11.03.1957
Efri deild: 67. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 26 í C-deild Alþingistíðinda. (2905)

103. mál, menntun kennara

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Það eru tvö atriði, sem mig langar til að leiðrétta.

Í fyrsta lagi er það, að það er röng eftirtekt hjá hv. þm. Ak., að ég hefði sagt, að það væru ekki til kennslukraftar á Akureyri. Ég sagði, að í Rvík yrði alltaf saman safnað beztu kennslukröftunum, sem m.a. sést á því, að hvenær sem losnar staða í Reykjavík, koma beztu kennararnir frá Akureyri hingað, sem m.a. sést á því, að hérna höfum við alla sérfræðinga í efnafræði, sem m.a. sést á því, að hérna höfum við sérfræðingana í öllu því, sem tilheyrir næringarefnafræði, sem m.a. sést á því, að á Akureyri er ekki til nein efnarannsóknarstofa, og á mörgu öðru sést það. Og þetta gerir það að verkum, að hérna verða alltaf beztu kennslukraftarnir. Það er ekki hægt að komast fram hjá því.

Hitt er svo annað mál, hvort það væri ekki hægt að dubba upp kennslukrafta með einum tveimur kennurum, sem mætti notast við, jafnvel þótt þeir væru ekki sérfræðingar, og velja þá einhverja fasta kennara, sem kenndu þessi fög líka og kunna svona gutl í þeim, svo að þeir gætu kennt eitthvað dálítið. Það er annað mál. Ég geri ráð fyrir, að það væri hægt, en með tímakennslu hérna er alltaf hægt að fá beztu kennslukraftana, það er áreiðanlegt, ekki bara í ár, heldur í framtíðinni. Og annað er það, að hv. 8. landsk. þm. sagði, — hann var ekki að svara mér, ég vissi nú ekki, hverjum hann var að svara, en hann sagði, að því hefði verið haldið fram, að hérna í kringum Reykjavík byggi meiri hluti af þjóðinni, en sem betur færi væri nú ekki svo komið enn. Jú, því er nú verr og miður, að það er svo komið. Ef við leggjum saman fólksfjöldann í Hafnarfirði, Reykjavík, Akranesi og Gullbringu- og Kjósarsýslu, þá eru það 85 þús., sem búa þar, af 156204, sem eru í landinu öllu. Það var bara að leiðrétta þessa tölu, ég ætla ekkert að tala út af því.

Það er alveg hárrétt hjá hv. 8. landsk., að þegar á að staðsetja skóla, þarf að taka tillit til húsnæðisins, og það vonar maður að komi upp hér í Reykjavík, og svo kennslukraftanna. Og þá kemur til greina, hvort það er skóli, sem er ætlað að búa að ákveðnum föstum kennurum, sem kenni allt, sem í skólanum á að kenna, eins og til dæmis í barnaskólunum og mörgum öðrum skólum, eða hvort það er æðri skóli, sem maður vill hafa kennsluna sem fullkomnasta í, og til þess að ná því þarf fáa fastakennara, en nota sér stundakennslu og hana mikla. Undir þann flokk skóla heyrir þessi skóli, sem hér er að ræða um. Hann er látinn hafa litla fasta kennslukrafta, en honum er ætlað að lifa af stundakennslu, og þá þarf hann að vera þar, sem alltaf er hægt að hafa tryggingu fyrir því, hvort sem við segjum að það sé 1957 eða 1967 eða 2000, sem við höfum alltaf líkur til þess að við höfum bezta kennslukraftana úr að velja, og það er í Reykjavík og verður í Reykjavík. Atvikin eru búin að haga því þannig, og það er alveg sama, hvað við reynum að slá um okkur með jafnvægi í byggð landsins o.s.frv., o.s.frv., þetta er staðreynd, sem ómögulegt er fram hjá að komast. Þetta er staðreynd.

Svo var það í þriðja lagi umhverfið. Ef samvinnuhugsjónin, sem ríkir á Akureyri og hv. þm. Ak. var kosinn inn á Alþingi eftir, gæti markazt inn í hugskot allra bæjarbúa á Akureyri, en ekki hér, þá mundu renna á mig tvær grímur um, hvar skólinn ætti að vera. En ég er nú ekki alveg viss um, að hún sé svo sterk á Akureyri, að hún mundi gera það, og kannske það komi til áhrif frá öðrum þá, jafnvel 8. landsk. á Akureyri, sem gerði það að verkum, að það yrði ekki. Hér er náttúrlega um mörg áhrif að ræða, sem þeir, er hér eru í skólum, verða fyrir, og misjöfn. En ég hef enga ástæðu til að ætla, að það sé neitt verulegt annað hér en á Akureyri, sérstaklega í skóla, þar sem nemendum er ætlað að fá mikinn hluta af kennslunni frá stundakennara, en ekki að kennararnir lifi saman með nemendunum, eins og er í hreinum sveitaskólum. Þá hef ég ekki ástæðu til að ætla, að áhrifin verði neitt verulega önnur á Akureyri en hér. Ég held þess vegna, að það sé ekki hægt að telja það sérstaklega orsök til þess að flytja skólann. Það er til hér sundhöll og alls konar leikfimi og ósköp svipuð skilyrði til þess eins og á Akureyri, þannig að ég held, að það sé ekki hægt að gera það að neinu númeri hvað þetta snertir. Og það eina, sem fyrir mér vakir, og það aleina er þetta, að það verður alltaf hér beztur möguleiki að fá færustu mennina, af því að þeir safnast saman hér í Reykjavík við önnur störf, og þess vegna hægt að fá þá til tímakennslu. Þess vegna er það, sem ég tel, að skólinn eigi að vera hér og ekki annars staðar og það sé betra, þó að það þurfi að bíða eftir honum eitt ár eða svo, af því að það eru komnir það margir kennarar frá honum, að við höfum nokkurn veginn nóg í hina skólana líka. Og líka þótt hann tæki til starfa aftur, skólinn á Akureyri, og auða húsið þar yrði notað af Akureyrarstúlkunum, þá mundum við hafa kennurum á að skipa til að kenna þar, þó að kennarakvennaskóla þyrfti að bíða eitt eða tvö ár. Og ég vildi óska þess og vona það, að þessir flm. að þessu frv., sem báðir eru meiri og minni ráðamenn á Akureyri, beindu kröftum sínum að því að láta þá 7500 manns, sem lifa á Akureyri, og liðlega þó, þeir eru eitthvað á sjötta hundraðið, fá álíka mikla löngun til að fara í skóla eins og Þingeyingana, svo að þeir gætu fyllt sinn skóla eins og Þingeyingarnir hafa gert með sinn.