28.05.1957
Efri deild: 112. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 60 í C-deild Alþingistíðinda. (2945)

142. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Jón Kjartansson:

Herra forseti. Ég held, að það hafi verið fyrir einu eða tveimur árum, sem kvenréttindakonur héldu fund í Danmörku. Þær fengu á fundinum merkan prófessor til þess að ræða einmitt þetta mál, sem hér er rætt í deildinni í dag. Þessi merki maður lét svo um mælt, að ríkið ætti að launa konurnar fyrir að starfa á heimilunum, svo að þær þyrftu ekki að vinna utan heimilanna. Þetta hygg ég að sé hið eina rétta í þessu máli. Ég tel ekkert vit í því að ætla að fara að verðlauna þær konur, sem starfa utan heimilanna, en refsa hinum, sem starfa á heimilunum. Ég er fylgjandi sérsköttun hjóna, en það verður að ganga jafnt yfir alla, skipta skattinum milli hjónanna alveg án tillits til, hvar konur vinna, og ekki síður húsmæður, sem vinna heima. Það er einkennilegt að vilja aldrei meta að neinu störf húsmóðurinnar, þó að það sé máske langábyrgðarmesta starfið í þjóðfélaginu.

Ég mun fylgja hinni rökst. dagskrá í trausti þess, að málið verði sett í þetta horf, en alls ekki þannig að verðlaunaðar séu þær konur, sem starfa utan heimilanna. Ég mun þess vegna að þessu sinni greiða atkv. með hinni rökstuddu dagskrá.