15.05.1957
Sameinað þing: 57. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 440 í D-deild Alþingistíðinda. (2881)

166. mál, sérleyfi til fólksflutninga með bifreiðum

Fyrirspyrjandi (Jón Kjartansson):

Herra forseti. Af svörum hæstv. ráðh. er ljóst, að hann hafði enga — ég fullyrði enga frambærilega ástæðu fram að færa fyrir synjun sinni. Verknaður ráðh. er því misbeiting valds og pólitísk ofsókn og ekkert annað. Þetta fullyrði ég.

Hæstv. ráðh. vill gefa í skyn, að þar sem Verzlunarfélag Vestur-Skaftfellinga hafi ekki rækt sérleyfi sitt, þá hafi það fyrirgert rétti sínum. Eins og ég gat um í minni fyrri ræðu, var það með fullri vitund skipulagsnefndar og óátalið af henni öll árin, að Verzlunarfélagið fól aðalsérleyfishafa, Brandi Stefánssyni, að starfrækja sérleyfið. Formaður skipulagsnefndar hefur og látið svo um mælt í mín eyru, að skipulagsnefnd hafi síður en svo getað haft neitt við það að athuga, að slíkur ágætismaður sem aðalsérleyfishafi, Brandur Stefánsson, annaðist ferðir Verzlunarfélagsins.

Í sambandi við það, sem hæstv. ráðh. sagði, að ekki hefði verið haldið uppi þeim ferðum öllum, sem leyfðar hefðu verið, vil ég upplýsa þm. um það, að allar breytingar, sem gerðar hafa verið á ferðum, voru með fullu samkomulagi skipulagsnefndar. Ég get ekki séð, að það sé neinn fengur í því að vera að halda uppi dýrum ferðum að vetrarlagi í snjóum máske og vondri færð, ef ekkert er að flytja. Það get ég ekki séð, enda hefur skipulagsnefnd fallizt á, að ferðir falli niður stundum.

Í þessu máli hefur verið alger eining skipulagsnefndar, Verzlunarfélags Vestur-Skaftfellinga og aðalsérleyfishafa. Það hefur verið gagnkvæm þjónusta milli Verzlunarfélagsins og aðalsérleyfishafa. Verzlunarfélagið hefur annazt flutninga fyrir aðalsérleyfishafa gegn því, að hann annaðist sérleyfisferðir félagsins. Hefur engin launung verið í þessu máli. Í hvert sinn sem leiðabók landssímans hefur verið samin yfir sérleyfisferðirnar, var jafnan leitað álits Verzlunarfélags Vestur-Skaftfellinga um áætlunardagana og við áætlunardagana síðan skráð: Brandur Stefánsson og Verzlunarfélag Vestur-Skaftfellinga.

Af þessu er ljóst, að Verzlunarfélag Vestur-Skaftfellinga var jafnan talið fullgildur aðill sérleyfisins. Félagið greiddi og öll gjöld til Félags sérleyfishafa sem aðrir.

Þegar Verzlunarfélag Vestur-Skaftfellinga gerði samkomulagið við Brand Stefánsson með fullri vitund og vilja skipulagsnefndar, var ástæðan án efa fyrst og fremst sú, að félagið vildi stuðla að því, að Brandur Stefánsson gæti annazt aðalsérleyfið áfram, en eins og ég gat um í minni fyrri ræðu, var honum í raun og veru gert ókleift að starfa með aðgerðunum, sem urðu í júlí 1952.

En það eru fleiri hliðar á þessu máli en sú, sem snýr að Verzlunarfélagi Vestur-Skaftfellinga og Skaftfellingum. Hvað verður um störf skipulagsnefndar í framtíðinni, ef pólitískur ráðh. getur óátalið í ofstæki sínu farið að eins og hér var gert? Ég fæ ekki betur séð en að skipulagsnefnd hafi ekkert verkefni að vinna, hún sé gersamlega óþörf. Ég veit ekki, hvert hæstv. ráðh. hefur leitað ráða, þegar hann ákvað að misbeita valdi sínu pólitískt, sem hann hér hefur gert, en ég fullyrði, að hafi hann leitað ráða manns austan Jökulsár á Sólheimasandi, þá er það ekki Skaftfellingur, sem hefur gefið honum ráðin. Allir sannir Skaftfellingar hafa megnustu skömm og fyrirlitningu á þessum verknaði ráðh.

Fsp. 2 svaraði ráðherra neitandi, eins og ég bjóst við. Það sannaði enn betur, að hann hefur beitt þetta félag, Verzlunarfélag Vestur-Skaftfellinga, pólitískri ofsókn.