11.03.1957
Efri deild: 67. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 22 í C-deild Alþingistíðinda. (2904)

103. mál, menntun kennara

Björn Jónsson:

Herra forseti. Ég verð að segja það, að mér finnst umhyggjan fyrir þessum skóla, sem hér er rætt um, vera orðin nokkuð mikil eða öllu heldur umhyggjan fyrir því, að hann verði ekki fluttur norður á Akureyri, þegar þau ummæli eru hér viðhöfð, að það sé miklu betra, að hann starfi ekki í eitt eða tvö ár til viðbótar þessu elna skólaári, sem hann hefur nú þegar verið algerlega húsnæðislaus, frekar en að hann færi norður, og þegar því er haldið fram, að kennslukraftar hljóti alltaf að verða þeim mun lakari á Akureyri, að það sé betra, að skólinn starfi ekki, heldur en að hann fari þangað og njóti þeirra krafta, sem þar eru eða kynnu að fást með skólanum þangað.

Hins vegar virðist mér á þeim ræðum, sem hér eru haldnar gegn frv., bæði af hv. þm. N-M. og hv. þm. Barð., að þeim sé í raun og veru ekkert aðalatriði, hvað þeir segja um málið, bara ef þeir geta á einhvern hátt komið því að, sem þeim er aðalatriðið, að frv. verði fellt. Þannig notar þm. N-M. það sem röksemd á móti málinu, einu röksemd, að a.m.k. laklegri kennarar fáist til skólans þar heldur en hérna, en aftur á móti fullyrðir hv. þm. Barð., að hann telji það alveg áreiðanlegt, að það muni ekki bana skólanum, að nægilega góðir kennarar fáist ekki til hans fyrir norðan.

Mér finnst nú, að þegar rætt er um það, hvar skóli eiga að vera starfræktur, þá séu það nokkur höfuðatriði, sem skipti mestu máli, þ.e. að skólinn hafi nægan og góðan húsakost, að hann hafi gott kennaralið og kennslutæki og að hann sé í heppilegu umhverfi fyrir þroska þeirra nemenda, sem hann á að hýsa. Að sjálfsögðu koma svo til fleiri atriði, sem sjálfsagt er að taka tillit til, eins og t.d. kostnaðarhliðin.

Það er búið að benda á það mjög greinilega hér í umr., að bygging nýs skóla mundi sennilega kosta milljónir króna, og þó að það sé á hinn bóginn verið að halda því fram sem röksemd gegn flutningi skólans til Akureyrar, að það sé svo dýrt að endurbæta skólahúsnæði þar, þá er það þó auðséð, að þar er aðeins um mjög smávægilegt að ræða, samanborið við það, ef á að byggja nýjan skóla, og ekki aðeins að byggja nýjan skóla, eftir því sem fram kemur í grg. Reykjavíkurkvennanna um málið, því að samkv. þeirra áliti á fyrst að kaupa gamalt hús hér í Reykjavík, sem þær segja að muni vera fáanlegt, og síðan á næstu árum að byggja nýjan skóla. Það á bæði að kaupa gamalt hús, endurbæta það, vafalaust á miklu kostnaðarsamari hátt en endurbætur á Akureyrarskóla þyrftu, og síðan á að byggja nýtt hús. Samt leyfa þeir sér, sem eru á móti frv., að telja það sem röksemd í málinu, að það væri svo dýrt að breyta þessum skóla, sem er byggður í mjög svipuðu skyni eins og sá skóli hlýtur að vera, sem á að hýsa húsmæðrakennaraefnin. En ég álít þó, að kostnaðarhliðin sé í raun og veru ekki aðalatriðið í málinu, en hins vegar svo veigamikið atriði, að það sé alveg ástæðulaust að horfa algerlega fram hjá því, þegar byggingarmál skólanna í landinu eru á þeim vegi stödd, að það er ekki einu sinni hægt sums staðar að halda uppi lögboðinni kennslu, vegna þess að skólahús er ekki fyrir hendi.

Það er náttúrlega ákaflega erfitt að deila um það, hvar muni verða beztir kennarar fáanlegir að þessum eða hinum skólanum, en ég verð að segja það, að reynslan, sem hefur verið af skólum Akureyrar í þessu efni, er ekki þannig, að það sé hægt að fráfælast það að hafa skóla sem þennan á Akureyri. Og ég held líka, að jafnvel þó að það hafi ekki komið fram hér i þessum umr. neinir beinir gallar við staðsetningu skólans i Reykjavík, sem vafalaust má þó finna, þá sé umhverfið á Akureyri og aðstaða nemenda þar á þessu skeiði ævinnar, sem húsmæðrakennaraefnin munu yfirleitt vera, sízt óhollari til uppeldisáhrifa en námsdvöl hérna í höfuðborginni.

Það er nú svo, að Akureyri er einna mestur skólabær á Íslandi að tiltölu við fólksfjölda, og þangað streymir ungt fólk til náms hvaðanæva af landinu, jafnvel héðan úr höfuðstaðnum, sérstaklega þó til náms í menntaskólanum þar, og þessi fjölmenna skólaæska, sem streymir til Akureyrar, setur á ýmsan hátt mjög skemmtilegan svip á bæinn og gerir það að verkum, að dvöl þar er að ýmsu leyti ánægjulegri fyrir unga nemendur heldur en víða annars staðar. Í bænum hafa nærri því að segja mann fram af manni setið við stýri aðalmenntastofnananna merkir skólamenn, sem hafa haft veruleg áhrif á skólamál landsins og mótað uppeldi mjög stórs hluta af þeirri æsku landsins, sem hefur gengið menntabrautina, sem kallað er. Allt frá því að Jón Hjaltalín vann brautryðjandastarf sitt á Möðruvöllum í Hörgárdal og leiddi nemendur sína þar til manndóms við erfið skilyrði, hefur menntaskólinn á Akureyri og gagnfræðaskólinn, sem áður var, verið .að vaxa og stækka, ekki aðeins að nemendafjölda, heldur líka að áliti sem menntastofnun.

Nú tel ég að sjálfsögðu, að allur metingur á milli skóla sé bæði ástæðulaus og óviturlegur. En ég held samt, að engum, sem til þekkir, geti blandazt hugur um, að staðsetning menntaskólans á Akureyri hefur ekki orðið honum til trafala á nokkurn hátt. og ég held, að menn þurfi ekki annað en að líta í kringum sig hérna á Íslandi til þess að komast til vitundar um það, að meðal fremstu manna í öllum greinum bæði mennta og vísinda eru fornir Akureyrarnemendur gildir þátttakendur og bera þessum skóla sínum gott vitni. Ég er viss um það, að allir þessir menn bera ævilangan hlýhug til skólans og staðarins, sem bjó þeim menntun á æskuárunum. Jafnvel hér meðal hv. þm. eru þeir nokkuð margir að tiltölu, sem eyddu námsárum sínum í Akureyrarskóla, og ég tel ólíklegt, að nokkrum þeirra detti í hug, að það sé illa ráðið að velja skóla, sem á að gegna mikilvægu hlutverki í fræðslukerfi landsmanna, þar stað. Og mér þykir líka ólíklegt, að þeir telji sambýlið við menntaskólann þar vera óheillavænlegra fyrir væntanlega kennara húsmæðra í landinu heldur en Reykjavíkurdvöl á þeim árum, jafnvel þó að hún hafi sjálfsagt ýmislegt til síns ágætis, m.a. það, sem hin virðulega skólastýra telur einn höfuðkostinn við staðsetningu hans hér í Reykjavík, en hann er sá, að hér reyni meira en annars staðar á þroskann til þess að velja og hafna. Ég geri nú ráð fyrir, að hóflegar freistingar séu sjálfsagt mjög nauðsynlegar ungu fólki og vitanlega illt, ef verðandi húsmæðrakennarar fara að öllu leyti á mis við þá lífsreynslu að glíma við þær jafnhliða námi sínu. Þetta má vel vera að sé verulegur galli, en ég verð þó að játa vanmátt minn og fáfræði í uppeldisfræðum til þess að meta hann fyllilega. En þetta yrði þá held ég líka eini verulegi gallinn á flutningi skólans til hins kyrrláta skólabæjar við Eyjafjörð, og ég er nú svo gamaldags, að ég efast mjög um, hvort þetta er galli eða ekki.

Ég tel ástæðu til að benda einnig á það umhverfi, sem slíkum skóla er skapað á Akureyri, og benda á þær miklu breytingar til bóta, sem hafa orðið á aðstöðu skólanemenda almennt í bænum. Á síðari tímum hefur aðstaða skólanemenda á Akureyri breytzt mjög til batnaðar, svo að ég dreg mjög í efa, að náms- og þroskaskilyrði séu annars staðar öllu betri. Í skólahverfi bæjarins hefur verið reist vegleg og vönduð íþróttahöll, sem er til sameiginlegra nota fyrir skólanemendur og fyrir íþróttahreyfingu bæjarins. Þar hefur núna á síðasta ári verið reist ein vandaðasta sundhöll, sem til er í landinu, ef ekki sú bezta. Í bænum er rekin ein bezta heimavist, sem til er í landinu, sem talin er öllum heimavistarskólum til sérstakrar fyrirmyndar, við menntaskólann. Þar er næg aðstaða til íþróttaiðkana og hvergi betri aðstaða til vetraríþrótta en þar. Þetta kann nú allt að vera næsta fánýtt, en ég held þó, að þessi aðstaða sé mjög hentug ungu fólki, jafnvel þeim, sem eiga að fást við húsmæðrafræðsluna. Og ég verð að segja það, að mér finnst það nærri óskiljanleg þröngsýni að halda því fram, að flutningur menntastofnunar eins og húsmæðrakennaraskólans eða annars hliðstæðs skóla yrði til þess að niðurlægja stofnunina eða jafnvel að drepa hana niður með öllu, eins og látið er liggja að í álitsgerðum nokkurra Reykjavíkurkvenna, sem þm. hafa hér fyrir framan sig.

Ég veit, að það sjónarmið er ríkt í mörgum höfuðstaðarbúum, að hér eigi allar stofnanir þjóðarinnar að vera á öllum sviðum, hverju sem tautar og hverjar afleiðingar sem það hefur fyrir þjóðarheildina. Enn er þó ekki svo komið, að formælendur þessarar höfuðborgarsjónarmiða geti með réttu sagt eins og kóngurinn forðum: „Ríkið, það er ég!“ — hvað sem síðar kann að verða. Enn þá býr þó meiri hluti landsmanna utan Reykjavíkur og næsta nágrennis hennar og hefur reyndar fullan hug á að þrauka þar enn um sinn, þótt við marga erfiðleika sé að etja, og hér á Alþ. eiga kjörnir forsvarsmenn landsbyggðarinnar meiri hluta fulltrúa, sem ber siðferðisleg skylda til að fylgjast að um að rétta hlut umbjóðenda sinna, ef það fer saman við sjónarmið heildarinnar. Nú verður auðvitað hvorki neinn héraðsbrestur og því síður landsbrestur að því, hvernig til tekst um afgreiðslu á þessu frv., en hún verður óneitanlega fróðleg prófraun á það, hversu þessum fulltrúum dreifbýlisins tekst að velja og hafna á milli hagsmuna byggðarinnar og þjóðarheildarinnar annars vegar og sérhagsmunakrafna nokkurra einstaklinga hér í höfuðborginni hins vegar, sem hafa sérréttindi til að geta haft hátt í eyru þm. Máltæki er til, sem segir, „að það sé víðar guð en í Görðum“, og það eru líka til fleiri konur á Íslandi en þær virðulegu frúr, sem skipa skólanefnd húsmæðrakennaraskólans, sem eiga fullan rétt á því, að tillit sé tekið til þeirra.

Því er haldið fram sem röksemd í álitsgerðunum, sem liggja fyrir, að hér í Reykjavík og í tveimur nágrannabæjum séu 74 þús. landsmanna og það sé miklu auðveldara fyrir nemendur úr þessum hópi að sækja hingað skóla, vegna þess að þeir geti búið heima hjá foreldrum sínum og þar sé alltaf hægt að velja úr nægum nemendum. En á þá ekkert tillit að taka til hinna, sem búa utan þessa svæðis og hlýtur að vera að því mikið hagræði, ef þeir geta sótt skóla, sem hefur heimavist? Raunar er vafalaust svo um marga, að það getur ráðið úrslitum um það, hvort þeir geta notað sér slíka fræðslu sem þessi skóli veitir eða ekki.

Ég tel ekki nokkra nauðsyn á því að velja alla nemendur húsmæðrakennaraskólans úr þessu næsta nágrenni Reykjavíkur eða héðan úr höfuðborginni. Ég held, að aðrar ungar stúlkur í landinu eigi alveg sama rétt á að ganga þessa braut eins og stúlkurnar héðan úr Reykjavík, og mér finnst það gegna furðu, þegar þm., sem eru kjörnir úr dreifbýlinu, ganga fram fyrir skjöldu um það að svipta stúlkur úr dreifbýlinu rétti til að sækja þennan skóla eða a.m.k. að gera þeirra hlut miklu erfiðari í því efni en ástæða er til.

Ég vil aðeins í þessu sambandi og til leiðbeiningar fyrir þessa tvo hv. þm., sem hafa hér sérstaklega gengið fram fyrir skjöldu til að fá þetta frv. fellt, minna á ummæli, sem voru í Tímanum 8. febr., svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Það er sjaldan, sem tækifæri gefst til að flytja stofnanir út á land. Straumurinn hefur yfirleitt legið til Reykjavíkur. En þegar slík tækifæri bjóðast, ætti sá þingmeirihluti, sem hefur einsett sér að efla jafnvægi í byggð landsins og jafna aðstöðu til að lifa í landinu, ekki að hugsa sig um tvisvar. Með frv. Akureyrarþingmanna um húsmæðrakennaraskóla er slíkt tækifæri veitt.“

Ég ætla að vona, að hv. þm. láti það tækifæri, þótt lítið sé, ekki ganga sér úr greipum.