27.02.1957
Sameinað þing: 40. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 409 í D-deild Alþingistíðinda. (2849)

104. mál, olía frá varnarliðinu

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Málið liggur nú fyrir í nokkuð öðru ljósi, eftir að hæstv. utanrrh. hefur haldið sína seinni ræðu, því að hann hefur gefið nýjar upplýsingar, sem ekki komu fram í fyrri ræðu hans. Og ég kvaddi mér ekki hljóðs, fyrr en útséð var um það áðan, að hæstv. ráðh. mundi ekki svara frekar fsp. fyrirspyrjanda. En hann hefur upplýst nú, að það sé þó gengið örugglega frá því, sem ekki kom fram í fyrri ræðu hans, að olían yrði aldrei dýrari en sú olía, sem við með öðrum hætti höfum átt kost á að fá, og auk þess segir ráðh. nú, að hann geti ekki upplýst með tölum, hvað þessi olía kosti nákvæmlega, og vilji því ekki að svo stöddu gera það. Ef hæstv. utanrrh. hefði sagt allt þetta i upphafi, þá var engin ástæða til að gera frekari reka að þessu máli. Við þm. mundum áreiðanlega hafa fallizt á það, að rétt væri skýrt frá af ráðherra, að hann gæti sagt það að minnsta kosti: Olían verður aldrei dýrari en önnur olía, sem við eigum kost á. En eins og sakir standa núna, þá get ég því miður ekki gefið nákvæmar upplýsingar um verðið, því að á síðara stigi málsins er þó hægt að fá það upplýst. Ég tel þess vegna, að það hafi verið mjög leitt, að hæstv. ráðh. hafi í sinni fyrstu ræðu gefið ástæðu til þeirrar tortryggni, sem réttilega hefur komið fram af hálfu þm., og ef hann hefði bara talað í sinni fyrri ræðu eins og hann talaði í seinni ræðunni, þá hefði málið legið a.m.k. nokkru skýrar fyrir.