28.03.1957
Efri deild: 78. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 56 í C-deild Alþingistíðinda. (2939)

142. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Flm. (Alfreð Gíslason):

Herra forseti. Ég stend ekki upp til þess að mótmæla hv. síðasta ræðumanni. Í öllum aðalatriðum er ég honum samþykkur. Húsmóðurinni ber fyrst og fremst að hugsa um heimilið og börnin. En í mörgum tilfellum verða möguleikar til fleiri hluta. Hann nefndi dæmi, sem var honum nærtækt og ég tek undir að fullu að sé rétt, en ég skal til endurgjalds nefna honum annað dæmi. Þegar ég var lítill drengur, fór ég með móður minni á hverju sumri í sveit. Þar vann hún kaupakonustörf á meðan faðir minn vann á síldveiðum fyrir Norðurlandi. Þetta var fastur siður alla mína bernsku, og ég hygg, að mín móðir hafi ekki í neinu hvorki vanrækt mitt uppeldi né sitt heimili með þessu. Þannig geta aðstæður verið ákaflega misjafnar, og þar sem aðstæður eru til þess, að konan taki þátt í þjóðnýtum störfum utan síns heimilis; ber ekki að refsa fyrir slíkt, þótt við viðurkennum hitt, að heimilisstörfin og sérstaklega uppeldi barnanna sé fyrsta boðorð giftrar konu.