15.05.1957
Sameinað þing: 57. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 438 í D-deild Alþingistíðinda. (2880)

166. mál, sérleyfi til fólksflutninga með bifreiðum

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Eins og hv. þm. V-Sk. (JK) hefur greint frá, eru þetta tvær fsp. Það er fyrst: Hvers vegna synjaði ráðh. á s.l. vetri Verzlunarfélagi Vestur-Skaftfellinga í Vík um leyfi til áætlunarferða á fólksbifreiðum með vörupalli og einnig síðar um undanþágu á leiðinni Reykjavik—Vík—Hörgsland þrátt fyrir einróma meðmæli skipulagsnefndar fólksflutninga með bifreiðum?

Út af þessu og því, sem hv. þm. tók fram, vil ég upplýsa eftirfarandi:

Verzlunarfélag Vestur-Skaftfellinga fékk sérleyfi á þessari leið eða leiðinni Reykjavík–Kirkjubæjarklaustur 1. marz 1952. Verzlunarfélag Vestur-Skaftfellinga fól, þegar það fékk sérleyfið 1952, öðrum, þ.e.a.s. Brandi Stefánssyni, sjálfum aðalsérleyfishafanum, að halda uppi þessum ferðum, sem það fékk rétt til, þar sem félagið átti enga bifreið yfirbyggða til fólksflutninga og hefur enga bifreið átt til fólksflutninga allan sérleyfistímann. Sérleyfishafi hefur því aldrei farið neina af þeim sérleyfisferðum, sem honum var skylt að fara. Þetta hefur gengið svona allan sérleyfistímann.

Enn fremur vil ég upplýsa, að strax í byrjun sérleyfistímabilsins, 1952, fengu Verzlunarfélagið og Brandur Stefánsson leyfi eftir eigin ósk til þess að fækka ferðum á leiðinni, eftir að Brandur hafði tekið við að fara ferðirnar fyrir Verzlunarfélagið, sérstaklega vetrarmánuðina, og var borið við, að flutningsmagn væri hvergi nærri nægjanlegt til þess að halda uppi öllum ferðunum. Og af þessum tveimur ferðum í viku allt árið, sem Verzlunarfélagið fékk leyfi til að halda uppi, en það hefur aldrei haldið uppi, hefur verið haldið uppi af öðrum eftirtöldum ferðum: Árið 1952 tveim ferðum í viku yfir mánuðina júlí og ágúst, en engum ferðum hina tíu mánuði ársins. Árið 1953 tveimur ferðum í viku yfir mánuðina júlí og ágúst, en engum ferðum hina 10 mánuði ársins. Og árið 1954 tveimur ferðum í viku yfir mánuðina júlí og ágúst, en engum ferðum hina tíu mánuði ársins.

Svo gerist það árið 1955, að þá fengu Brandur Stefánsson og Verzlunarfélagið enn þá nýtt leyfi til þess að fækka ferðum á leiðinni frá því, sem áður var búið að gera, og voru þá alveg felldar niður þær tvær ferðir í viku yfir júlí og ágúst, sem Brandur hafði haldið uppi fyrir Verzlunarfélagið, líka yfir sumarið, þær hurfu alveg, en sameiginleg áætlun gefin út fyrir báða aðila með sama ferðafjölda yfir sumarmánuðina og Brandur Stefánsson hafði í sinni ferðaáætlun einn. Og þetta fyrirkomulag hélzt, þangað til þetta sérleyfi, sem aldrei hafði verið notað, var tekið af félaginu nú fyrir skömmu.

Eins og sést af því, sem ég nú hef gefið upplýsingar um, hefur ekki verið haldið uppi þeim ferðum, sem Verzlunarfélaginu voru veittar 1952, nema aðeins tveimur í mánuði að sumrinu fyrstu þrjú ár sérleyfistímabilsins, en engum ferðum annan tíma ársins og alls engum af ferðunum síðustu tvö árin, og sérleyfishafinn, sem kallaður var, hefur aldrei nærri þeim komið.

Það er svo til viðbótar, að það hefur ekki heldur reynzt vegna skorts á flutningsmagni, að því er talið hefur verið, kleift að halda uppi öllum þeim ferðum, sem Brandi Stefánssyni voru einum veittar.

Loks vil ég taka það fram til viðbótar, að ferðaáætlun sú, sem núverandi sérleyfishafi hefur lagt fram fyrir yfirstandandi ár og póst og símamálastjórn hefur samþykkt, gerir ráð fyrir sex ferðum í viku tvo mánuði ársins og þremur ferðum í viku annan tíma ársins, og munu það vera fleiri ferðir en áður hafa verið, eftir því sem mér er sagt.

Af þessu, sem ég hef tekið fram, sést, að Verzlunarfélagið hefur undanfarin ár haft sérleyfi að nafninu til, en aldrei rækt ferðirnar; að félagið hefur falið þær öðrum að nafninu til, en þær samt ekki verið farnar í raun og veru nema að nokkru leyti fyrst og síðan ekki, eftir að ferðunum var fækkað, eins og ég upplýsti.

Enn fremur veit ég, að Brandur Stefánsson mun hafa átt fullt í fangi með að reka sérleyfisferðirnar á þessari leið, svo að þær gætu borið sig.

Það er upplýst, að núverandi sérleyfishafa er ætlað að fara fleiri ferðir en áður voru á leiðinni, og því vel séð fyrir ferðum, miðað við það, sem áður var.

Ég segi það því alveg hiklaust, að ég sá enga ástæðu og ekki heldur nokkurn snefil af sanngirni í því að veita Verzlunarfélaginu leyfi eða undanþágu eftir þessa frammistöðu, og lái mér það hver sem vill.

Þá er það síðari spurningin. Hún er þannig: Hefur ráðh. á þessu ári synjað öðrum umsóknum um sérleyfi, sem skipulagsnefnd hefur einróma mælt með, og ef svo er, hverjum?

Svarið við þessu er nei, enda hef ég ekki orðið var við neitt hliðstætt mál því, sem ég var nú að segja frá, og mér vitanlega hefur frammistaða einskis sérleyfishafa verið lík því, sem hér var frá skýrt.