26.11.1956
Neðri deild: 21. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 61 í C-deild Alþingistíðinda. (2948)

60. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Flm. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Þegar ríkisstj. sú, er Ólafur Thors veitti forstöðu, tók við völdum 1953, voru báðir stjórnarflokkarnir sammála um það, að mikil nauðsyn væri á því að endurskoða skattalögin, sem þá voru nærri 20 ára gömul. En á þeim árum höfðu orðið miklar breytingar á verðgildi peninganna og fjármálalífi þjóðarinnar yfirleitt. Mþn. var skipuð til að endurskoða skattalögin. Hún skilaði tillögum 1954 um I. kafla skattalaganna, þ.e.a.s. um þann hluta þess kafla, sem fjallar um skattgreiðslu persónulegra gjaldenda. Voru þessar breytingar teknar í lög nr. 46 1954, um tekju- og eignarskatt. Verður að telja, að þessar breytingar, sem þá voru gerðar, hafi orðið til talsverðra bóta fyrir hina persónulegu skattgreiðendur, enda voru breytingarnar gerðar til þess að leiðrétta ýmsar misfellur, sem komið höfðu fram við hina miklu röskun á efnahagskerfinu á tveimur undangengnum áratugum. Mþn. var einnig ætlað að skila tillögum um hinn ópersónulega hluta I. kafla laganna. En samkomulag náðist ekki milli stjórnarflokkanna á síðasta þingi um breytingar á þeim kafla, og þinginu lauk svo, að engar brtt. voru lagðar fram, eins og flestir höfðu þó vonað.

Skattstigi sá, sem nú er notaður við álagningu tekju- og eignarskatts félaga, var ákveðinn með lögum nr. 6 1935. Strax og fór að bera á verðbólgu í byrjun ófriðarins, með verðrýrnun krónunnar og síhækkandi vísitölu, voru gerðar ráðstafanir til þess að vernda hina persónulegu gjaldendur fyrir þeim óeðlilega skattþunga, sem hlaut að hlaðast á þá vegna verðfalls peninganna, ef ekkert væri að gert. Voru því tekjur þeirra lækkaðar að vissu marki í samræmi við meðalvísitölu ársins. Þessi breyting var sett í lög árið 1942. Þrátt fyrir þennan skilning löggjafans um nauðsyn að sjá högum einstaklingsins borgið í þessum efnum, að skattþunginn ykist ekki í hlutfalli við verðbólguna, var ekkert gert til þess að létta skattþunga hinna ópersónulegu gjaldenda, sem ekki höfðu þá vernd, sem samvinnufélögunum er veitt með lögum.

Strax og peningaflóð ófriðaráranna fór að gera vart við sig, setti löggjafinn undir þann leka, að einstaklingar eða félög gætu safnað nokkru fé með beinum tekjum. Stríðsgróðaskatturinn var settur á 1942 með lögum nr. 21. Sá skattur leggst aðallega á hátekjur. Og árið 1945 voru sett lög um tekjuskattsviðaukann, sem aðallega leggst á millitekjur. Með þessum tveimur sköttum ásamt tekjuskattinum var mjög sæmilega séð fyrir því, að skattþegnar þjóðfélagsins, sem ráðvandlega töldu fram, gætu ekki lagt mikið til hliðar af tekjum sínum. Af tekjum, sem námu 200 þús. kr., þurfti hinn óverndaði skattþegn að greiða til ríkissjóðs 98280 kr. og að líkindum til viðbótar útsvar, sem nam 40 þús. kr. Hér er þó ekki reiknaður með veltuskatturinn, sem nú er almennt á lagður af öllum sveitar- og bæjarfélögum í landinu. Voru þá eftir af þeim 200 þús. kr. um 60 þús. kr., eða samsvarandi 6 þús. kr. fyrir stríð. Þegar svo tekjurnar námu yfir 200 þús. kr., fóru 90% af því, sem fram yfir var þá fjárhæð, til ríkissjóðs, með 22% í tekjuskatt og 68% í stríðsgróðaskatt. Ef eitthvert fyrirtæki hafði svo mikinn rekstur og góða afkomu, að það skilaði einnar millj. kr. nettótekjum, þá tók ríkissjóður af því 820 þús. kr., og átti þá bæjarsjóðurinn eftir að taka sinn skerf.

Hér á landi er allur stærri rekstur dauðadæmdur vegna skattheimtunnar. Hann er dauðadæmdur vegna þess, að atvinnufyrirtækjunum er ekki leyft með þessari skattheimtu, sem nú er, að safna neinu rekstrarfé né varasjóðum. Þess vegna er í dag allur rekstur á Íslandi févana. Og sú kreppa eykst, eftir því sem verðgildi krónunnar rýrnar. Þess vegna er sótt á bankana með rekstrarfé, eins og raun hefur borið vitni undanfarið. Hin opinbera skattheimta ríkisins og bæjarfélaga hindrar allan stærri rekstur í landinu, eins og ég hef þegar nefnt, allan rekstur, sem ekki er á vegum skattfrjálsra fyrirtækja hins opinbera eða er rekinn af samvinnufélögum, sem njóta sérstakra fríðinda í skattalögunum. Árangurinn verður því sá, að hér þrífst aðeins hokur eða samvinnurekstur og þjóðnýting. Það versta við þetta er þó það, að þjóðin, sem telur skattalögin ranglát, tapar allri virðingu fyrir þeim og sniðgengur þau án þess að líta á slíkt sem lögbrot. Svo langt geta ranglát lög leitt fólkið, sem í eðli sínu er löghlýðið og hefur óbeit á öllum svikum.

Það ranglæti, sem löggjafinn framdi fyrst gagnvart hinum ópersónulegu gjaldendum, var það að taka ekkert tillit til þeirra í sambandi við verðbólguna og verðfall krónunnar, eins og gert var við hina persónulegu gjaldendur, einstaklingana, við umreikning teknanna í hlutfalli við vísitöluna. Þótt verðlagið sé nú talið tífalt við það, sem var fyrir stríð, og gildi krónunnar hafi rýrnað að sama skapi, hefur ekkert verið gert til þessa dags til þess að rétta hlut hinna ópersónulegu gjaldenda, sem verða enn að greiða skatt eftir skattstiganum frá 1935. Auk þess er nú á félög og einstaklinga lagt tiltölulega nýtt útsvar, veltuútsvarið, sem lagt er á gjaldendur alveg án tillits til tekna þeirra eða eigna.

Það er ekki hægt lengur að láta háværar og réttmætar kröfur þessara skattgreiðenda sem vind um eyru þjóta. Það er ekki hægt lengur fyrir löggjafarvaldið að spyrna við broddunum og neita að viðurkenna staðreyndir, sem hverjum manni í landinu eru augljósar. Það er ekki hægt lengur fyrir löggjafarvaldið að synja atvinnuvegunum um þá sjálfsögðu viðurkenningu, að verðmyndunarbylting síðustu 15 ára hefur gert grundvöllinn að skattlagningu þeirra óréttlátan og óviturlegan. Það er kominn tími til, að Alþ. viðurkenni, að sá skattstigi, sem átti við 1935, er heimskuleg fjarstæða 1956.

Menn gera sér ekki almennt greint fyrir því, hvað það þýðir að leggja á gjaldendur nú skatta í krónutali eftir skattstiga, sem tekinn var í lög árið 1935. Ég skal draga fram lítið dæmi, sem sýnir, hversu miklu verr menn standa nú að vígi en þá og hversu skattþunginn að óbreyttum skattstiga margfaldast við hinn mikla vöxt verðbólgunnar og rýrnun krónunnar. Ég viðurkenni að vísu, að það er ónákvæmur mælikvarði að segja, að verðlagið sé tífalt hærra nú en 1939. Í vitund almennings er þó sá mælikvarði sízt fjarri sanni, og ekki minnkar munurinn, ef verðlagið er borið saman við árið 1935, þegar skattalögin voru samþykkt. Í þessu sambandi er rétt að minnast þess, að í lögunum 1935 er sami skattstigi fyrir félög og einstaklinga, en við breytinguna á lögunum 1954 var þessum skattstiga skipt í þrennt. Það er skattstigi fyrir einstaklinga, fyrir hjón og fyrir félög. En skattstigi félaganna frá 1935 var látinn haldast.

Ef við tökum dæmi af félagi, sem hafði 10 þús. kr. tekjur 1939, og segjum, að sama félag hafi nú 100 þús. kr., sem ætti að vera nokkuð samsvarandi verðgildi, þá lítur dæmið þannig út: Af 10 þús. kr. greiddi félagið 550 kr. árið 1939 í tekjuskatt, af 100 þús. kr. greiðir félagið nú 18950 kr. Þar við bættist áður sá tekjuskattsviðauki, sem verið hefur í gildi, en er nú fallinn burt, og svo bætist þar við stríðsgróðaskattur 3850 kr. Í dag greiðir þetta félag 22800 kr. af 100 þús. kr. í tekju- og stríðsgróðaskatt. Það er 22.8%, í stað þess að félagið greiddi aðeins 5.0% árið 1939 í tekjuskatt af jafnverðmætum tekjum.

Þetta byggist á þeirri augljósu staðreynd, að 1939 tók ríkissjóður aðeins í tekjuskatt 18.95% af 100 þús. kr., sem nú mundi jafngilda einni millj. króna, en í dag innheimtir ríkissjóður af einni millj. kr. tekjum skv. gildandi skattstiga 81%.

Þegar skattstiginn er stighækkandi og miðaður við verðgildi krónunnar 1935, verður misræmið svona gífurlegt, enda hefur verðgildið, eins og ég hef þegar sagt, stórlækkað, ef miðað er við svipaðan kaupmátt krónunnar 1939 og 1956.

Það getur engum dulizt, sem um þetta hugsar, að með þessari skattlagningu er gersamlega stefnt út í öfgar. Ef skattlagningin var sanngjörn 1935, þá er hún fjarstæða 1956, enda er svo komið, eins og ég hef þegar tekið fram, að allur stærri rekstur í landinu er dauðadæmdur. Hann getur ekki þrifizt. Stríðsgróðaskatturinn er nú orðinn fjötur um fót heilbrigðra framfara í atvinnurekstri hér á landi. Það hefði verið rétt að fella þann skatt niður fjórum til fimm árum eftir stríðslok. Ef þessi skattur verður látinn haldast áfram, þá mun hann á tiltölulega stuttum tíma sjúga merginn úr öllum atvinnufyrirtækjum á landinu, nema þeim, sem rekin eru fyrir reikning ríkisins eða njóta skatthlunninda, eins og samvinnufélögin.

Ég veit, að þeir, sem vilja verja þessa skattlagningu, munu segja, að félögin njóti fríðinda með frádrætti á 5% af hlutafé og 20% í varasjóði. Því er til að svara, að félögin höfðu þessi fríðindi 1939. Og þótt þetta væri lagt á móti núverandi ranglæti í skattheimtunni, þá er það nú afar léttvægt á metaskálunum. Fjöldi fyrirtækja fær ekki að halda þessum lögleyfðu fríðindum. Ég kem að því síðar.

Ég kem þá að öðru atriði, sem þau frv. fjalla um, sem hér liggja fyrir, en það er í sambandi við útsvarsálagningu bæjar- og sveitarfélaga. Ríkisvaldið hefur á undanförnum árum hlaðið ýmsum útgjöldum á bæjar- og sveitarfélög án þess að spyrja um þol þeirra til að standa undir gjöldunum. Hafa þess vegna bæjarfélögin á síðari árum neyðzt til að grípa til hreinna örþrifaráða til þess að halda rekstri sínum gangandi. Ég á þar við veltuútsvarið, sem flest eða öll bæjar- og sveitarfélög á landinu hafa nú tekið upp og er lagt á viðskiptaveltu skattþegnanna án tillits til tekna þeirra eða eigna. En þótt ríkisskattarnir hvíli á félögum og einstaklingum með miklum þunga, eru atvinnufyrirtæki og atvinnurekendur ekki eins hart leiknir af neinum opinberum gjöldum og veltuútsvarinu. Yfirleitt er mönnum ekki kunnugt um, hversu grátt þessi útsvarsálagning leikur fjölda skattgreiðenda, framleiðendur, útflytjendur, verzlanir, veitingahús, innflytjendur, iðnrekendur. Hver einstakur skattgreiðandi finnur, hvar skórinn kreppir. Hann kærir yfir álagningunni, en það fæst sjaldan leiðrétt, og gjaldandinn verður að sætta sig við álagninguna, hversu ósanngjörn sem hún kann að vera, svo lengi sem hann getur greitt hana.

Við nánari athugun á veltuútsvörunum kemur í ljós, að þau hirða ekki einungis bróðurpartinn af tekjum fjöldamargra einstaklinga og félaga, heldur fara þau svo út í öfgar, að þau taka meira en allar tekjur gjaldendanna og ofbjóða gersamlega gjaldþoli þeirra. Þessu til staðfestingar ætla ég að lofa hv. alþm. að heyra hér nokkur dæmi um álagningu skatta, útsvars og veltuútsvars í Reykjavík, svo að þeir megi sjálfir sjá, hvernig þessi mál horfa nú við. Þessar upplýsingar hef ég fengið hjá löggiltum endurskoðendum, sem ábyrgjast, að þær séu réttar. Og ég skal taka það fram, að frá tekjum hlutafélaganna hefur ekki verið dregið það, sem þeim er ætlað að leggja í varasjóð, þegar talað er um hreinar tekjur, og frá tekjunum hafa heldur ekki verið dregnir þeir skattar, sem greiddir hafa verið á árinu, þegar um hreinar tekjur er að ræða. Ég vona, að hv. alþm. þreytist ekki á að hlusta á þessa upptalningu. Hún er mjög lærdómsrík.

Einstakl- Hreinar Ríkisskattar Veltu- Tekju- Afgangs- Skattar um-

ingar tekjur (ekki eignarsk.) útsvar útsvar tekjur fram tekjur

þús. þús. þús. þús. þús. þús.

Nr. 1 230 78 150 69 67

— 2 438 145 59 119 115 ..

— 3 124 26 24 33 41

— 4 232 81 160 70 .. 79

Hluta-

félög

Nr. 1 381 169 279 41 .. 108

— 2 236 114 94 36 .. 8

— 3 61 11 37 13 0 ..

— 4 58 2 37 10 9 ..

— 5 609 325 98 47 139 ..

— 6 155 15 130 20 .. 10

— 7 94 11 45 14 24 ..

— 8 300 91 151 42 16 ..

— 9 73 9 85 19 .. 40

— 10 35 3 24 4 4 ..

— 11 337 131 676 33 .. 503

— 12 105 16 53 23 13 ..

— 13 135 tap frá f. ári 248 66 .. 179

— 14 496 212 304 34 .. 54

— 15 187 102 71 39 .. 25

Hinir löggiltu endurskoðendur létu þessar aths. fylgja með þessum upplýsingum:

„Samtals nema hreinar tekjur þessara 19 félaga og einstaklinga, sem reka ýmiss konar iðnað og viðskipti, 4 millj. 286 þús. kr., en skattarnir, sem á þær eru lagðir, tekjuskattur og útsvör, nema 4 millj. 998 þús., eða 712 þús. kr. hærri upphæð en tekjurnar nema hjá öllum þessum skattgreiðendum. Af sköttum þessara fyrirtækja er veltuútsvar samtals 2725000 kr., og er það 63.6% af heildartekjunum. Eignarskattur, sem sumir þessara gjaldenda greiða, er ekki talinn með sköttunum. Níu þessara gjaldenda, sem höfðu samtals 1 millj. 824 þús. kr. í hreinar tekjur, héldu eftir samtals 361 þús., þegar skattar höfðu verið greiddir. Er það um 20% af tekjum og svarar til þess, sem hlutafélög mega almennt leggja í varasjóði, en þá er ekki séð fyrir 5%, sem draga má frá fyrir hlutafé. Þau fá þess vegna raunverulega ekki að njóta þessara lögboðnu skattfríðinda. Hinir tíu gjaldendur, sem höfðu 2 millj. 462 þús. kr. í hreinar tekjur, greiddu 1 millj. 73 þús. kr. í skatta umfram tekjur. Þessir gjaldendur hafa þannig greitt í skatta 140 kr. fyrir hverjar 100 kr. tekjur.“

Svo segja þeir:

„Við höfum ekki valið þessi fyrirtæki úr vegna þess, að þau séu öðrum fremur hart leikin af skattayfirvöldunum. Þvert á móti. Þetta verður að teljast nokkuð rétt mynd af því, hvernig öll meiri háttar fyrirtæki í bænum eru skattlögð.“

Þótt þessi dæmi, sem ég hef talið hér upp, séu úr Reykjavík, þá mega menn ekki halda, að ekki sé svipaða sögu að segja annars staðar. Þetta er svona um allt land, þó að tölurnar séu stærstar í höfuðstaðnum. En ég hygg, að rétt sé frá skýrt, að í Reykjavík er lægsti stigi veltuútsvars á öllu landinu.

Öllum hlýtur að vera ljóst, að slík skattheimta getur ekki gengið til lengdar. Bæjar- og sveitarfélögin verða að gera sér grein fyrir því, áður en það er orðið um seinan, að þau eru með þessu að eyðileggja sína beztu skattstofna. Þau eru að svíða þá jörð, sem á að gefa uppskeruna. Þeir aðilar, sem greiða veltuútsvar í Reykjavík, eru 3610 að tölu árið 1956. Geta menn af því séð, að það er fjölmennur hópur úr ýmsum stéttum þjóðfélagsins, sem verður að greiða þetta útsvar. Og þannig er það að sjálfsögðu í öðrum bæjarfélögum og sveitarfélögum úti um allt land. Flestar tegundir atvinnurekstrar verða að bera þessa byrði, þó að hún skiptist mjög ójafnt og komi sérstaklega misjafnt niður.

Sumir munu nú segja, að þeir eigi að bera byrðarnar, sem breiðust hafi bökin, og ef létt væri af atvinnurekendum eða félögunum þeim skatti, sem hér um ræðir, mundu bæjarfélögin þurfa að leggja jafnvirði hans á aðra gjaldendur.

Ég skal sízt lasta það, að þeir, sem sterkastir eru, beri byrðarnar, en það er óviturlegt að leggja þá að velli með klyfjum, sem þeir fá ekki staðið undir til lengdar og þar að auki eru fjarri öllu réttlæti. Ef þeir eru að velli lagðir, sem bera stærstu byrðarnar og veita mesta atvinnuna, þá er hætt við, að skattþunginn mundi koma á eftir á allan almenning. Þess vegna er nauðsynlegt að leysa þetta mál, áður en frekari skaði er skeður og áður en bæjarfélögin eru orðin svo háð þessum ótrygga og rangláta tekjustofni, að erfitt er að komast út úr ógöngunum, þegar stefnubreyting verður ekki umflúin.

Alþingi ber skylda til að sjá bæjar- og sveitarfélögum fyrir tekjustofni í staðinn fyrir veltuútsvarið. Við því er ekki að búast, að stórt bæjarfélag eins og Reykjavík geti séð sér farborða með hinu úrelta tekjuútsvari, sérstaklega þegar þess er gætt, að bærinn fær ekki að leggja á tekjur, sem eru umfram 200 þús. kr., eða 20 þús. kr. fyrir stríð, jafnvel þó að Rvík fái einhvern lítinn hluta af stríðsgróðaskattinum. Það er ekkert sjálfsagðara en það, að bæjarfélögin fái hluta af söluskattinum, sem ríkissjóður tekur nú allan til sín.

Alþingi hefur verið æði tamt á síðari árum að leggja byrðar á bæjarfélögin, þungar fjárhagslegar byrðar, án þess að heimila þeim tekjustofna á móti. Slík vinnubrögð geta aldrei orðið farsæl, enda hefur hagur og hlutur bæjarfélaganna farið versnandi með ári hverju nú á síðari árum.

Á þessu ári gerir fjmrh. ráð fyrir að innheimta 135 millj. kr. í söluskatt á öllu landinu. Mikill hluti af þessum skatti kemur frá íbúum Rvíkur.

Flm. þessa frv. er ljóst, að bæjarfélögin verða að fá aðrar tekjur í stað veltuútsvarsins, ef það verður gert frádráttarhæft, einhliða samþykkt um frádráttinn mundi koma þeim í mikinn vanda, og þess vegna verður að sjá fyrir öðrum tekjum á móti. Mér er ljóst, að þær litlu breytingar, sem hér er lagt til að verði gerðar á útsvars- og skattalögunum, leiðrétta ekki nema að litlu leyti þá annmarka, sem eru á lögum þessum. Þær breytingar, sem hér um ræðir, eru gerðar til þess að breyta að litlu leyti þeirri byrði, sem er að verða óbærileg fyrir fjölda félaga og einstaklinga í landinu. Ýtarleg endurskoðun þessara laga, þótt hún sé mjög aðkallandi, mundi varla ná samþykki á þessu þingi. Þess vegna hefur verið farin sú leið, sem hér er lýst, í því trausti, að Alþingi sjái og viðurkenni þá nauðsyn, sem hér er á ferðinni.

Ég ætla þá að fara nokkrum orðum um frádrátt á rekstrartapi félaga og einstaklinga, sem hafa sjávarútveg að aðalatvinnu.

Samkv. gildandi lögum má draga frá rekstrartap á milli ára um tvenn áramót, þar til það er að fullu greitt innan þeirra marka. Það ætti að vera öllum heimilt, sem verða fyrir raunverulegu rekstrartapi, að draga það frá tekjum, þangað til það er að fullu greitt, án tillits til þess, hversu langan tíma það tekur.

Ég viðurkenni fúslega, að það fer nokkuð eftir tegund atvinnurekstrar, hversu langur tími er nauðsynlegur til að vinna upp rekstrartöp. En millifærsla taps um tvenn áramót er of þröng heimild, sérstaklega á það við jafnáhættusaman atvinnurekstur og sjávarútvegurinn er. Undanfarin ár hefur fjöldi manna tapað fé ár eftir ár í sjávarútveginum. Sérstaklega á það þó við síldarútveginn. Kemur hér að litlu gagni, þótt heimild sé fyrir að draga tap frá um tvenn áramót. Þessum aðilum er því lítil eða engin hjálp í þeirri heimild um frádrátt á tapi sem nú er í skattalögunum.

Ríkisvaldið ætti að líta á það af skilningi og velþóknun, að sjávarútvegurinn geti unnið upp rekstrartöp sín, án þess að það sé bundið við nokkurn ákveðinn tíma.

Það er skaðlegt fyrir bæjar- og sveitarfélögin, ekki síður en atvinnureksturinn yfirleitt, ef tekjuöflun þeirra heldur áfram í sama formi og nú er. Alþingi og framkvæmdarvaldið verður að gera sér grein fyrir því, að það er útilokað, að bæjarfélögin geti haldið þessari skattheimtu til frambúðar, og þegar ekki verður umflúið að horfa gegn þeirri staðreynd, verður ríkið að hverfa frá þeirri stefnu og synja bæjarfélögunum um þann skattstofn, sem þeim er eðlilegastur, og á ég þar við söluskattinn.

Söluskatturinn verður að teljast eðlilegur skattstofn bæjar- og sveitarfélaga, en sá tekjustofn er nú eingöngu notaður af ríkinu. Þess vegna verður ríkið nú að skila aftur verulegum hluta þessa tekjustofns, til þess að bæjar og sveitarfélögin geti byggt fjármál sín á heilbrigðum og öruggum grundvelli í framtíðinni og staðið undir þeim kvöðum, sem löggjafarvaldið hefur lagt og mun leggja þeim á herðar. Skattþegnarnir í landinu verða að geta vænzt þess, að Alþingi tryggi þeim réttlát og viturleg skatta- og útsvarslög. Þar sem ekki ríkir réttlæti, þróast rotnun og svik.