01.02.1957
Efri deild: 49. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 2 í C-deild Alþingistíðinda. (2893)

103. mál, menntun kennara

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Á þessu stigi málsins var það aðallega til þess að beina vissum atriðum málsins til nefndarinnar og biðja hana að athuga þau alveg sérstaklega, að ég kvaddi mér hljóðs.

Það fyrsta, sem mig langar til að fá upplýst, er, hverjar orsakir hafi legið til þess, að húsmæðrakennaraskólanum er sagt upp húsnæði í háskólanum i haust, hann ekki látinn starfa. Þeir nemendur, sem ætluðu þar að vera, sigla sumir til náms í erlendum skólum, a.m.k. þrjár, sem ég þekki persónulega, hafa gert það, og ég hef heyrt um tvær aðrar. En húsnæðið er ekkert notað, stendur bara autt, að mér er sagt, og alveg ónotað. Alveg nýlega frétti ég, að það stæði á því, að þeir menn, sem ætluðu sér að nota húsnæðið, frá læknadeildinni, væru enn í undirbúningsnámi úti í löndum og ekki komnir heim, enn væri ekki farið að innrétta húsnæðið til þess að nota það sem slíkt, því síður að væri farið að nota það á nokkurn hátt.

Þetta langaði mig til að biðja n. að rannsaka og gefa okkur þingmönnum upplýsingar um. Mér er sagt, að málið horfi svona við. Reynist það ekki rétt, þá mun það koma í ljós á sínum tíma, þegar n. hefur athugað málið, en mér sagði þetta maður háskólanum nátengdur í gær, að það væri ekki byrjað að nota húsnæðið á nokkurn hátt.

Við erum nú svo heppnir að hafa hér á meðal okkar núna einn af prófessorum háskólans, hæstv. ráðherra, sem hefur þar með menntamálin að gera, og hann getur kannske þegar á þessu stigi upplýst það til fullnustu. Sem sagt, þetta vil ég láta n. rannsaka til þrautar, því að það er alveg óforsvaranlegt að láta skólann hætta og starfa ekki í vetur, ef húsnæðið er ekki neitt notað, þó að það eigi að nota það næsta vetur eða fara að innrétta það í sumar eða einhvern tíma handa manni, sem kemur frá námi seinna, en ekki er kominn til landsins enn þá, því síður að hann sé byrjaður að starfa.

Annað vildi ég vita hjá frsm. eða biðja nefndina að athuga málið, en það var um þennan auða, ónotaða skóla á Akureyri. Það lítur út fyrir, að stúlkur á Akureyri vilji ekki nýta heimaskóla, af hverju sem það nú er, heldur fara annað til náms. Má það raunar undarlegt heita. Þar sem Akureyri var um skeið brautryðjandi í menntun kvenna á þessu sviði, er það undarlega snögg breyting, sem orðið hefur á þar. En um hana er nú ekki að fást, hún virðist raunveruleg. Nú upplýsti frsm., að þetta húsnæði stæði autt og ónotað, gaf þó í skyn, að það væri eitthvað notað nú í vetur frá barnaskólanum, en að þau not, sem barnaskólinn nú hefði af húsnæðinu, mundi hann ekki þurfa í framtíðinni.

Ég hafði heyrt það, að barnaskólinn notaði húsnæðið, og mér hafa sagt Akureyringar, að hann muni a.m.k. þurfa þess næsta ár eða þá að fá annað húsnæði í staðinn. Líka langaði mig til að biðja nefndina að athuga, hvað rétt er í þessu og hvernig þetta liggur. Það má vel vera, að þær vonir, sem frsm. málsins gerði sér um það, að barnaskólinn þyrfti ekki á þessu húsnæði að halda nema í vetur, séu réttari en hjá þeim, sem hafa sagt mér hið gagnstæða. En þegar maður veit, hvernig málið liggur þar fyrir norðan, og það geri ég ráð fyrir að n. fái vitneskju um, þá sést betur, hvort skólinn er fáanlegur. Menn eru misbjartsýnir á hlutina, og þó að frsm. þessa máls sé það bjartsýnn að telja, að þær byggingar verði komnar upp, sem geri óþarft fyrir barnaskólann að nota þetta húsnæði lengur en til næsta vors eða til sumarsins í sumar, þá telja aðrir það áreiðanlega ekki, það veit ég með vissu, og þess vegna langar mig til að vita, hvaða niðurstöðum n. kynni að komast að í því sambandi.

Að öðru leyti skal ég ekki á þessu stigi málsins fara út í málið i einstökum atriðum. Það á ekki við, og ég skal ekki gera það. En ég vil biðja n. að athuga þetta tvennt og alveg sérstaklega þetta: Ég tel ekki forsvaranlegt að reka skólann úr húsnæði, nota það ekki á nokkurn hátt, senda stúlkur utan til náms með opinberum styrk og láta þær eyða gjaldeyri í staðinn fyrir að lofa skólanum að starfa í húsnæðinu, þangað til þurfti að fara að laga það, svo að það yrði tilbúið fyrir nýja manninn, þegar hann kemur heim.