11.03.1957
Efri deild: 67. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 10 í C-deild Alþingistíðinda. (2901)

103. mál, menntun kennara

Frsm. minni hl. (Friðjón Skarphéðinsson):

Herra forseti. Ég, einn nm. hv. menntmn., varð til þess að mæla með frv. því, sem hér er á dagskrá, enda flm. þess ásamt hv. 8. landsk. þm. (BjörnJ).

Í lögum nr. 16 frá 12. marz 1947, um menntun kennara, er ákveðið, að Húsmæðrakennaraskóli Íslands skuli starfa í Reykjavík eða nágrenni. Höfuðefni frv. er, eins og hv. frsm. meiri hl. gerði grein fyrir, það, að ráðh. skuli ákveða, hvar skólinn starfi. Yrði þar með opnuð leið til þess að flytja hann brott úr Reykjavík, ef henta þætti. Rök fyrir því, að ástæða sé til þess að opna þessa heimild, eru sett fram í grg. frv. og voru einnig nokkuð skýrð, er málið var til 1. umr. hér í hv. d., og ég mun gera þeim rökum enn fyllri skil, áður en ég lýk máli mínu.

Rökin gegn frv. hefur frsm. meiri hl., hv. þm. Barð. (SE), greint í framsöguræðu sinni, og eru þau að verulegu leyti sótt í grg. forstöðukonu húsmæðrakennaraskólans og grg. skólanefndar sama skóla og nemendasambands, en þessar grg. allar eru prentaðar sem fskj. með nál meiri hl.

Grg. eru langorðar, en ekki að sama skapi réttorðar að mínum dómi. Í þeim er lagt á það ofurkapp, að þau ókjör hendi ekki, að skólinn verði fluttur brott úr Reykjavík og ef til vill til Akureyrar, enda segir forstöðukonan í sinni grg., að húsmæðrakennaraskólinn verði að starfa í Reykjavík.

Þegar litið er yfir grg. þessara aðila, forstöðukonunnar, skólanefndarinnar og nemendasambandsins, þá sýnist mér meir gæta kapps en forsjár. Þar er bersýnilega ekki um að ræða hlutlausar umsagnir eða hlutlægar umsagnir þessara aðila, svo sem maður hefði talið að ætlast mætti til, heldur er þarna, sýnist mér, áróður, sem styðst við næsta veigalítil rök. Segja má þó, að afstaða þessara aðila til málsins sé þeim nokkurt vorkunnarmál. Skólinn er stofnaður hér í Reykjavík og hefur starfað hér og þróazt undir handleiðslu skólanefndar og forstöðukonu. Þeim vex í augum sú breyting, sem óhjákvæmilega hlyti af því að leiða, ef skólinn yrði fluttur brott úr bænum, auk þess sem vafasamt er eða jafnvel ólíklegt, að sama skólanefnd gæti annazt yfirstjórn skólans, ef hann flytti brott.

Þær konur, sem numið hafa við skólann, hafa tekið við hann tryggð á þessum ákveðna stað, eins og venjulegt er um skólanema yfirleitt. Þeir festa venjulega tryggð við sinn gamla skóla í þeirri mynd, sem hann var, þegar þeir stunduðu þar nám, og vilja gjarnan, að hann haldist í svipuðum skorðum.

Grg. eru að sjálfsögðu litaðar af þessum sjónarmiðum. Slík sjónarmíð getur löggjafarvaldið þó ekki viðurkennt. Skólinn er fyrst og fremst fyrir þá nemendur, sem hér eftir eiga að stunda þar nám, og ber að hafa það í huga, þegar á mál þetta er litið. En vegna afstöðu meðnefndarmanna minna í hv. menntmn., svo og til þess að málið skýrist nokkru betur, þykist ég ekki komast hjá að taka nokkuð til meðferðar þau atriði, sem í grg. eru talin rök gegn frv., og leitast við að sýna fram á haldleysi þeirra.

Ég mun fyrst fjalla um umsögn forstöðukonunnar. Hún segir í upphafi máls síns, að ráðnir hafi verið til skólans færustu sérfræðingar, sem völ er á í landinu, það sé sú trausta undirstaða, sem skólanum yrði stórkostlegt tjón af að missa. Ekki hvarflar að mér að draga í efa ágæti þeirra kennara, sem að skólanum hafa valizt. Til fróðleiks hef ég aflað mér upplýsinga um, hverjir það voru s.l. ár. Auk forstöðukonunnar er aðeins einn fastur kennari, Sigríður Kristjánsdóttir. Stundakennarar voru Ingólfur Davíðsson, sem kenndi grasafræði 2 stundir í viku, Júlíus Sigurjónsson prófessor, sem kenndi næringarefnafræði 4 stundir í viku, Ófeigur Ófeigsson læknir, sem kenndi heilsufræði og líffærafræði 2 stundir í viku, Steingrímur J. Þorsteinsson prófessor, sem kenndi íslenzku 2 stundir í viku, Trausti Ólafsson efnafræðingur sem kenndi efna- og eðlisfræði 2 stundir í viku, Þorleifur Þórðarson, sem kenndi bókhald og búreikninga 2 stundir í viku, og Broddi Jóhannesson, sem kenndi uppeldisfræði 4 stundir í viku annað hvert ár.

Þetta eru vissulega ágætir menn, en ég staðhæfi, að á Akureyri er einnig völ á ágætum mönnum til þess að kenna allar þessar fræðigreinar og það mönnum með háskólaprófi, þannig að ég álít, að það sé fjarri sanni að halda því fram, að skólinn mundi bíða stórkostlegt tjón af þessum ástæðum eða hann standi og falli með þeim ágætu kennurum, sem nú starfa við hann.

Hv. þdm. vel flestir eru á þeim aldri að muna 30 ár aftur í tímann. Þá var hér á hinu háa Alþingi og á vettvangi blaða deilt um það, hvort heimila ætti stofnun menntaskóla á Akureyri. Ein af röksemdunum, sem uppi var höfð gegn því. að svo skyldi gert, var sú, að þar mundi ekki vera unnt að fá nægilega marga hæfa kennara til þess að kenna undir stúdentspróf. Menntaskólinn var stofnaður, eins og kunnugt er, og enginn mun síðan hafa haldið því fram, að kennarar þess skóla stæðu að baki sínum ágætu stéttarbræðrum við menntaskólann hér i Reykjavík, og ég er sannfærður um, að þannig mundi einnig fara, ef húsmæðrakennaraskólinn yrði staðsettur á Akureyri.

Þá segir forstöðukonan, að eingöngu hér í Reykjavík sé aðstaða til að stunda verklegar æfingar í næringarefnafræði, en þær fari fram í háskólanum, utan Reykjavíkur verði að koma á fót sérstakri rannsóknarstofu fyrir matvæli í skólanum sjálfum. Að sjálfsögðu hafa þessar verklegu æfingar í næringarefnafræði, sem forstöðukonan svo kallar, farið fram í háskólanum hingað til, meðan öll kennsla fór þar fram. En eru nú líkur til, að þegar skólinn tæki til starfa að nýju í nýju húsi, sem er þó væntanlega í æði mikilli fjarlægð frá háskólanum, — eru þá líkur til þess, að þetta mundi verða svo framvegis? Ég er engan veginn viss um það. Og ég hygg, að tæki til þessara rannsókna, að svo miklu leyti sem þau eru nauðsynleg, yrðu hvort sem er sett upp í hinum nýja skóla, og kemur þá í einn stað niður, hvort það yrði í Reykjavík eða annars staðar. Annars er mér tjáð, að þessar svokölluðu verklegu æfingar í næringarefnafræði séu í því fólgnar, að kennarinn sýnir nemendum einföldustu tilraunir í efnagreiningu með tiltölulega einföldum tækjum.

Næsta mótbára forstöðukonunnar er sú, að samstarf þurfi að vera á milli Hjúkrunarkvennaskóla Íslands og húsmæðrakennaraskólans, nemendur húsmæðrakennaraskólans hafi kennt hjúkrunarnemum tilbúning sjúkrafæðu í æfingakennslu, en forstöðukona hjúkrunarkvennaskólans kenni nemendum húsmæðrakennaraskólans hjálp í viðlögum, sem svo er kölluð. Vel má þetta vera rétt. En ég staðhæfi, að slík æfingakennsla gæti einnig átt sér stað, t.d. á Akureyri. Við fjórðungssjúkrahúsið þar er ævinlega nokkur hópur hjúkrunarnema, og í sjúkrahúsinu nýja eru ákjósanleg skilyrði fyrir slíka kennslu, ef hún telst nauðsynleg, sem ég vil ekki draga í efa að sé. Þar að auki er hægt að velja úr ýmsum hæfum mönnum þar til þess að kenna hjálp í viðlögum.

Þá eru það gagnfræðaskólaeldhúsin til æfingakennslunnar. Forstöðukonan telur nauðsynlegt að kenna samtímis í þrem gagnfræðaskólaeldhúsum. Þetta kann vel að vera rétt. En þetta er bara engu síður hægt á Akureyri en í Reykjavík. Í gagnfræðaskólanum á Akureyri er að vísu aðeins eitt skólaeldhús, en í húsi því, sem húsmæðrakennaraskólanum stendur til boða, eru einmitt tvö stór skólaeldhús, búin fullkomnum tækjum. Allir nemendur gagnfræðaskóla Akureyrar nema matreiðslu, bæði þeir sem stunda nám í verknámsdeild og bóknámsdeild. Örstutt er á milli þessara skóla, og að sjálfsögðu er opin leið til þess að hafa samvinnu við gagnfræðaskólann um; að nemendur kæmu til matreiðslunáms í húsmæðrakennaraskólann, þegar á þyrfti að halda, og þar eru ákjósanlegustu skilyrði til slíkrar æfingakennslu, þannig að á Akureyri er samtímis hægt að láta fara fram æfingakennslu í þrem skólaeldhúsum.

Ég ræddi þetta mál sérstaklega við Þorstein M. Jónsson, sem lengst af hefur stjórnað gagnfræðaskólanum á Akureyri og hefur nú fyrir skömmu látið af því starfi. Hann staðhæfir, að ekkert sé því til fyrirstöðu að koma slíkri samvinnu á milli þessara skóla, ef um það yrði að ræða.

Þá segir forstöðukonan, að síðasta námstímabilið sé haldið í skólanum námskeið fyrir ungar stúlkur fyrri hluta vetrar, en fyrir eldri og þroskaðri nema síðari hluta vetrar, þessi þáttur námsins sé mjög mikilvægur undirbúningur nemenda undir kennslustörfin, og skal ég ekki draga í efa, að svo sé. En forstöðukonan segir, að hvergi utan Reykjavíkur sé hægt að fullnægja þessu ákvæði kennslureglugerðarinnar. Hins vegar segir hún ekki, hvers vegna það sé ekki hægt, enda er þess naumast að vænta, því að þessi staðhæfing hennar er gersamlega úr lausu lofti gripin. Þessi námskeið geta farið fram á Akureyri nákvæmlega á sama hátt og í Reykjavík, og margvísleg námskeið hafa iðulega farið þar fram í húsmæðraskólanum, eftir að hann hætti að starfa sem reglulegur húsmæðraskóli og sennilega áður líka, meðan fastir kennarar voru yfirleitt við skólann. Á Akureyri búa um 8 þús. manns, og þéttbýlar sveitir eru þar umhverfis og allmörg sjávarþorp í grenndinni, og engin vandkvæði eru á því að koma upp slíkum námskeiðum hvenær sem er hér eftir sem hingað til.

Enn segir forstöðukonan, að á sumrin hafi húsmæðrakennaraskólinn starfað að Laugarvatni, og færir rök að nauðsyn þess. Ekki dreg ég í efa, að slíkt sé heppilegt og ákjósanlegt, enda engin ástæða til þess, að nokkur breyting yrði þar á, þótt skólinn yrði fluttur brott frá Reykjavík. Þessi mótbára fellur því um sjálfa sig. Hins vegar má benda á það, að ef henta þætti, gæti sumarkennsla Húsmæðrakennaraskóla Íslands farið fram í húsmæðraskólanum að Laugum í Suður-Þingeyjarsýslu. Þar eru sömu skilyrði og á Laugarvatni. Þar er jarðhiti og nægileg gróðurmold til garðræktar, eins og vænta má að nauðsynlegt sé við þessa sumarkennslu.

Enn segir forstöðukonan, að samvinna milli húsmæðrakennaraskólans og kennaraskólans sé æskileg, enda séu þetta skyldir skólar. Hingað til hefur þessi samvinna, skilst mér, engin verið og allt komizt vel af, að því er mér skilst, og mundi svo eflaust verða hér eftir.

Þá kem ég að þættinum um heimavistarmálið. Forstöðukonan bendir réttilega á það, að í frv. sé ákvæði um heimavistir, enda sé nauðsynlegt að hafa heimavistir við skólann, ef hann er utan Reykjavíkur. Þetta er alveg rétt. Það er vitanlega nauðsynlegt. En það er líka nauðsynlegt að hafa heimavistir við skólann, enda þótt hann sé í Reykjavík, enda er ákveðið í lögunum frá 1947, um menntun kennara, að heimavist skuli vera við skólann í Reykjavík. Þetta virðist forstöðukonan ekki vita eða læzt ekki vita, nema því sé þannig farið, að hún hafi ekki áhuga á, að nemendur utan Reykjavíkur hafi aðstöðu til að stunda nám við skólann. En ég vil nú ekki halda slíku fram, heldur er hér væntanlega um að ræða það, að gripið er til þess háttar málflutnings, þegar rökin brestur.

Mér þykir mjög sennilegt, og raunar þykir mér það vafalaust, að það þurfi að breyta einhverri innréttingu þessa skólahúss á Akureyri, ef það yrði tekið til nota fyrir Húsmæðrakennaraskóla Íslands. Eins og hv. frsm. meiri hl. benti á, er bersýnilegt, að það þarf breytingu til þess að koma þar fyrir heimavist fyrir nemendur skólans. Liggur það í augum uppi. En þetta er raunar órannsakað mál, hve stórkostleg eða stórvægileg þessi breyting á innréttingunni þurfi að vera. en yrði án efa rannsakað, ef frv. þetta næði fram að ganga.

Hv. frsm. meiri hl. kom inn á það í sinni framsöguræðu, að hann teldi ekki óeðlilegt að breyta skólahúsinu á Akureyri á þann veg, að þar væri komið fyrir heimavistum, og þá kynni að vera leystur sá vandi, sem valdið hefur því, að skólastarf húsmæðraskólans á Akureyri hefur fallið niður. Í þessu felst dálítill misskilningur hjá hv. þm. Þannig er mál með vexti, að húsmæðraskólinn á Akureyri er byggður fyrir ca. 40 nemendur, og ef heimavistir ættu að vera við skólann, þá yrði að sjálfsögðu að byggja sérstakt hús fyrir heimavistirnar, þ.e.a.s. ef um væri að ræða að byggja heimavist fyrir húsmæðraskólann. Hins vegar er skólahúsið það stórt, að ég þykist nokkurn veginn viss um, að ef það yrði tekið til nota fyrir Húsmæðrakennaraskóla Íslands, þá mundi aftur á móti vera nægilegt rúm í skólahúsinu sjálfu fyrir heimavistir, vegna þess að Húsmæðrakennaraskóli Íslands hefur það fáa nemendur. Þeir hafa verið, skilst mér, 12 eða þar um bil undanfarin ár. Þessu er því ekki hægt að jafna saman.

Þá leyfir þessi forstöðukona sér að staðhæfa, að engin kennslutæki séu þarna í húsmæðraskólahúsinu á Akureyri og þess vegna, meðal annarra hluta, komi ekki til mála að taka húsið til nota fyrir húsmæðrakennaraskólann. Auðvitað er það gersamlega rangt, að þar séu engin kennslutæki. Þar eru einmitt margvísleg kennslutæki í sambandi við matreiðslu, t.d. tvö stór eldhús, eins og ég hef þegar skýrt frá, og þau eru búin fullkomnum tækjum, og þar eru einnig tæki til þvotta og línstroks, sem ég er sannfærður um að koma mundu að fullu gagni fyrir húsmæðrakennaraskólann. En mér er nú spurn: Á Húsmæðrakennaraskóli Íslands engin kennslutæki? Ég held hann hljóti að hafa aflað sér þeirra undanfarin ár, og vitanlega flyttust þau með skólanum, hvar sem honum væri valinn staður.

Þá fjallar einn þáttur grg. forstöðukonunnar um æskilega stofnun ráðskonudeildar við húsmæðrakennaraskólann, sem veiti konum undirbúning til þess að vera ráðskonur við sjúkrahús, hótel og veitingastaði, ráðskonuefnin yrðu að vinna tiltekinn tíma við mismunandi stórar stofnanir, og þetta staðhæfir hún að hvergi sé hægt nema í Reykjavík, vegna þess að hvergi séu mismunandi stærðir af sjúkrahúsum eða hótelum til á landinu nema hér í Reykjavík. Hér held ég að sé blekking á ferðinni, og ég furða mig raunar á því, að forstöðukona þessa veglega skóla skuli hafa slíkt í frammi. Í lögum um þennan skóla segir nefnilega, að námið skuli vera í tveim hliðstæðum deildum. Í annarri deildinni eru nemendur búnir undir það að verða húsmæðrakennarar, og það er sú deild, sem mér skilst að hingað til hafi starfað. Hin deildin mun að líkindum ekki hafa tekið til starfa enn. En í hinni deildinni á að undirbúa nemendur undir ráðskonustörf við heimavistarskóla eða aðrar opinberar stofnanir. Inntökuskilyrði í þá deild er m.a., að nemar hafi unnið í 12 mánuði hið minnsta við eldhússtörf í matsöluhúsi, heimavistarskóla, sjúkrahúsi eða hliðstæðum stofnunum. Vitanlega er nákvæmlega sama, hvort það er gert í Reykjavík eða utan Reykjavíkur, og í því sambandi skiptir engu máli, hvar á landinu skólinn starfar, því að nemarnir eru alls ekki í skólanum, meðan þeir vinna sinn skyldutíma í þessum stofnunum.

Auk þess eru, eins og allir vita, á Akureyri og í grennd við Akureyri tvö sjúkrahús, náttúrlega mismunandi stór, þ.e. fjórðungssjúkrahúsið og sjúkrahúsið í Kristnesi. Þar eru líka mismunandi stórir veitingastaðir. En þetta skiptir að mínu viti engu máli. Nemarnir gætu unnið sinn tíma í þessum stofnunum, hvar sem er á landinu, í Reykjavík eða hvar sem er annars staðar, jafnvel erlendis, ef svo stæði á. Ég stend því í þeirri meiningu, að forstöðukonan fari hér með staðlausa stafi.

Þá kveðst forstöðukonan óttast, að aðsókn að skólanum yrði ekki eins mikil, ef hann starfaði í öðrum landsfjórðungi, eins og hún orðar það. Fyrir þessu færir hún engin rök, enda ekki von, því að slík rök eru ekki til.

Mér sýnist því fátt eitt eftir af þeim atriðum, sem forstöðukonan ræðir um sem rök gegn brottflutningi skólans. Mér sýnist það falla allt um sjálft sig, þegar það er athugað, og raunar gegnir nákvæmlega sama máli um grg. skólanefndarinnar. Þeirri grg. hef ég gert næg skil nú þegar, því að hún fjallar að langmestu leyti um sömu atriði og grg. forstöðukonunnar, og skal það ekki endurtekið.

Ég vil aðeins benda á það, að skólanefndin segir, að skólinn mundi ekki njóta starfskrafta forstöðukonu þeirrar, sem nú er við skólann, ef hann yrði fluttur, hún mundi segja af sér starfinu. Þetta og annað eins getur að sjálfsögðu hið háa Alþingi ekki látið bjóða sér sem rök í málinu.

Þá segir þessi blessuð skólanefnd, að allar líkur séu til, að nemendur fengjust ekki frekar til þess að stunda nám í húsmæðrakennaraskólanum, ef hann yrði fluttur til Akureyrar, heldur en að nemar fengjust til að stunda nám í húsmæðraskólanum þar, eins og reynslan hefur sýnt, og megi því búast við, að skólinn yrði lagður niður. Hin trega aðsókn að húsmæðraskóla í þessari byggingu bendir eindregið til þess, að þessi hætta vofi yfir, segir skólanefndin. Þessi vísa nefnd virðist standa í þeirri meiningu, að einhverjir vankantar eða ágallar séu á húsinu sjálfu, sem hafi valdið því, að það varð óhæft sem skóli. Þetta er auðvitað reginfjarstæða. Ástæðan til þess, að skólinn lagðist niður, var einfaldlega sú, að húsmæðraskólar í landinu voru of margir. Það var ekki hægt að fylla þá alla. Á Norðurlandi eru slíkir húsmæðraskólar í hverri sýslu. Það er húsmæðraskóli á Blönduósi, það er húsmæðraskóli í Skagafirði, það er húsmæðraskóli í Eyjafirði, örskammt frá Akureyri, það er húsmæðraskóli að Laugum í Suður-Þingeyjarsýslu. Þá er húsmæðraskóli á Austurlandi, á Hallormsstað, á Vesturlandi og Suðurlandi á ýmsum stöðum, eins og kunnugt er.

Ástæðan til þess, að húsmæðraskólinn á Akureyri hætti störfum eða aðsókn að honum varð ekki næg til þess, að þar væri hægt að halda uppi skólastarfsemi, var einfaldlega sú, eins og ég sagði áðan, að húsmæðraskólarnir voru of margir. Og þá varð vitanlega sá skóli fyrst útundan, sem ekki gat boðið nemendum upp á heimavist, og það vær einmitt húsmæðraskólinn á Akureyri. Allir hinir skólarnir, sem ég nefndi, hafa heimavistir.

Ég held, að það nái engri átt að halda því fram, eins og þessi skólanefnd gerir, að ef skólinn yrði fluttur brott, þá mundi hann annaðhvort leggjast niður eða þurfa að starfa við miklu lakari aðstæður en í Reykjavík. Hitt er sönnu nær, að ef hið háa Alþingi ákveður, að skólinn skuli vera í Reykjavík, þ.e., ef frv. þetta verður fellt, þá eru allar líkur til þess, að skólinn muni leggjast niður um langt skeið, vegna þess að mörg ár munu líða þar til nægilegt fé verður fyrir hendi til þess að byggja skólann.

Um grg. nemendasambandsins get ég verið fáorður. Þar er því haldið fram sem rökum í málinu, að húsmæðrakennaraskólinn sé beint framhald af Kennaraskóla Íslands. Hvað sem liður sanngildi þessarar kenningar, sé ég ekki, að það komi þessu máli nokkurn skapaðan hlut við. Það eru t.d. ekki frambærileg rök að halda því fram, að allir menntaskólar í landinu skuli vera í Reykjavík, vegna þess að háskólinn er hér í Reykjavík. Þá segir í þessari grg., að húsmæðrakennaraskólinn eigi margt sameiginlegt með handíðakennaraskólanum og sameina mætti kennslu þeirra í einhverjum greinum. Þetta hefur þó ekki verið gert, skilst mér, og svo eru þessar blessaðar konur svo rökfimar að tala um, að það eigi að bægja skólanum frá samstarfi við aðra skóla, þar sem ekkert slíkt samstarf hefur átt sér stað.

Þá er þarna einn þátturinn eða endurtekinn þátturinn um æfingakennsluna. Ég hef þegar sýnt fram á, að á Akureyri eru a.m.k. þrjú fullkomin stór skólaeldhús, og þarf ekki að endurtaka það.

Um átthagasjónarmið og stundarsparnað, sem rætt er um eða minnzt er á í grg. nemendasambandsins. þarf ég ekki margt að segja. Ég mótmæli því algerlega, að hér sé um að ræða átthagasjónarmið. En þeir, sem búa í glerhúsi, ættu ekki að kasta grjóti. Mér sýnist ekki betur en átthagasjónarmið skini í gegn hjá þeim ágætu konum, sem greinargerðirnar senda. Ég mundi ekki leggja til, að þessi skóli skyldi mega starfa utan Reykjavíkur, ef ég væri ekki sannfærður um, að hægt er að bjóða honum jafngóð starfsskilyrði annars staðar. Hér er ekki heldur um að ræða stundarsparnað aðeins. Hér er hreinlega um að ræða milljónasparnað í bráð og lengd.

Ég þykist nú hafa sýnt fram á haldleysi þeirra raka, sem færð eru fyrir því, að þessi skóli þurfi nauðsynlega að vera í Reykjavík. Málið er ofur einfalt. Skólinn hefur hér ekkert húsnæði og starfar ekki af þeim sökum. Það eru engar líkur til þess, að hann geti fengið eigið hús í Reykjavík á næstu árum.

Hv. frsm. gat þess, að uppi væri sú skoðun, að skynsamlegt kynni að vera að kaupa sérstakt hús hér í Reykjavík fyrir skólann. En að mínu viti eru ekki fyrir hendi fjárveitingar til slíkra húsakaupa. Hins vegar eru í fjárlögum í ár og tveggja næstliðinna ára nokkrar fjárveitingar til byggingar nýs skóla, svo að að svo komnu er ekki um kaup á húsi að ræða, skilst mér. Einar 700 þús. kr. eru nú til í væntanlega byggingu, sem kostar 3–4 millj. En vandað og að ég ætla heppilegt skólahús er til, sem stendur til boða á Akureyri. Hví ekki að nota það og leysa þetta mál þar með á skynsamlegan hátt, í stað þess að bíða ef til vill í mörg ár eftir því, að skólinn geti tekið til starfa í Reykjavík? Hví ekki að spara þessar 3-4 millj. kr., sem skólinn mundi kosta, og væntanlega yrði að byggja við hann heimavist samkv. lögunum, hví ekki að spara þetta fé, þegar eins gott tækifæri er til þess og raun ber vitni? Eða hvers vegna ekki að nota þetta fé til annarra skólabygginga, þar sem alkunnugt er, að víða vantar tilfinnanlega skólahús? Sumar sveitir eru jafnvel þannig settar, eins og ýmsir hv. þdm. munu vita, að þar er bókstaflega ekki til skólahús fyrir barnakennslu, hvað þá annað, eða gagnfræðaskóla og ýmsa aðra skóla. Og það er vitanlegt, að það eru engin tök á því. að ríkissjóður geti á skömmum tíma lagt fram það mikið fé til skólabygginga í landinu, að hægt sé að fullnægja þörfinni. Ég held, að hv. þm. ættu að hugsa sig tvísvar um, áður en þeir hafna þessu máli.