15.05.1957
Sameinað þing: 57. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 448 í D-deild Alþingistíðinda. (2889)

166. mál, sérleyfi til fólksflutninga með bifreiðum

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Hv. 1. þm. Reykv. var að tala um, að ég hefði verið hér heldur stórorður. Ég er alls ófeiminn að láta fara hér fram úttekt á því, sem ég hef sagt, annars vegar og því, sem hv. þm. Sjálfstfl. hafa látið sér um munn fara, hins vegar í þessum umr. Ég er alveg ófeiminn að láta fara fram úttekt hlutlausra manna á því og mun þá sýna sig, hvernig útkoman af því dæmi verður.

Ég vil svo aðeins segja þetta út af því, sem hv. 1. þm. Reykv. tók fram: Það er ekki vefengt hér, að ég hafi haft fullan rétt að lögum til þess að ráðstafa þessu máli. Spurningin er aðeins sú, hvort það hafi verið eðlilegt af mér eða sanngjarnt að fallast ekki á að veita þessu félagi, sem hér er um að ræða, sérleyfi, eins og ástæður voru. Þeir halda því hér fram, hv. talsmenn sjálfstæðismanna, að framkoma Verzlunarfélagsins hafi verið alveg eðlileg og ekkert að henni hægt að finna og þess vegna eðlilegt að verðlauna framkomu þess með því, að það fengi nú sérleyfi. Ég hef haldið allt öðru fram og er á annarri skoðun. Þeim finnst það hafa verið allt í lagi af félagsins hendi að kría sér fyrst út sérleyfi með þeim rökum, að það væri mikil nauðsyn á því, að það héldi uppi ferðum sjálfs sín vegna, félagsmannanna vegna og vegna fólksins í Vestur-Skaftafellssýslu, þeir halda því sem sé fram, að það hafi verið allt í lagi að kría sér út sérleyfi með þessum rökum, vanrækja síðan að koma þessum ferðum á, fá sér ekki einu sinni bifreið, sem hugsanlegt væri að nota til þessara ferða, fela öðrum manni ferðirnar, fyrst þannig, að þær væru ræktar að nokkru leyti, en fella þær síðan alveg niður. Þetta finnst þeim hafa verið allt í lagi og ekkert við þetta að athuga og þetta hafi verið hæfilegur undirbúningur að því, að þetta félag hlyti að eiga alveg sjálfsagðan rétt til þess að fá sérleyfi, þegar því sýndist, sem það ætlaði þá raunverulega að fara að rækja. En ég segi aftur á móti, að hvað sem formunum líður í þessu máli, þá væri það alveg óeðlilegt eftir svona frammistöðu, að félaginu væri veitt þetta sérleyfi. Um þetta verða menn svo að dæma.