27.11.1956
Neðri deild: 22. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 74 í C-deild Alþingistíðinda. (2952)

60. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Flm. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. fjmrh. fyrir þær undirtektir, sem þessar till. fengu hjá honum i þeirri ræðu, sem hann nú hélt hér. Hann sagði, að skattlagningin væri komin út í hreinar öfgar. Ég verð að segja, að þetta er mjög sterkt að orði kveðið af fjmrh. eins lands.

Ég var aldrei í neinum vafa um, að hæstv. ráðh. hefði fullan skilning á þessu máli, eins og líka kom fram í ræðu hans. En ég hef undanfarið mjög linazt í þeirri trú, að hann mundi fylgja því eftir að fá þær sjálfsögðu leiðréttingar á þessum málum, sem hann í ræðu sinni taldi þó að ekki yrði hjá komizt til lengdar.

Hann sagði, að ekki væri á valdi Alþ. að breyta þessari útsvarsálagningu bæjarfélaga. Ég vil ekki viðurkenna, að svo sé. Og ég tel, að til þess að breyta þessari útsvarsálagningu bæjarfélaganna, sem öllum kemur saman um að sé mjög óheilbrigð, þurfi fyrst og fremst að ná því takmarki að sjá þeim fyrir nýjum tekjustofnum. Ef bæjarfélögunum er séð fyrir nýjum tekjustofnum, þá munu þau ekki hafa á móti því að breyta þessari skattlagningu eða jafnvel fella hana alveg niður. Í öðru lagi má, eins og hæstv. ráðh. gat um, setja skorður um álagningu sveitar- og bæjarfélaga í þessari álagningu og annarri beinni álagningu, sem undir þau kemur. Það er því fyrst og fremst að mínu áliti á valdi Alþ., hvort bæjarfélögin geta gert breytingu á þessari útsvarsálagningu, sem nú er ríkjandi.

Ég vænti þess vegna, að hæstv, ráðh., sem hefur fullan skilning á málinu, leggi fram aðstoð sína til þess að fá breytingu á þessu ófremdarástandi. En til þess þarf að vinna að málinu og leggja það fyrir Alþingi. Það er ekki nægilegt að hafa skilning á því og velvilja. Það verður líka að koma því á það stig, að einhver úrlausn sé möguleg.

Hæstv. ráðh. sagði, ef ég man rétt, að það væri á valdi bæjarfélaganna, hvernig farið væri með þetta veltuútsvar. Það má segja, að svo sé, að það sé í þeirra valdi, fljótt á litið. En við verðum að gæta þess, að þetta er hrein neyðarráðstöfun af þeirra hendi. Þau eru, ef svo mætti segja, bandingjar þess skorts á tekjustofnum, sem Alþ. raunverulega hefur valdið, með því að synja þeim í mörg ár um nauðsynlega tekjustofna. Þess vegna hefur verið farið inn á þá neyðarbraut að taka upp þetta veltuútsvar, þó að öllum sé að verða ljóst og kannske ekki sízt bæjarfélögunum, að þessi skattlagning getur ekki gengið til frambúðar. Hún hefur sína eigin feigð falda í sjálfri sér.

Mér þótti vænt um að heyra þá staðfestingu á skilningi hæstv. ráðh., að hann teldi, að veltuútsvarið ætti í eðli sínu að vera frádráttarhæft. En hann sagði, að það yrðu að vera ákveðin takmörk fyrir álagningunni. því að öðrum kosti væri hægt að færa þetta út i enn meiri öfgar, þó að frádráttarheimildin væri sett í lög.

Ég segi eins og hv. þm. A-Húnv.: Þetta væri að sjálfsögðu æskilegast. En meðan það fæst ekki, þá viljum við þó heldur hafa þetta en ekki neitt. Við umræður i mþn. skattalaganna setti ég fram þá till., að það mætti ekki hækka veltuútsvarið frá þeirri reglu um veltuútsvar, sem nú væri gildandi í hverju bæjarfélagi. Nú er bæjarfélögunum gert að skyldu að skýra frá, hverjir eru útsvarsstigar hjá þeim, og nú liggur það fyrir. Á einfaldan hátt má sjá um það, að þessir skattstigar, sem nú eru í gildi með veltuútsvarið, hækkuðu ekki, eftir að frádráttarheimildin væri sett í lög. Hitt þarf svo á að líta, hvort útsvarsreglurnar séu svo geysilega misjafnar hjá bæjarfélögunum um allt land, að nauðsynlegt væri að taka þær til sérstakrar athugunar. Mér dettur þetta í hug af því, að ég hef heyrt, — ég hef ekki að vísu sannanir fyrir því, — ég hef heyrt það, að sums staðar hafi veltuútsvarið farið upp í 5% af veltu skattgreiðenda. Menn geta nú hugsað sér, hversu réttlát slík skattlagning er, sem gerir mönnum að greiða 5 % í aukaskatt af veltu sinni.

Þessi vandkvæði eru ekki aðeins hér í Reykjavík, þó að mest beri á þeim hér, vegna þess að hér er fólksfjöldinn mestur. Vandkvæðin eru um allt land. Í stærri bæjum sem smærri eru menn skattlagðir á þann hátt, sem ég lýsti í ræðu minni. Fjöldamörg dæmi eru um það, að skattgreiðendur þurfi að greiða miklu meira fé í útsvar og skatta en þeir hafa í tekjur á árinu. Niðurstaðan hlýtur að verða sú, að gengið er á þann höfuðstól, sem fyrirtækin hafa, og þegar höfuðstóllinn er uppétinn og skuld fer að safnast, þá eru hlutafélög samkv. landslögum skyldug að tilkynna gjaldþrot sitt, vegna þess að þau eiga ekki lengur fyrir skuldum. Þetta er það, sem er að gerast og verður alvarlegra því lengur sem líður.

Ég geri ráð fyrir, að hlutur veltuútsvarsins í heildarútsvarsálagningu bæjarfélaga fari hækkandi með ári hverju. Eftir þeim upplýsingum, sem ég hef fengið, mun hlutur veltuútsvarsins í heildarálagningu í Reykjavík vera um 17%. Það er ákaflega stór hluti af sjálfri útsvarsálagningunni, þegar litið er á það, hvernig útsvarið er fengið.

Þetta er ákaflega erfitt mál, ég viðurkenni það fyllilega. En það þarf fyrst og fremst að vera fullur skilningur á lausn málsins, og það þarf að vera fullur vilji á því að leysa það. En til þess þarf að vinna að lausninni. Og ég vil benda hv. þingmönnum á, að það er takmarkað, hversu lengi er hægt að bíða eftir þessari lausn.

Ég lét víst undir höfuð leggjast við umr. málsins í gær að óska eftir, að málinu yrði vísað til fjhn. að afloknum umræðum.