21.03.1957
Efri deild: 74. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 45 í C-deild Alþingistíðinda. (2926)

46. mál, sandgræðsla og hefting sandfoks

Karl Kristjánsson:

Herra forseti. Ég vil strax við 1. umr. þessa máls segja nokkur orð um það, og sérstaklega áður en það fer til nefndar.

Lögin um sandgræðslu og heftingu sandfoks eru orðin 16 ára gömul. Lögin voru og eru enn einvörðungu miðuð við sandgræðslu og heftingu sandfoks, en víða blæs landið upp, án þess að sandfok eigi sér stað. Stór landsvæði eru naktir örfoka melar og flög og gróðurleysur af öðrum ástæðum en sandfoki.

Frv. það, sem hér liggur fyrir, felur í sér tillögur um að færa út starf fyrir Sandgræðslu ríkisins, þannig að ætla henni að verða við tilmælum landeigenda um að græða sanda, þó að ekki stafi sérstök gróðureyðingarhætta af foki þeirra, að mér skilst, mela og annað gróðurlaust land og kosta græðslu þessara girtu svæða að 2/3, svo sem um sandfokssvæði væri að ræða.

Þetta er ágætt. Síðan lögin voru sett, hafa mjög aukizt möguleikar til hvers konar landgræðslu, enda unnið stórvirki á þeim sviðum í landinu af ýmsum aðilum.

En til þess að standa straum af svo víðtækum verkefnum og kostnaðarsömum sem frv. felur í sér, þarf sandgræðslan auðvitað að hafa yfir miklu fé að ráða, ef að almennum notum á að koma, miklu meira fé en hún hefur haft frá ríkinu að undanförnu. Þó að ég segi þetta, er ég alls ekki að mæla á móti frv. Ég álít, að æskilegt sé að verja miklu meira fé en gert hefur verið árlega til þess að græða sár foldarinnar. En ég held, að í ljós sé komið, að hægt sé víða að gera að þessum sárum á ódýrari hátt og þá um leið mikilvirkari en frv. gerir ráð fyrir.

Bændur á Grænavatni í Mývatnssveit hafa t.d. tvö undanfarin sumur gert merkilegar tilraunir með að bera tilbúinn áburð á mela, sem hvorki voru girtir né grasfræði sáð í. Um þetta hafa þeir gefið skýrslu, sem ég — með leyfi hæstv. forseta — vil lesa hér upp, af því að ég tel hana mjög fróðlega. Skýrsla bændanna er svo hljóðandi:

„Við undirritaðir bændur á Grænavatni í Mývatnssveit höfum s.l. tvö sumur gert tilraunir til þess að græða gróðurlitla mela með því að bera á þá tilbúinn áburð. Melar þessir eru grýttir, en mold- og leirblandnir. Áburðarskammturinn var ekki veginn, en mun hafa verið um 120 kg af hreinu köfnunarefni á hektara og svipað magn af fosfór. Reitir þeir, sem borið var á vorið 1955, voru að mestu grónir haustið 1955 og þá á þeim ágætur hagi. 1956 bárum við aftur á nokkurn hluta þessa lands. Munur á sprettu á því og hinu, sem engan áburð fékk það sumar, var ekki mikill, en þó nokkur, og hvort tveggja góður hagi fyrir sauðfé. Tilraun með köfnunarefni og fosfór, hvort fyrir sig, bar engan árangur. Tilraun þessi var gerð bæði á friðuðu landi og óvörðu, og virðist okkur betur gróið það land, er sauðfé hafði aðgang að. Þar urðu meiri rótarskot, og myndaði því hver planta stærri gróðurtopp.

Það er álit okkar, að með því að bera eitt sumar vel á melana og gefa með því þeim fáu og strjálu jurtum, sem þar lifa, tækifæri til skjótari þroska, þá skapist um leið möguleiki fyrir þær til þess að ná úr jarðveginum næringarefnum, sem þær að öðrum kosti hafa enga möguleika til að hagnýta sér, og að þessi tilraunareitur muni áfram gróa án áburðar á borð við annan úthaga.

Tilraun þessi hefur ekki verið styrkt af opinberu fé, og er hún af þeim ástæðum í smærri stíl en æskilegt hefði verið.

Grænavatni, 13. jan. 1957.

Helgi Jónasson, Sveinn Helgason,

Sigurður Þórisson.“

Allt núverandi bændur á Grænavatni, gegnir menn og ábyggilegir.

Svipuð tilraun og á Grænavatni kvað hafa verið gerð í Gunnarsholti, einnig með góðum árangri. Um þessar tilraunir, sem fram hafa farið í Gunnarsholti og á Grænavatni, segir sandgræðslustjórinn, Páll Sveinsson, í bréfi til mín, dags. 8. f.m., orðrétt, að þær „spái mjög góðu um árangur og það svo, að ef til vill engin ræktun muni reynast jafnhagkvæm, þ.e. fljótvirk og kostnaðarlítil, sem þessi“.

Ég álít, að tímabært sé nú að færa svo út verksvið Sandgræðslu ríkisins að heimila henni forgöngu og þátttöku f tilraunum með landgræðslu eins og þá, sem Mývetningar hafa hafið. Teldi ég heppilegt, að sveitarfélög eða búnaðarfélög sveita væru samstarfsaðilar sandgræðslunnar í þessum efnum, jafnvel frekar eða a.m.k. ekki síður en einstakir bændur. Víða vantar tilfinnanlega haga handa búfénaði. Afréttir ganga úr sér og vænleiki sauðfjár er víða af þeim sökum ekki sem skyldi. Ef hægt reynist, eins og tilraunirnar, sem gerðar hafa verið, benda til, að hjálpa gróðri til að þekja mela án girðingar eða vörzlu og án sáningar og aðeins með því að bera á melana eitt sumar eða tvö tilbúinn áburð, þá er mikið hægt að gera í hagnýtri landgræðslu á ódýrari hátt en menn hefur dreymt um fram undir þetta.

Sennilegast þykir mér, að heppilegast hefði verið, að nú færi fram heildarendurskoðun á hinum 16 ára gömlu sandgræðslulögum, svo stórlega hafa viðhorfin breytzt, síðan þau voru sett, og mér skilst það einnig á bréfi því, sem ég vitnaði í frá sandgræðslustjóranum, að hann líti svo á, að þess væri þörf. En verði sú breyting á lögunum gerð, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, og við það hef ég síður en svo að athuga, þá ætti um leið a.m.k. að bæta inn í þau þeirri heimild, sem ég áðan nefndi. Það er tímabært, ekki síður en að gera breytinguna, sem frv. felur i sér.

Frv. þessu verður að sjálfsögðu vísað til hv. landbn. að lokinni þessari umr., og ég vil biðja nefndina að taka til athugunar breytingar á frv. á þá leið að heimila sandgræðslunni einnig tilraunir og forgöngu og stuðning við landgræðslu eins og þá, sem ég hef gert hér að umtalsefni.