06.03.1957
Sameinað þing: 44. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 418 í D-deild Alþingistíðinda. (2865)

120. mál, álitsgerðir um efnahagsmál

Forsrh. (Hermann Jónasson):

Það liggur nú ekki hér fyrir að ræða um efnahagsmálin. Þau hafa verið nokkuð ýtarlega rædd í sambandi við þá lausn, sem á þeim var gerð, og það er nú deilt um, hvort það séu nýjar, nægilega nýjar aðferðir eða gamlar. Ég ætla ekki að fara inn á það svið í þessari umr.

En það, sem liggur ljóst fyrir í þessu máli, er tvennt: Í fyrsta lagi, að það er mikið verk að vinna úr þeim skýrslum, sem fyrir liggja, og meira að segja núna verið að rannsaka af innflutningsskrifstofunni og sérfræðingum með henni, hver fjárfestingin er orðin hér í Rvík og hvað þarf til að fullgera hana, sem er eitt af allra stærstu málunum í sambandi við úttekt á því, sem gerzt hefur fram til þessa. Bráðabirgðaskýrslur, sem hér hafa verið birtar og voru birtar í sambandi við umr. hér á Alþingi, benda til þess, að þurfi um 370 millj. kr. til að fullgera framkvæmdirnar, sem byrjað var á hér í Rvík. Þegar þessi atriði liggja fyrir, eins og ég sagði áðan, þá er til athugunar að gefa opinbera skýrslu um málið. En svo liggur það hér fyrir, að fyrrv. ríkisstj. fær sérfræðinga, og þá eru hæg heimatökin að fá leyfi þeirra til birtingar, þeir eru ekki bundnir af neinni opinberri stofnun í því efni, og þessar skýrslur voru sendar til þingmanna, þeirra sem studdu ríkisstj., og við munum eftir því, að um það urðu ekki litlar deilur hér á Alþingi og í blöðum, að þessar skýrslur væru ekki sendar öllum þm. Því var neitað, vegna þess að fyrrv. ríkisstj. hélt því fram, að það væri útilokað og það væri raunverulega skaðlegt fyrir efnahagskerfi þjóðarinnar að birta skýrslurnar, og við það sat. Skýrslurnar eru lokaðar inni, lokaðar niðri í skrifborði mínu. Ef ég man rétt, þá eru tvær útgáfur af þeim. Þeirri seinni var breytt að orðalagi, og það datt engum þm. í hug af stjórnarflokkunum, ekki einum þm., ekki nokkru blaði, að birta eitt einasta orð úr þessum plöggum, sem ríkisstj. lagði fyrir að væru eingöngu til leiðbeiningar fyrir lausn efnahagsmálanna, en mætti ekki birta.

Svo þegar farið var að rannsaka, hvort mætti birta þessa skýrslu, þá liggur það fyrir, að það er bann frá hagfræðingunum við því að birta skýrsluna, þó að hún væri eins og ég sagði áðan, birt efnislega eins og hún er, en orða sumpart skýrsluna þannig, að ekki yrði til þess skaða, sem fyrrv. ríkisstj. áleit að það væri, ef skýrslan væri birt.

M.ö.o.: Það stendur nákvæmlega eins á um fyrrv. ríkisstj. og núv. ríkisstj., að hún telur skýrslurnar ekki heppilegar til þess að birta þær, og það er ekki leyfi fyrir því heldur. Og það er eins og það séu álög á stjórnarandstöðunni að þurfa alltaf í hverju einasta máli að ráðast á núverandi ríkisstj. fyrir það, sem hún treysti sér ekki til að gera sjálf. (Gripið fram í.) Ja, ég hef líka sagt, að það er til athugunar að ganga þannig frá málinu, að það verði hægt að halda það loforð án þess að birta skýrslurnar á þann hátt, að það verði til skaða fyrir efnahagskerfið og þjóðina.

Ég ré þess vegna ekki, að það hafi verið neitt vanefnt í þessu máli, og ég held, að það sé bezt fyrir hv. sjálfstæðismenn að bíða svolítið rólegir. Það kann að vera, að þeir fái skýrslur um það, áður en langt um líður, hvernig allt saman stóð, þegar þeir létu af völdum, og þeir telji sig þá ekki þurfa að kvarta.