27.02.1957
Sameinað þing: 40. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 407 í D-deild Alþingistíðinda. (2846)

104. mál, olía frá varnarliðinu

Fyrirspyrjandi (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Þegar borið var undir hið háa Alþ., hvort þessi fsp. skyldi leyfð, var orðalag á henni það sama sem fyrir liggur á þskj. 206 þann dag í dag. Þar stendur skýrum orðum: Við hvaða verði og skilmálum verður Íslendingum látin í té olía af birgðum varnarliðsins í Hvalfirði?

Hæstv. ráðh. sýnir einhverja tregðu á því að gefa greið svör í þessu máli. En ég tel, að Alþ. eigi heimtingu á því, að hann upplýsi hreinlega eins og spurt er, úr því að fsp. hefur verið leyfð; það hefur verið leyft hér af Alþ., að þessi fsp. yrði borin upp. Er verðið, þetta kostnaðarverð, svo óhagstætt íslenzkum hagsmunum, að hæstv. ráðh. vill ekki láta það uppi? Eða er það svo hagstætt að hann vill af þeim ástæðum ekki láta það uppi?

Það vita allir, að olíumálin eru yfir höfuð í nokkuð „kritísku“ ástandi hér og hafa verið að undanförnu. Það vita enn fremur allir, að olían hefur stórhækkað einmitt í dag. Ef það kynni nú að vera tilfellið, að þetta kostnaðarverð væri það hagstætt, að mikill hagur væri fyrir landið að fá þessa olíu á þann hátt, þá væri e.t.v. hugsanlegt, að þar opnaðist leið að einhverri verðjöfnun fyrir þann almenning í landinu, sem nú stendur gagnvart þeirri staðreynd að verða að kaupa sína brennsluolíu til kyndingar í húsum á miklu hærra verði en verið hefur fram að þessum tíma. En hæstv. ráðh. hefur ekki tekið þann kostinn að segja skýrt til um þetta. og gerir það það að verkum, að maður hlýtur að álíta, að það sé einhver leynd ástæða fyrir hendi, sem geri það, að spurningunni er ekki svarað öðruvísi en út í hött. Ég tel bæði fyrirspyrjanda eiga heimtingu á, að spurningunum sé svarað eins og spurt er, og ég tel sérstaklega Alþ. eiga heimtingu á því, eftir að það hefur samþ., að svona fsp. sé leyfð, eins og vitanlegt er.

Mér kemur ekki til hugar, að hvorki þessi hæstv. ráðh. né nokkur annar, sem semdi um að fá olíubirgðir handa landinu, jafnvel þótt af birgðum erlendra stjórnarvalda sé, gerði það ekki upp við sig, hvað slíkt kostaði í peningum. Allt annað væri allt of mikið gáleysi. Og ég vil alls ekki ætla hæstv. ráðh. slíkt gáleysi í þessum efnum.

Það verður auðvitað ekki hægt að heimta það svar, sem ráðh. vill ekki láta af hendi. En hann ætti að gæta að því, að þögn hans í þessu tilefni er alls ekki heillavænleg. Hverju er að leyna um þessa olíu og það verð, sem Íslendingar eiga fyrir hana að borga? Það gekk hálfstirt að fá það upplýst, að hún væri frá varnarliðinu, þangað til það hrökk út úr hæstv. viðskmrh. samt, að hún væri frá hinu „svokallaða varnarliði“. Og það virðist ætla að ganga jafntreglega að fá hinn hæstv. ráðh., sem að þessu máli stendur fyrir landsins hönd, til að upplýsa, þegar spurzt er fyrir um það, hvað þetta eigi að kosta Íslendinga, eða með hvaða kjörum og verði það sé.