06.03.1957
Sameinað þing: 44. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 416 í D-deild Alþingistíðinda. (2864)

120. mál, álitsgerðir um efnahagsmál

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Það fer nú margt að verða með kynlegum hætti í sambandi við afskipti hæstv. ríkisstj. og aðgerðir í efnahagsmálum þjóðarinnar og ekki sízt þær umr., sem nú fara fram, og þær upplýsingar, sem komu fram hjá hæstv. forsrh. Ég leyfi mér að vekja athygli á því, að það stendur allt öðruvísi á í sambandi við aðgerðir í efnahagsmálunum um s.l. áramót eða áramótin þar á undan, þegar hæstv. ríkisstj. þáv. lagði fram tillögur sínar og studdist í þeim við álitsgerðir hagfræðinga og embættismanna, sem þáv. stjórn hafði fengið sér til aðstoðar.

Núv. hæstv. ríkisstj. og stjórnarflokkar boðuðu á s.l. ári og allra helzt í kosningabaráttunni, að þeir ætluðu að leggja inn á nýjar leiðir í efnahagsmálum þjóðarinnar. Og þegar hæstv. ríkisstj. tók við völdum, þá sagði hún, að það ætti að fara fram úttekt á þjóðarbúinu fyrir opnum tjöldum. Ég kveð mér hljóðs nú til að vekja athygli á því, að þegar till. ríkisstj. í efnahagsmálum voru síðan lagðar fyrir þingið, þá fengum við þingmenn svo að segja upplýsingalausar þær till., sem fram voru lagðar. Málið kom fyrst fyrir Nd., og á ég sæti í fjhn. d., og okkur var það alveg fullkomlega ljóst þegar í öndverðu, að það var ekki með nokkrum rétti hægt að ætlast til þess, að hvorki þingnefnd né þingmenn gætu i raun og veru á þeim stutta tíma, sem var til stefnu, markað afstöðu sína til efnahagsmálatill., sem fram voru fluttar, m.a. vegna þess, að þær voru ekki rökstuddar í grg. né neinar fullnægjandi skýrslur lagðar fram, sem þessar nýju till. væru rökstuddar með. Það, sem skeð hefur, er í aðalatriðum þetta: Hæstv. ríkisstj. boðar, að lagt skuli inn á nýjar leiðir og fundnar varanlegar úrlausnir i efnahagsmálum. Þegar till. koma fram, þá er í raun og veru lítið nýtt að finna, og a.m.k. er engin grg. af hálfu hæstv. ríkisstj. lögð fram fyrir hinum nýju leiðum eða aðrar upplýsingar, sem sýndu fram á það, að nú hefði verið farið inn á það, sem kalla mætti varanlegar leiðir. Hér er ekki verið að ræða um það, hvort till. eða hvort upplýsingar eða skýrslur, sem áður hafa verið látnar í té hæstv. ríkisstj., hvorki þeirri, sem sat á undan núv. hæstv. ríkisstj., né eldri ríkisstj., séu birtar eða ekki birtar, heldur er verið að spyrja um: Hvað dvelur Orminn langa? Af hverju gefur ekki hæstv. núv. ríkisstj. almenningi kost á því að sjá það, sem hún er búin að lofa almenningi, úttektina á þjóðarbúinu og rökstuðninginn fyrir þeim till. og þeirri stefnu, sem hún hefur hugsað sér að fylgja í efnahagsmálunum? Það er ekki hægt að slá þessu máli á dreif af hálfu hæstv. forsrh. með því að vera að tala um, að aðrar skýrslur, sem allt öðruvísi eru til komnar, hafi ekki verið birtar, heldur er það komið á daginn, að öll stóru orðin í sambandi við nýjar og varanlegar úrlausnir í efnahagsmálunum hefur hæstv. ríkisstj. ekki getað staðið við sjálf í þeim till., sem hún hefur lagt fyrir, og enn hefur hún ekki lagt fyrir neinar skýrslur sérfræðinga eða hagfræðinga til stuðnings því, að hún sé með ný eða varanleg úrræði í þessum efnahagsmálum. Og ég vil alveg sérstaklega gjalda varhug við því, sem fram kemur nú í orðum hæstv. forsrh., að það sé til athugunar núna, mörgum mánuðum eftir að þingmenn eru látnir taka afstöðu til till. í efnahagsmálum, hvort eigi að birta skýrslur, sem þessar till. að einhverju leyti grundvallast á.

Að sjálfsögðu ber að gera kröfu til þess, að skýrslurnar og upplýsingarnar liggi fyrir á þeirri stundu, þegar ætlazt er til þess, að þingmenn taki afstöðu til málsins, en ekki að nú sé verið að athuga að birta eitthvað af þessum skýrslum, eftir að hæstv, ríkisstj. sé þó búin að vinna úr skýrslunum, breyta orðalagi, eins og fram kemur í orðum hæstv. forsrh.

Ég held, að bæði hv. þm. og almenningur mundu þakka fyrir slík vinnubrögð. Ef hér á eitthvað að birtast, þá verður það að birtast eins og það er lagt fyrir, eins og það kemur fram af hálfu sérfræðinganna til ríkisstj., ef þess er kostur og ef því er ekki neitað, en eins og fram kom hjá hæstv. forsrh., þá hefur hæstv. ríkisstj. ekki enn beðið um leyfi þeirra manna, sem hlut eiga að máli, að þeirra skýrslur séu birtar.

Hitt er algerlega fráleit vinnuaðferð, að ríkisstj. og starfsmenn hennar sitji svo yfir því mánuðum saman að vinna úr og hagræða þeim skýrslum og þeirri skýrslusöfnun, sem átt hefur sér stað. Það er full ástæða til þess að gjalda varhug við því. En þetta eins og annað sýnir það, að hæstv. núv. ríkisstj. og stjórnarflokkar hennar hafa ef til vill hugsað sér að sigla eitthvað hærri byr í efnahagsmálunum en þeim hefur auðnazt fram að þessu, og sannarlega verður ekki hlutur hæstv. ríkisstj. merkilegri eða meiri eftir þær upplýsingar, — ég vil segja furðulegu upplýsingar, sem fram hafa komið nú í þessum fyrirspurnatíma.