11.03.1957
Efri deild: 67. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 32 í C-deild Alþingistíðinda. (2907)

103. mál, menntun kennara

Frsm. minni hl. (Friðjón Skarphéðinsson):

Herra forseti. Ég skal nú ekki þreyta hér umr. öllu meir en orðið er, en ég þykist þurfa að gera hér aðeins örfáar aths. út af ræðum hv. þm., sem hér hafa talað nú síðast.

Það var hv. síðasti ræðumaður, þm. Barð. (SE), sem sagði í sinni ræðu nú, að sér skildist, að ég hefði sagt, að skólinn á Akureyri hefði lagzt niður vegna þess, að svo margir húsmæðraskólar væru á Norðurlandi, það væri ástæðan, sem ég teldi fyrir þessu. Hins vegar væri önnur ástæða í grg., og hún væri sú, að skólastarfið hefði lagzt niður vegna þess, að heimavistir hefði vantað við þennan skóla.

Ég hélt nú, að ég hefði kveðið nægilega skýrt að orði um þetta, því að ég þykist hafa sagt, að húsmæðraskólar eru það margir og voru það margir, að það var ekki hægt að fylla þá alla, og þá varð sá skóli fyrst undir í samkeppninni, sem ekki gat boðið upp á heimavistir.

Þetta var það, sem ég sagði — eða a.m.k. ætlaði að segja — og ég hygg að ég hafi sagt.

Þá taldi þessi hv. þm., að ég hefði ómaklega álasað þeim konum, sem grg. hafa sent, sem prentaðar eru sem fylgiskjöl með nál. meiri hl., fyrir að halda því fram, að ekki muni fást nægilega hæfir kennarar á Akureyri.

Þetta tel ég að ég hafi ekki sagt. Ég orðaði þetta þannig, að fyrst taldi ég upp, hverjir væru kennarar eða hefðu verið kennarar við Húsmæðrakennaraskóla Íslands hér í Reykjavík, síðast þegar hann starfaði, og sagði svo nokkurn veginn orðrétt: Þetta eru vissulega ágætir menn, en ég staðhæfi, að á Akureyri er einnig völ á ágætum mönnum til þess að kenna allar þessar fræðigreinar og það mönnum með háskólaprófi, þannig að fjarstætt er að halda því fram, að skólinn mundi bíða stórkostlegt tjón af þessum ástæðum eða að hann standi og falli með þeim kennurum, sem nú starfa við skólann.

Þetta sagði ég, og ég held því fram enn, að skóli hvorki megi né geti staðið og fallið með þeim kennurum, sem við hann starfa í þann og þann svipinn. Vitanlega kemur alltaf að því, að þar þarf að skipta um.

Þá sagði þessi hv. þm., frsm. meiri hl., að hann teldi það galla á frv., að ekki væri beinlínis ákveðið í því, að húsmæðrakennaraskólinn skyldi starfa eða skyldi staðsettur á Akureyri.

Ég er honum vissulega ekki sammála um þetta. Hins vegar viðurkenni ég það fúslega, að frv. er flutt með það sérstaklega í huga, að ég tel og við flm. frv., að á Akureyri séu jafngóð skilyrði til skólahalds og í Reykjavík og Akureyri hafi það fram yfir, að hún getur boðið upp á hús, þannig að töf á skólastarfi þurfi ekki að verða lengri en þegar er orðið. En ákvörðun um flutning er vissulega ekki hægt að taka nú þegar. Það væri óverjandi að taka ákvörðun um það nú þegar, því að áður en sú ákvörðun yrði tekin, þyrfti að sjálfsögðu að fara fram rannsókn sérfróðra manna á því, hvort við hv. 8. landsk. hefðum ekki rétt fyrir okkur í þessu, að þarna væri tilvalinn staður fyrir þennan ágætisskóla að því er húsakost snertir og önnur skilyrði til skólahalds.

Þá ræddi hv. þm. nokkuð um það, að rík ástæða væri til þess að rannsaka, hvort ekki væri hægt að sameina byggingar og skólatæki og kennslu ýmissa skóla, sem hann talaði um.

Ég geri ráð fyrir, að vissulega væri hægt að rannsaka þessa hluti. En ég hef bara ekki heyrt þess getið, að það stæði til nein slík rannsókn, og ég hef ekki heyrt þess getíð, að þetta hús, sem búið er að teikna og áætlað er að byggja fyrir Húsmæðrakennaraskóla Íslands hér í Reykjavík, ætti að vera til afnota fyrir aðra skóla, og ég hygg, að það muni vera svo.

Ég held, að það væri ástæða, ef hv. þm. hefur áhuga á þessu, að hann gerði einhverjar ráðstafanir, flytti þáltill. eða gerði aðrar slíkar ráðstafanir til þess að koma þessu máli fram, sem ég hygg að sé ekki nein sérstök hreyfing um. Annars hygg ég, að tjói lítið að tala um það að hafa sameiginleg skólatæki fyrir þessa skóla, því að ég geri ráð fyrir, að þeir séu það ólíkir að mjög verulegu leyti og mismunandi, að það geti naumast verið um það að ræða í mjög miklum mæli.

Ég þarf ekki að taka margt til athugunar í ræðu hv. 1. þm. N-M„ sem talaði hér áðan. Hann lagði höfuðáherzluna á það nú eins og áður, að hér í Reykjavík hlytu alltaf að verða beztir stundakennarar, og hann kvað svo fast að orði um það, að beztu kennararnir frá Akureyri hafi jafnan flutzt til Reykjavíkur.

Ég er nú ekki á sama máli og hv. þm. um þetta. Hins vegar viðurkenni ég, að ég þekki engan mælikvarða á það, hverjir eru beztir kennarar og ekki beztir. En það er mín skoðun, og ég staðhæfi, að það er margra fleiri manna skoðun, að beztu kennararnir á Akureyri sitja þar enn og hafa ekki flutzt til Reykjavíkur. Hins vegar skal það líka viðurkennt, að ágætir kennarar hafa flutzt suður, en að það séu beztu kennararnir, það held ég að sé nokkuð fast að orði komizt, og ég hygg, að það sé erfitt að færa rök fyrir slíku.

Að öðru leyti held ég, að það sé ekki ástæða fyrir mig til að fjölyrða um ræður þessara hv. þm. Ég fæ ekki séð, að þeir hafi á neinn veg hrakið þá skoðun okkar flm. þessa máls, að á Akureyri séu góð skilyrði til skólahalds fyrir Húsmæðrakennaraskóla Íslands, og ég ætla ekki að fara að endurtaka það, sem ég hef áður sagt um þá hluti. En ég fæ ekki séð, að það hafi með neinum hætti verið hrakið, að svo sé.