14.03.1957
Neðri deild: 67. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 84 í C-deild Alþingistíðinda. (2970)

21. mál, jafnvægi í byggð landsins

Frsm. meiri hl. (Pétur Pétursson):

Herra forseti. Fjhn. varð ekki sammála um afgreiðslu þessa frv. Meiri hl. leggur til, að frv. sé vísað til ríkisstj., sbr. nál. á þskj. 330, en minni hl., hv. sjálfstæðismenn í n., leggur til, að frv. sé samþykkt, sbr. nál. á þskj. 318.

Tilgangur flm. er augljóslega sá að stuðla að því, að ráðstafanir séu gerðar til að efla jafnvægi í byggð landsins og til þess að veita þeim stöðum fjárhagslega aðstoð, sem þess þurfa vegna atvinnuörðugleika. Flm. segja í grg. sinni m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Það er skoðun flm. þessa frv., að það sé brýnast nauðsynjamál þjóðarinnar að koma í veg fyrir, að meginþorri hennar safnist saman á mjög takmörkuðu svæði í landinu. Er því mjög mikilvægt að halda við byggð á öllum þeim stöðum í landinu, þar sem atvinnuskilyrði frá náttúrunnar hendi eru góð.“

Mér fyrir mitt leyti finnst mjög ánægjulegt að sjá, hvað skoðun flm. frv. fellur vel saman við yfirlýsingar núverandi stjórnarflokka. Það er því áreiðanlega ekki ágreiningur á milli stjórnarflokkanna og hv. flm. eða hv. sjálfstæðisþm., ef þeir standa einhuga að þessari skoðun, um það, að nauðsyn sé að gera ráðstafanir til að stuðla að jafnvægi í byggð landsins. Þetta er auðvitað kjarni málsins. Ef fyrir hendi er einhuga vilji Alþ. til þess að ráða bót á þeim erfiðleikum, sem fjöldamörg byggðarlög landsins eiga við að stríða, þá ætti að mega gera ráð fyrir, að verulegur árangur yrði.

Jafnvægismál byggða landsins eru víst hreint ekki ný mál hér á hæstv. Alþ. M.a. mun mjög hafa verið um þau rætt á síðasta þingi, þótt ný lög næðu þá ekki fram að ganga. Tveir menn voru í júní 1954 skipaðir af ríkisstj. til þess að gera athugun á öllum þessum málum. Þeir voru, eins og kunnugt er. hv. þm. N-Þ. (GíslG) og Gísli Jónsson, fyrrverandi þm. Greinargerð þeirra um athugun á röskun jafnvægis í byggð landsins, um jafnvægisframkvæmdir o.fl. var lögð fram hér á Alþ. í haust.

Í þeirri skýrslu, sem er stór sjóður af upplýsingum, kemur mjög margt fram, sem styður og styrkir þá áætlun hæstv. ríkisstj. að aðstoða sem mest þau byggðarlög landsins, sem verst eru sett í atvinnulegu tilliti.

Það er auðvitað enginn hulinn leyndardómur, að því aðeins helzt jafnvægi í byggð landsins, að atvinnuskilyrði séu fyrir hendi á hinum ýmsu stöðum. Ef atvinna er minni í viðkomandi byggðarlagi heldur en einhvers staðar annars staðar, fer fólkið auðvitað þangað sem atvinnan er, og dvelst þar um skemmri eða lengri tíma. Þar sem slíkt kemur fyrir, er hætt við, að framfarahugur kannske dofni og kjarkleysi geri vart við sig, jafnvel þó að um dugmikið fólk sé annars að ræða.

Það liggur í augum uppi, að fyrsta skylda ríkisvaldsins hlýtur að vera að gera sem flestum þegnum þjóðfélagsins sem jafnast undir höfði varðandi það undirstöðuatriði, að þeir hafi möguleika til að vinna arðbæra vinnu. Hitt er svo auðvitað annað mál, hvort einstaka staðir á landinu eru ekki þannig settir frá náttúrunnar hendi, að það geti orkað tvímælis, hvort rétt er frá þjóðhagslegu sjónarmiði, að þar sé byggð, og hvort ekki sé svo kostnaðarsamt að gera nauðsynlegar umbætur til að tryggja þar atvinnu, að hagkvæmara geti verið að leggja meiri áherzlu á aðra staði, þar sem fleira fólk fær notið þess, sem gert er. Þetta er rannsóknarefni sérfræðinga á því sviði og það ekki lítið. Í skýrslu þeirrar jafnvægisnefndar, sem ég nefndi áðan, kemur í ljós, hversu mikill hlutfallslegur tilflutningur fólksins í landinu hefur orðið, jafnvel á aðeins 13 ára tímabili, frá 1940 til 1953.

Á þessu tímabili hefur fólki í kaupstöðum landsins fjölgað úr 64700 í 93400, eða um ca. 45%, en í sveitum úr 56700 í 58400, eða aðeins um ca. 3%. Á sama tíma hefur fólki á Suðvesturlandi, þ.e.a.s. í Reykjavík, Hafnarfirði, Keflavík og Gullbringu- og Kjósarsýslu, fjölgað úr 47300 í 77800, eða um ca. 65%. Á þessu svæði býr 1953 ca. 51% af öllum íbúum landsins skv. skýrslu nefndarinnar. Af þessum tölum er augljóst, að miklir tilflutningar fólks hafa orðið á þessu tímabili frá dreifbýlinu og til þéttbýlisins. Ástæðurnar til þess liggja í augum uppi, fólkið hefur meiri atvinnu og betri afkomumöguleika í þéttbýlinu og einkum hér á Suðvesturlandi. Flestir telja þessa þróun þó ekki æskilega, og rökrétt ályktun hlýtur þá að vera, að rétt sé og sjálfsagt að stuðla meira að jafnvægi í byggð landsins heldur en gert hefur verið, bæði varðandi jafnvægi á milli kaupstaða og sveita og ekki síður á milli einstakra landshluta.

Eins og ég sagði áðan, virðist ekki vera ágreiningur á milli stjórnarflokkanna og stjórnarandstöðunnar um það, að nauðsynlegt sé að gera ráðstafanir til að stuðla að jafnvægi í byggð landsins. Hitt virðast nú vera orðin aðalrök fyrir samþykkt frv. frá hendi stjórnarandstöðunnar, að annar háttur sé tekinn upp um úthlutun þess fjár, sem til atvinnubóta er ætlað, heldur en verið hefur á undanförnum árum. Nú ætti að skilja af áliti hæstv. minni hluta, að atvinnubótafénu hafi verið úthlutað af meira og minna handahófi, eins og segir í álitinu. Hér hlýtur að vera um einhvern misskilning að ræða. Mér skilst, að gangurinn hafi verið sá, að einstaklingar eða sveitarfélög hafi sótt um atvinnubótafé, en að ráðuneytisstjórar og ráðherrar hafi síðan kynnt sér, hvar þörfin hafi verið mest, og síðan úthlutað fénu þangað. Upphæðin er að vísu þrisvar sinnum meiri nú en áður, og er það að sjálfsögðu mjög mikilsvert, en ég get ekki séð, að það út af fyrir sig sé rök, sem réttlæti það, að heppilegra sé að fela þessa úthlutun einhverjum öðrum mönnum nú fremur en áður. Hitt er svo annað mál, að vel getur svo farið, að ríkisstj. þyki það henta í samræmi við heildarskipulagningu á þessum jafnvægismálum að breyta síðar því fyrirkomulagi, sem haft hefur verið á málunum undanfarið, og þá yrði það einn liður í því verkefni ríkisstj. að stuðla að jafnvægi í byggð landsins, sem hún er að vinna að.

Hæstv. ríkisstj. skipaði atvinnutækjanefnd á s.l. hausti. Þessi n. er að gera nýja skýrslu um atvinnutæki og atvinnuástand í kaupstöðum og kauptúnum á Vestur- Norður- og Austurlandi. Síðan á n. að gera till. í þessum efnum, þar sem þeirra er þörf, til þess að hægt sé að vinna skipulega að því að koma á jafnvægi i byggð landsins.

Hv. Alþ. hefur samþ. fyrir nokkru lög, sem heimila ríkisstj. að kaupa 15 togara og 6 minni fiskiskip. Skv. þeim lögum gerir atvinnutækjanefnd till. um ráðstöfun skipanna með sérstöku tilliti til þess að stuðla að jafnvægi í byggð landsins. Mér finnst því liggja í augum uppi, að ríkisstj. hefur unnið og er að vinna að jafnvægismálunum. Þar við bætist, að í stefnuyfirlýsingu ríkisstj. segir m.a., að stjórnin muni beita sér fyrir atvinnuuppbyggingu í landinu, einkum í þeim þremur landsfjórðungum, sem nú eru verst á vegi staddir í atvinnulegum efnum. Og með tilliti til þess, hvernig þessi mál liggja nú fyrir, telur meiri hl. fjhn. eðlilegt og raunar sjálfsagt, að því frv., sem hér er til umr., sé vísað til hæstv. ríkisstj.