13.05.1957
Efri deild: 98. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 50 í C-deild Alþingistíðinda. (2933)

46. mál, sandgræðsla og hefting sandfoks

Karl Kristjánsson:

Herra forseti. Ég hef gerzt meðflytjandi að brtt. þeirri, sem hv. þm. V-Sk. tilkynnti að hann mundi flytja við fyrri hluta þessarar umræðu og gerði þá grein fyrir, og nú er hér fram komin á sérstöku þskj., 521. Auk þess að ég vildi styðja till. hans, vildi ég, að í till. kæmi einnig fram — svo sem nú er orðið — að taka skuli til athugunar við endurskoðun sandgræðslulaganna, hvort ekki sé rétt í framtíðinni að fela sandgræðslunni umsjón með og stuðning við uppgræðslu mela og örfoka lands til hagbeitar, þótt ekki væri þar um foksand að ræða og sérstaka eyðingarhættu gróðurlendis, sem venjulega er þó einhver í sambandi við öll hrjóstur.

Ég sagði frá því við 1. umr. þessa máls, að bændur að Grænavatni í Mývatnssveit hafa á eigin spýtur gert tilraunir með að bera á mela, sem varla hefur sézt stingandi strá upp úr, og kallað með því fram á einu sumri furðumikið gras á melunum, og melarnir hafa haldið áfram að gróa næsta sumar án áburðar á ný. Þetta bendir til, að hjálpa megi með tilbúnum áburði örfoka landi til þess að gróa upp á skömmum tíma án þess að kosta til sáningar eða girðinga. Gróðurinn hefur þá náttúru, að hann vill leggja undir sig hrjóstrin og er alltaf að reyna að gera það. Fræ berast um melana, og þar eru á strjálingi vanburða og sveltandi plöntur, sem skortir vaxtarþrótt án aðstoðar, og sú aðstoð virðist eftir reynslunni í Mývatnssveit ekki þurfa að vera óviðráðanlega kostnaðarsöm, sums staðar a.m.k.

Nú stendur þannig á, að haglendi vantar mjög víða, tilfinnanlega fyrir búfénað, og aukning haglendis með uppgræðslu kallar áreiðanlega að samhliða túnræktinni. Um leið og stofna á til gagngerðrar endurskoðunar á lögum um sandgræðslu, er frá mínu sjónarmiði sjálfsagt að hafa einnig fyrir augum nauðsyn á hagarækt og í því sambandi sérstaklega melagræðslu.

Ég leyfi mér að vænta þess, að hv. þm. fallist á þessa brtt. frá okkur hv. þm. V-Sk.