mundi vera? Auðvitað er grundvöllurinn undir fsp. að fá réttar og sannar upplýsingar í þessu máli. Og við þingmenn verðum að ætlast til þess, að þegar jafneinfalt mál eins og þetta er um að ræða, þá skjóti hæstv. ráðh. sér ekki hjá því að svara slíkum fyrirspurnum.