15.05.1957
Sameinað þing: 57. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 446 í D-deild Alþingistíðinda. (2887)

166. mál, sérleyfi til fólksflutninga með bifreiðum

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Það eina, sem að mínum dómi skiptir máli í þessu sambandi, er það, sem raunverulega gerðist, og það, sem raunverulega gerðist í þessu máli, var það, að Verzlunarfélagið fékk sérleyfi, en rækti sérleyfið aldrei, og þær ferðir, sem því var ætlað að fara, voru ekki farnar nema að litlu leyti fyrst. Þetta er það, sem í raun og veru skiptir máli. Þetta er kjarni málsins. Ef við lítum á kjarna málsins, þá átti Verzlunarfélagið engan sérstakan rétt, engan siðferðilegan rétt til þess að koma til greina fremur en hver annar, sem aldrei hafði nálægt þessum málum komið, nema síður væri, vegna þeirrar frammistöðu, sem hér hefur verið rædd í dag. Þannig lít ég á þetta mál.

Þegar það nú lá fyrir, að kominn var myndarlegur sérleyfishafi og búið var að veita honum sérleyfi, þar sem gert var ráð fyrir fleiri ferðum en áður höfðu verið hafðar samtals, og þess vegna meiri þjónusta ráðgerð en áður hafði komið til greina, þá fannst mér ekki rétt að fara að setja inn á þessa leið þennan aðila, sem frá mínu sjónarmiði átti engan rétt til þess vegna þess, hvernig hann hafði haldið á málinu. Það eru margir, sem sækja um sérleyfi og ekki komast að. Það eru margir, sem vilja komast að og hafa sérleyfi við hliðina á öðru, og mörgum er synjað um það, vegna þess að yfirleitt er reynt að sneiða hjá því að gera ferðirnar óarðbærar með því að hafa of marga á leiðunum. Það er höfuðstefnan að reyna að forðast slíkt. Þetta eru ástæðurnar fyrir því, að ég taldi það alls ekki rétt, að Verzlunarfélagið fengi sérleyfi eða undanþágu.