01.02.1957
Efri deild: 49. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1 í C-deild Alþingistíðinda. (2892)

103. mál, menntun kennara

Flm. (Friðjón Skarphéðinsson):

Herra forseti. Við hv. 8. landsk. flytjum frv. þetta um breyt. á l. nr. 16 frá 1947, um menntun kennara. Frv. sama efnis hefur tvívegis áður verið flutt hér á hv. Alþ., en hefur ekki náð fram að ganga. Frv. er því gamalkunnugt þeim hv. þm., sem setið hafa á Alþingi undanfarið kjörtímabil.

Í lögum um menntun kennara er svo ákveðið í 38. gr., að húsmæðrakennaraskóli skuli starfa í Reykjavík eða nágrenni. Í 39. gr. laganna er svo fyrir mælt, að heimavistir skuli byggðar fyrir skólann fyrir nema, sem heima eiga utan Reykjavíkur, þegar hús verður reist fyrir hann. Að öðru leyti er ekki ástæða til að rekja efni laganna, því að frv. fjallar einungis um þessi tvö atriði.

Í frv. felst það, að niður sé fellt úr lögunum ákvæðið um, að skólinn skuli starfa í Reykjavík eða nágrenni. Í stað þess komi ákvæði um, að ráðh. ákveði, hvar skólinn skuli starfa. Í samræmi við þetta gerir frv. ráð fyrir, að fellt sé niður ákvæðið um sérstöðu nemenda utan Reykjavíkur.

Við hv. 8. landsk. flytjum þetta frv. nú sökum þess, að við teljum nokkurt tilefni til þess, jafnvel umfram það, sem var, þegar frv. var flutt 1953 eða 1954. Húsmæðrakennaraskólinn hefur verið til húsa í háskólanum allt frá stofnun skólans 1943 og þar til á s.l. ári. Þá missti hann afnot af húsnæðinu og er nú húsnæðislaus og starfar ekki af þeim sökum í vetur, og ekki er fyrirsjáanlegt, að hann geti aftur tekið til starfa, fyrr en byggt hefur verið hús fyrir hann, ef það ákvæði á að haldast, að hann skuli hafa aðsetur í Reykjavík eða nágrenni.

Nokkrar fjárupphæðir hafa verið á fjárlögum undanfarin tvö ár, að ég ætla, til byggingar fyrir skólann. Upphæðir þessar eru hins vegar ekki það háar, að líkur séu til þess, að skólinn verði byggður á næstu árum, þó að fjárveitingar til hans verði svipaðar framvegis.

Það er að sjálfsögðu mjög bagalegt, að ekki nýtast starfskraftar húsmæðrakennaraskólans, og ekki síður hitt, að þeir, sem hug hafa á að stunda nám í skólanum, skuli ekki eiga þess kost.

Fyrir okkur flm. frv. vakir það, að opnuð verði leið til þess að ráða bót á þessu. En svo sem bent er á í grg. frv., eru allar líkur á, að hægt verði að fá til afnota fyrir þennan skóla skólahús húsmæðraskólans á Akureyri. Þessi skóli hefur ekki starfað undanfarin ár allmörg, og nú hin síðari ár hefur húsið aðallega verið notað af barnaskólanum á Akureyri. Barnaskólinn mun hins vegar ekki þurfa afnot þess, er þessi vetur er liðinn, vegna nýs barnaskólahúss, sem væntanlega verður tilbúið til notkunar næsta haust. Í frv. eru að sjálfsögðu engin fyrirmæli um, að skólinn skuli fluttur til Akureyrar, heldur er aðeins opnuð heimild til, að þangað mætti flytja hann eða á einhvern annan stað, ef skynsamlegt þætti. Við flm. þessa frv. sjáum engin rök fyrir því, að nauðsynlegt sé, að skóli þessi starfi í Reykjavík frekar en annars staðar. Hins vegar teljum við það ærin rök fyrir því, að hann starfi utan Reykjavíkur, ef það gæti orðið til þess, að hann tæki til starfa aftur strax næsta haust, en þyrfti ekki að vera til einungis á pappírnum. Í öðru lagi teljum við það ærin rök, að gera má ráð fyrir miklum sparnaði á fé ríkissjóðs, ef að því ráði yrði horfið að fá til handa skólanum hús, sem þegar er til og byggt hefur verið að verulegu leyti fyrir fé ríkissjóðs.

Ég sé ekki efni til að fara um þetta fleiri orðum, nema tilefni gefist til, og legg til, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. menntmn.