28.03.1957
Efri deild: 78. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 51 í C-deild Alþingistíðinda. (2937)

142. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Flm. (Alfreð Gíslason):

Herra forseti. Í gildandi lögum um tekjuskatt og eignarskatt, nr. 46 14. apríl 1954, er svo kveðið á, að tekjur hjóna, sem eru samvistum, skuli saman taldar til skattgjalds. Sams konar ákvæði var einnig í lögunum, er giltu næst á undan þessum, lögum nr. 6 frá 1935.

Þetta ákvæði um samsköttun hjóna hefur lengi sætt gagnrýni, sem farið hefur vaxandi. Þykir mörgum ákvæðið ekki aðeins ranglátt í frekara lagi, heldur sé það beinlínis til tjóns í þjóðfélagslegu tilliti.

Hér á Alþ. hefur þessu máli margsinnis verið hreyft. Árið 1946 flutti frk. Katrín Thoroddsen frv. til laga um breytingu, sem fól í sér heimild til handa giftum konum, sem stunda atvinnu utan heimilis, að telja fram til skatts sérstaklega þær tekjur, er þær þannig fá. Sams konar till. flutti hv. 3. þm. Reykv. 1952. Þá hafa einnig komið fram frumvörp, þar sem gert var ráð fyrir mun róttækari breytingum. Þannig flutti núverandi hæstv. menntmrh. árið 1951 frv. þess efnis, að allar giftar konur yrðu gerðar að sjálfstæðum skattþegnum og þeim talinn til tekna ákveðinn hluti af tekjum eiginmannsins auk þeirra tekna, er þær kynnu að afla sjálfar. Fleiri frv., sem fólu í sér svipaðar breytingar, hafa komið fram á síðari árum, þótt þeirra sé ekki nánar getið hér.

Á Alþ. því, er nú situr, hefur komið fram frv. til l. um breyt. á lögum um tekju- og eignarskatt. Var það flutt í Nd. og mun vera til athugunar í nefnd. Í þessu frv. er gert ráð fyrir, að samanlögðum skattskyldum tekjum hjóna skuli skipt til helminga og skattur síðan reiknaður af hvorum helming um sig.

Að mínum dómi er það hvorki óeðlilegt né ósanngjarnt, að hjón séu skattlögð hvort í sínu lagi, og það án tillits til þess, hvort konan vinnur á heimilinu eða utan þess. Hitt er matsatriði, hvort skipta eigi að jöfnu samanlögðum tekjum beggja og skattleggja síðan hvorn helming fyrir sig eða hvort telja beri eiginkonunni, er heimilisstörfin vinnur, til tekna ákveðna upphæð af launum manns hennar og reikna hvoru um sig skatt í samræmi við það. En hvaða leið sem farin yrði í sérsköttun hjóna almennt, þá næst hún ekki án mjög gagngerðra breytinga á skattalöggjöfinni í heild. Breytingin frá samsköttun hjóna til sérsköttunar er svo víðtæk og áhrifamikil, að hún verður vart gerð, svo að vel fari, nema fram fari samtímis heildarendurskoðun á lögunum um tekju- og eignarskatt. Sú endurskoðun er æskileg og raunar tímabær, enda þegar boðuð, ef marka má nýlega blaðafregn. En endurskoðun af þessu tagi hlýtur, sem vonlegt er, að taka langan tíma.

Það frv., sem hér er til umr. og er á þskj. 376, felur ekki í sér neina víðtæka eða róttæka breytingu á skattalöggjöfinni. Hún tekur aðeins til tiltölulega lítils hóps skattþegna og mundi ekki, þótt að lögum yrði, hafa í för með sér neina teljandi röskun á þeim tekjulið ríkissjóðs, er hér kemur til greina. Hins vegar er breytingin, sem frv. miðar að, býsna mikilsverð bragabót á leiðum ágöllum gildandi laga um tekjuskatt og eignarskatt.

Í frv. er gert ráð fyrir, að giftri konu, sem stundar sjálfstæða atvinnu utan heimilis síns, sé heimilt að telja fram sérstaklega til skatts tekjur, er hún hefur af þeirri atvinnu, og að hún þá skuli skattlögð samkv. því.

Á allmörgum heimilum eru ástæður þannig, að húsmóðurinni er fært að stunda starf utan heimilis. Einkum er þessu oft svo farið í barnlausum hjónaböndum og á heimilum, þar sem börn eru vaxin úr grasi, orðin sjálfbjarga. Stundum leitar eiginkona sér atvinnu utan heimilis út úr neyð, þótt hún raunverulega megi ekki missa sig frá búi og börnum. Þannig er það ekki fátítt, að konur drykkjumanna afli sér og börnum sinum lífsviðurværis með vinnu utan heimilis og séu til þess neyddar vegna þess, að meginið af tekjum eiginmannsins fer í brennivín og annað sukk. Giftum konum, sem hafa litlu að sinna heima, er það beinlínis hollt að starfa að einhverju leyti utan heimilis síns. Á vissum tímabilum getur það verið fjárhagslega mikilvægt hjónum, að konan afli heimilinu beinna tekna. Svo er t.d. oft um hjón, sem eru að byrja búskap eða keppa að því marki að eignast eigin íbúð, að ógleymdum þeim heimilum, er verða fyrir fjárhagslegum skakkaföllum í einhverri mynd.

Það er hagur þjóðfélagsins, að vinnuaflið sé nýtt sem mest og sem bezt. Því er það einnig í þess þágu, að giftar konur, sem aðstöðu hafa til, vinni að fleiru en heimilisstörfunum. Í verstöðvum víðs vegar um land er einatt skortur á vinnuafli til fiskverkunar. Og við heyskap í sveitum vantar alltaf fólk, einkum kaupakonur. Svipað má segja um fleiri starfsgreinar, þar sem konur eru jafnhlutgengar körlum eða þeim fremri.

Ákvæði skattalaganna um, að sértekjur eiginkonu skuli lagðar við tekjur manns hennar og skattur reiknaður út af samanlögðum tekjum beggja, veldur því, að fjöldi giftra kvenna heldur að sér höndum og situr heima aðgerðalítill. Tekjuskattstiginn hækkar örar en tekjurnar, og því verður oft lítið eftir af sértekjum eiginkonunnar, þegar þær hafa verið lagðar ofan á tekjur mannsins og skatturinn síðan reiknaður út. Þá er venjulega obbinn farinn af því, sem konan vann inn, og hún til lítils barizt fyrir aukinni hagsæld heimilisins í þessu efni.

Þetta ákvæði skattalaganna verkar sem refsing á þá, er í hjónaband ganga. Í því felst, að það skuli varða þungum viðurlögum, ef hjón fari bæði að afla heimilinu beinna tekna. En þetta gildir aðeins um hjónaband. Ef karl og kona verða ásátt um að slá reytum sínum saman og stofna til heimilis án þess að ganga í lögformlegt hjónaband, þá eru þeim allir vegir færir, því að nefnt refsiákvæði nær ekki til þeirra. Þetta er flestum ljóst, og því fer það nú ört vaxandi, að trúlofunin er látin nægja til búskapar og heimilishalds, en fram hjá hjónabandinu gengið. Dæmi eru líka til þess, að hjón hafi skilið formlega eða í orði kveðnu, en búið saman áfram og notið þeirra hlunninda, sem það veitti þeim að vera ekki saman vígð.

Ég skal ekki þreyta hv. þdm. með mörgum tölum, en aðeins nefna nokkrar, er sýna glögglega, hvernig skattalögin níðast á hjónabandinu. Ef barnlaus hjón hafa samanlagðar hreinar tekjur 80 þús. kr., ber þeim að greiða 6750 kr. í tekjuskatt, en einar 300 kr. þyrftu þau að borga samanlagt, ef þau væru ekki lögformlega saman gefin og ynnu fyrir jafnmiklu bæði. Væru tekjurnar 100 þús. kr., yrði tekjuskattur hjónanna 12530 kr., en ógiftu sambýlingarnir slyppu með að greiða 5230 kr. Ef karl og kona, sem saman byggju og væru barnlaus, ynnu bæði hjá fyrirtæki ríkisins og maðurinn tæki laun samkv. VIII. launaflokki, en konan samkv. XII. launaflokki, bæri þeim að borga 6640 kr. í tekjuskatt, ef þau sneiddu hjá hjónavígslu, en 14810 kr. skyldu þau greiða ef þau væru hjón fyrir guði og mönnum. Slík er refsingin, sem hæfileg þykir, þegar um hjónaband er að ræða.

Sagan er raunar ekki fullsögð með þessu, því að sams konar ákvæði gilda við álagningu útsvars. Þannig verða karl og kona, sem t.d. taka laun skv. VII. og X. launaflokkum, að greiða samtals 16743 kr. meira í skatt og útsvar, ef þau eru í hjónabandi, heldur en þau þyrftu að gera, ef þau væru utan þess, þótt saman byggju.

Þess er vert að geta, að ýmis sveitarfélög eru nú að byrja að sjá að sér í þessu efni. Kópavogur veitir þegar um nokkurt skeið verulega útsvarsívilnun giftum konum, sem afla beinna tekna. Hið sama hefur Keflavík nú ákveðið að gera. Bæjarstjórn Reykjavíkur hefur sama mál til athugunar. Og á Ísafirði og víðar er öflug hreyfing í sömu átt.

Að lokum skal viðurkenndur einn ágalli á frv. því, sem til umr. er. Giftri konu er því aðeins heimilt að telja fram til sérsköttunar, að hún afli ekki tekna sinna í fyrirtæki, sem maður hennar á eða er hluthafi í. En þetta ákvæði er sett í frv. til þess að forðast misbeitingu á heimildinni til sérframtals konunnar. Væri þetta ákvæði ekki, gætu eigendur fyrirtækja og umráðamenn látið svo heita, að konur þeirra fengju atvinnutekjur hjá fyrirtækjunum, þótt þær í reyndinni kæmu þar aldrei nálægt störfum. Hins vegar getur þetta komið dálítið hart niður á einstöku hjónum. Til er, að hjón reki saman lítið fyrirtæki, smáverzlun eða annað þess háttar, og að þau vinni að þessu bæði og jafnvel jafnt, og samkv. anda frumvarpsins ættu þau rétt á að telja fram sitt í hvoru lagi. Þetta er ekki hægt skv. frv. því, sem hér liggur fyrir. Þetta er ágalli, sem væntanlega yrði þá síðar bætt úr, en ekki hefur reynzt unnt að gera á þessu stigi, með tilliti til þess, sem fram var tekið um hugsanlega misbeitingu.

Ég fer svo ekki fleiri orðum um þetta að sinni, en legg til, að frv. að lokinni þessari umr. verði vísað til 2. umr. og hv. fjhn.