10.05.1957
Efri deild: 97. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 50 í C-deild Alþingistíðinda. (2930)

46. mál, sandgræðsla og hefting sandfoks

Jón Kjartansson:

Herra forseti. Ég er þakklátur hv. n. fyrir nál. hennar, sérstaklega niðurlagið, þar sem hún leggur til, að athugað verði að auka starfssvið sandgræðslunnar, og bendir m.a. á kornrækt og grasfrærækt. Ég fagna því, að n. bendir á þetta, og ég hef nokkrum sinnum rætt þetta við hv. frsm. og formann n. En ég tel galla á, að n. taki ekki upp í sjálfa rökstuddu dagskrána einmitt þessi mál. Það er með tilliti til þessa, að ég vildi óska þess, að mennirnir í þá n., sem á að endurskoða lögin, verði valdir með tilliti til þessa starfs. Þess vegna leyfi ég mér. hæstv. forseti, að flytja hér skriflega brtt. við hina rökstuddu dagskrá, þannig að á eftir orðunum „starfsemi hennar“ bætist: „þ. á m. með kornrækt og grasfrærækt“.

Ég skal ekki orðlengja um þetta, en ég veit, að hv. frsm. er þessu sammála. Ég fyrir mitt leyti er sannfærður um, að það verður aldrei kornrækt hér að neinu ráði, ef það er ekki gert í stórum stíl, og þá að ríkið geri það einmitt í sambandi við ræktun sandanna. Það þýðir ekki að vera að ásaka bændur fyrir að ráðast ekki í kornrækt eða vera að finna að því, að þeir hafi hætt við hana. Það er af þeirri einföldu ástæðu, að það er ekkert fólk til þess og ekki tæki til þess. Þetta verður að gerast í stórum stíl, og ég sé ekki annað betra úrræði en að það verði tekið undir sandgræðsluna.

Ég leyfi mér að afhenda hæstv. forseta þessa brtt.