27.11.1956
Neðri deild: 22. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 68 í C-deild Alþingistíðinda. (2950)

60. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Það eru aðeins fáein orð út af því, sem hv. frsm. sagði um málið eða réttara sagt í tilefni af flutningi málsins.

Ég hef lýst því hér yfir á hv. Alþingi, að ég teldi ákvæðin um skatt- og útsvarsálagningu á félög orðin úrelt og skatt- og útsvarsálagningu á félög komna út í hreinar öfgar. Ég er sömu skoðunar enn um þetta og ég hef verið. Sérstaklega álít ég, að útsvarsálagningin á félög sé komin út á óheppilegar brautir og í fullkomnar öfgar, eins og raunar kom mjög greinilega fram í ræðu hv. flm. þessa máls. En það mætti þá spyrja, hvernig á því standi að það hafi dregizt svo úr hömlu að setja eða leggja fram frv. um skattlagningu félaga, þegar á annað borð nýlega hafa verið endurskoðuð skattalögin að öðru leyti, því að það hafa nýlega verið sett lög um víðtækar breytingar á tekju- og eignarskattslöggjöfinni, en þær fjölluðu svo að segja eingöngu um tekjuskattsgreiðslur einstaklinga.

Ástæðan er sú, að þegar farið var að endurskoða ákvæði skattalaganna um skattálagningu á félög, kom það í ljós, að mjög erfitt var að setja ný lög um skattlagningu félaga án þess að endurskoða um leið svo að segja frá rótum tekjuöflunarkerfi bæjar- og sveitarfélaga. Þessi þáttur í endurskoðunarmálinu, þ.e.a.s. í endurskoðun tekjuskattslaganna, hefur flækzt inn í vandamálið um það, hvernig bæjar- og sveitarfélögin eigi að afla sér tekna, og það þarf raunar ekki að gera annað núna en að vísa í það, sem hv. frsm. sagði um þetta mál, til þess að sjá samhengið þar á milli.

Ég álít, að ákvæði tekjuskattslaganna sjálfra um skattlagningu á félög séu orðin úrelt og ekki heppileg, en þó eru þau vandkvæði, sem af því stafa, hreinn barnaleikur hjá þeim vandkvæðum, sem stafa orðið af því, hvernig útsvarslöggjöfin er framkvæmd í garð félaganna, eins og hv. frsm. raunar lagði áherzlu á. En slíkt er ekki á valdi Alþingis, nema þá að það vilji setja lög, sem takmarki útsvarsálagninguna mjög frá því, sem hún er talin vera heimil eftir gildandi lögum.

Ég á erfitt með að skilja, hvað vakir t.d. fyrir forráðamönnum útsvarsmála hér í Reykjavík, að þeir skuli leggja á útsvör á þann hátt, sem hv. frsm. upplýsti, þar sem svo er ástatt, að það er ekki leyfilegt að draga veltuútsvar frá tekjum, áður en skattur er reiknaður. Samt sem áður virðast bæjaryfirvöldin leggja alveg hiklaust á félögin hærri útsvör en nemur því, sem þau hafa eftir að tekjunum, þegar þau hafa greitt lögboðna skatta, og þetta er, að því er mér skilst, gert alveg án tillits til þess, hvort framtölin eru rengd eða tekin gild. Það væri hægt að hugsa sér, að þetta væri ekki óhyggilegt, ef bæjaryfirvöldin hefðu ástæðu til þess að rengja viðkomandi framtöl. En þegar þetta er gert að fastri reglu og á lagt á þennan hátt alveg án tillits til þess, hvort framtölin eru rengd eða ekki, þá fer þetta að verða alveg óskiljanlegt og eiginlega erfitt að sjá, hvernig svona hlutir geta gengið ár eftir ár, og merkilegt, að þessu skuli ekki vera breytt, því að þetta er á valdi niðurjöfnunarnefndanna eða öllu heldur bæjaryfirvaldanna.

Ástæðan til þess, að félagakaflinn í skattalögunum hefur dregizt svo mjög aftur úr, er sem sagt þessi, að það kom í ljós við athugun á því máli, að málið um tekjuöflun bæjar- og sveitarfélaga kom inn í þetta mál, og komu fram svo mörg og flókin úrlausnarefni í því sambandi, að það hefur ekki enn þá tekizt að fá samstöðu um tillögur til þess að leggja fyrir Alþingi. Það tókst ekki í fyrrverandi stjórn, en það er ekkert vitað enn þá, hvort það tekst hjá þessari stjórn, því að engan tíma hefur hún haft til þess að sinna því.

Mþn. í skattamálum tók þetta mál til meðferðar, og þó að það tæki hana miklu lengri tíma að glíma við þetta atriði en hina þætti málsins, þá skilaði hún þó áliti um þetta í fyrravetur, eins og ég veit að hv. frsm. er kunnugt. En ég verð að segja alveg eins og er, að ég treysti mér ekki til þess að gera till. mþn. um þetta að mínum till. í fyrravetur, og ég held, að ég fari ekki rangt með, þó að ég segi, að ekki hafi aðrir ráðherrar heldur treyst sér til þess.

Nú skal ég ekki fara að ræða þessar till. n. svo mjög í einstökum atriðum, en í þeim fólst mjög veruleg breyting á skattálagningu á félög til ríkisins og enn fremur mjög stórfengleg breyting á skattálagningu á félög til bæjar- og sveitarfélaga. En höfuðefnið varðandi það síðara var að banna veltuútsvör, en setja þess í stað eins konar almennan söluskatt. Ég mun ekki fara langt út í að ræða, hvernig á því stóð, að ég treysti mér ekki til þess að gera þetta að minni till. á þessu stigi málsins, en ég vildi þó segja frá þessum till., því að mþn. var legið hér á hálsi um tíma fyrir, að það hefði mjög dregizt af hennar hendi að skila áliti. Ég rifja nú upp, að hún skilaði áliti um þetta í fyrravetur, og það er ekki við hana að sakast um, að það álit hefur ekki komið fram í frumvarpsformi. Það er vegna þess, eins og ég sagði, að ég hef ekki treyst mér til að gera hennar álit að mínum till. En ætlunin er ekki, að þetta mál sé þar með úr sögunni, heldur er verið að vinna að því áfram í fjmrn., og verður reynt að„vinna að því með það fyrir augum að fá niðurstöðu. Á hinn bóginn get ég ekki á þessu stigi gefið mönnum neinar vonir um, að það komi fram frv. um lausn á þessu máli á þessu þingi. Ég vil ekki vekja neinar tálvonir, en málið er til meðferðar.

Ég skal þá snúa mér að þeim þætti málsins, sem hv. flm. taka fyrir í sínu frv., en hann er sá að gera veltu- og eignaútsvar frádráttarbært. Ég hef lýst því hér áður yfir á Alþingi og ég vil lýsa því yfir enn, að ég er þeirrar skoðunar, að veltuútsvar eigi eftir eðli sínu að vera frádráttarbært. Ég lít þannig á, að skattur eða gjald, sem lagt er á eftir vörusölu eða á annan slíkan hátt og ekki er miðað við hreinar tekjur og er því ekki skattgreiðsla af tekjuafgangi, eigi eftir eðli sinu að vera frádráttarbært, og að þeir skattar einir eigi að vera utan gjalda taldir, sem eru lagðir á hreinan tekjuafgang. Á hinn bóginn hef ég ætið tekið fram um leið og segi það enn, að ég mun ekki vera með því að gera veltuútsvar frádráttarbært, nema því séu um leið sett örugg takmörk með lögum, en eins og nú er ástatt, eru engar reglur til í lögum um veltuútsvarið. Það er lagt á í skjóli ákvæðis um það, að útsvar megi leggja á eftir efnum og ástæðum, en niðurjöfnunarnefndum og sveitarstjórnum í sjálfsvald sett, hvernig þær haga álagningu. En þær verða þó eftir nýrri löggjöf að gera gjaldendum grein fyrir því, eftir hvaða reglu útsvörin eru lögð á. Þessi breyting var gerð í fyrra eða hittiðfyrra, en að öðru leyti hafa niðurjöfnunarnefndir óbundnar hendur. Ég taldi alveg ófært að setja það ákvæði í lög, að veltuútsvar sé frádráttarbært, en ekki setja því um leið ströng takmörk, hvað það megi vera hátt. Ef þetta væri gert, þá væri þar með í raun og veru búið að veita hverri bæjarstjórn eða sveitarstjórn ótakmarkaða heimild til að leggja á eins konar toll eða söluskatt. Ef þetta frumvarp væri lögleitt, þá væri búið að gera veltuútsvarið hreinlega að söluskatti eða tolli, og það aðhald, sem á að felast í því, að veltuútsvarið er ekki frádráttarbært, aðhald fyrir allar samvizkusamar niðurjöfnunarnefndir, væri þá alveg úr sögunni. Þá væri hægt að leggja á ótakmarkaðan toll eða ótakmarkaðan söluskatt eftir vild bæjarstjórna og sveitarstjórna. Þetta hefur verið sjónarmið, að því er ég held, allra þeirra, sem hafa unnið undanfarið að því að reyna að brjóta þessi mál til mergjar. Og satt að segja er einmitt þetta, að það þarf að takmarka veltuútsvarið með lögum, ef það á að gera það frádráttarbært, eitt af stærstu vandamálunum í sambandi við félagaskattana. Það er sem sé alls ekki einfalt að setja slík takmörk í lög um veltuútsvörin. Því fer víðs fjarri. En sennilega fer nú samt svo, að menn reyna að yfirvinna þá erfiðleika og það verða sett takmörk með lögum, þótt þar séu mörg ljón í leiðinni. Ef sett er eitthvert ákveðið hámark á veltuútsvörin, þá er það kannske óþarflega hátt fyrir eitt bæjarfélag, en of lágt fyrir annað, og þannig mætti lengi telja upp þau vandamál, sem koma upp í þessu sambandi, auk þess sem það þarf að liggja fyrir mjög glögg vitneskja um, að hve miklu leyti veltuútsvörin eru notuð sem tekjustofn fyrir bæjarfélögin og sveitarfélögin, bæði hvert fyrir sig og almennt, áður en ráðizt er í að setja um þau nánari reglur í löggjöfina. Þetta veit ég, að hv. frsm. er allt saman vel ljóst, þó að hann hreyfi þessu máli á þá lund, sem hann gerir. Ég tók ekki alveg nákvæmlega eftir því, sem hann sagði um þetta, en ég efast um, að hann mundi vilja halda því til streitu, að það yrði lögboðið að leyfa að draga frá veltuútsvar, án þess að þeim væri um leið sett takmörk. Ég efast um það. Hann flytur þó vitaskuld sjálfur sitt sjónarmið og segir, hvað fyrir honum vakir. En við rekum okkur á, ef við horfumst í augu við þetta, að þá er málið mjög vandasamt. Ef lögboðið væri hámark veltuútsvara, sem væri lægra en tíðkast yfirleitt, þá mundu mörg bæjarfélög og sveitarfélög komast í vanda og yrðu að leita að öðrum leiðum. — Það, sem nú hefur verið rakið, eru nokkrar af ástæðunum fyrir því, að málið um skattlagningu félaga hangir alveg saman við fjárhagsmál bæjar- og sveitarfélaga, og þess vegna er þetta allt svo erfitt viðureignar.

Það hefur stundum hvarflað að mér í þessu sambandi til þess að reyna að fá þó einhvern þátt í þessu máli fram að láta þetta veltuútsvaramál, sem er svo tengt fjárhag bæjar- og sveitarfélaganna, eiga sig í bili, en snúa sér að því að breyta skattstigunum til ríkisins á félögunum, sem út af fyrir sig er nauðsynlegt og væri endurbót. En ég hef ekki enn þá haft mig í að slíta þetta í sundur, heldur hefur þessi dráttur orðið. Þó að breytt væri skattstiganum til ríkisins fyrir félögin, hefur það tæpast úrslitaþýðingu, á meðan bæjarfélögin hafa ótakmarkaða möguleika til þess að leggja á þau eftir sínu höfði og framkvæma það eins og þau hafa gert. En spor hefur þó verið stigið í þá átt að laga skattstigana til ríkisins með því að afnema tekjuskattsviðaukann á félögunum, sem ég man nú ekki eftir að hv. frsm. tæki fram í sinni ræðu. (BÓ: Jú, ég tók það fram.) Já, þetta er spor af ríkisvaldsins hálfu til þess að reyna að ráða dálitla bót á því slæma ástandi, sem ríkir í þessum efnum. Eitt ár var tekjuskattur og stríðsgróðaskattur samanlagt lækkaður um 20%, en tekjuskattsviðaukinn látinn halda sér, en síðan var horfið að því ráði að fella tekjuskattsviðaukann niður, en búa við skattstigana til ríkisins að öðru leyti óbreytta í bili. Ég er óánægður með það ástand, sem ríkir í þessum málum, eins og ég hef margoft tekið fram hér á Alþingi. Það má vel vera, að það megi með einhverjum rétti ásaka mig og aðra um ódugnað í því að hrinda þessu máli til úrslita, en þar hefur komið til greina ýmiss konar skoðanamunur og blátt áfram það, hve málið er óskaplega vandasamt, þar sem það fléttast inn í tekjuöflunarmál bæjar- og sveitarfélaga.

Þessi orð vildi ég láta falla við 1. umr. þessa máls, vegna þess að hv. Alþingi á heimtingu á því að fá að vita, hvort verið er að vinna að málinu, því að enn er í gildi þál. um að endurskoða skattalögin og mþn. hefur skilað till., þar á meðal till. um skatt- og útsvarsálagningu á félög, till., sem ég hef ekki treyst mér til þess að hafa sem grundvöll að frv. og ekki heldur náðst samkomulag um. En sem sagt, það verður haldið áfram að vinna að þessu máli.