14.03.1957
Neðri deild: 67. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 86 í C-deild Alþingistíðinda. (2971)

21. mál, jafnvægi í byggð landsins

Frsm. minni hl. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Hv. frsm. meiri hl. fjhn. vék að því í upphafi ræðu sinnar, að það virtist ekki vera neinn ágreiningur milli sjálfstæðismanna og stjórnarsinna um nauðsyn þess að vinna að auknu jafnvægi í byggð landsins.

Í þessu sambandi vék hann að ýmsum ráðagerðum og fyrirætlunum núverandi hæstv. ríkisstj. í þessu sambandi.

Þess er að minnast, að sjálfstæðismenn áttu frumkvæði að því hér á Alþingi 1952, að samþykkt var þáltill. um, að gerð yrði heildaráætlun, sem stuðlaði að því að auka og skapa jafnvægi í byggð landsins, og á grundvelli þeirrar þál. skipaði fyrrv. atvinnumálaráðherra, Ólafur Thors, nefnd tveggja manna til þess að vinna að þessum málum. En það er ekki aðeins þetta, heldur hafa sjálfstæðismenn einnig á undanförnum þingum flutt frv., sem stefna mjög í þá átt, sem þetta frv. hér gerir. Sýnir þetta allt og sannar bæði frumkvæði og áhuga sjálfstæðismanna fyrir þessu, og engu síður hefur hann komið fram hjá þeim þm. Sjálfstfl., sem búa í þéttbýlinu og á þeim hluta landsins, þar sem atvinnuskilyrðin hafa verið talin bezt.

En það er langt síðan sjálfstæðismenn bentu á, að hér væri verið að fjalla um veigamikið atvinnu- og fjármál landsmanna og ef Alþingi bæri að skipa nokkrum málum með lögum, þá bæri vissulega að skipa slíkum málum eins og þessum með lögum. Það er beinlínis verið að ráðgera, að af opinberri hálfu séu gerðar ráðstafanir til þess að hafa stórkostleg áhrif á tilflutning fólksins og leggja upp í hendur á sumum atvinnutæki og atvinnumöguleika á kostnað — að því er virðist a.m.k. til bráðabirgða — annarra landsmanna. Og hér er um svo mikilvæg og viðkvæm mál að ræða, að almenningur verður að hafa nokkurt öryggi um, að með slík mál sé farið bæði með réttsýni og eftir tilteknum og lögskipuðum reglum.

Þess vegna hafa sjálfstæðismenn á undanförnum árum, meðan varið hefur verið fé, eins og segir í nál. okkar, að meira eða minna leyti af handahófi, — og ég endurtek það, og það verður ekki hrakið, að það er að meira eða minna leyti af handahófi, sem fjárráðstafanir í þessu sambandi hafa verið gerðar á undanförnum árum, — og einmitt vegna þess hafa sjálfstæðismenn látið koma fram, bæði hér á þingi við afgreiðslu fjárl. og í málefnaflutningi, að þeir telji nauðsyn bera til að skipa þessum málum í fastara form.

Við skulum slá því föstu, að það sé rétt, að það sé ekki mikill ágreiningur uppi um efnishlið málsins, en hins vegar um meðferð málanna, eins og nú standa sakir. Og þá er það viðhorf okkar sjálfstæðismanna, sem ekki er nýtt, að Alþingi beri að taka ákvarðanir um þann ramma, sem ráðstafanir eru gerðar innan í sambandi við svo veigamikil atvinnu- og fjármál sem hér er um að ræða.

Við skulum aðeins horfa á það, sem blasir við okkur í dag. Það hefur verið þrefaldað fjármagnið, sem á að verja til atvinnuaukningar, við það, sem mest hefur verið á undanförnum árum, sem var 1956, úr 5 millj. kr. upp í 15 millj. kr. og þessu fé á að úthluta af meira eða minna handahófi, eins og ég sagði, vegna þess að það er ekkert skipulagsbundið starf, sem þarna er um að ræða. Pólitískir ráðh. og til aðstoðar þeim ráðuneytisstjórar úthluta fénu. Og hver veit þó um það, hvernig þetta er nú? — Vill hæstv. ríkisstj. gefa yfirlýsingu um það í dag, að sá háttur sé á hafður við úthlutun atvinnuaukningafjárins, að ráðuneytisstjórarnir fjalli um það mál? Er sá háttur á hafður? Okkur í stjórnarandstöðunni er ekki kunnugt um það. Okkur er kunnugt um, að i tíð fyrrv. stjórnar var sú skipan gerð, að samkomulag var innan stjórnarinnar um það, að ráðuneytisstjórar í félmrn., fjmrn. og atvmrn. fjölluðu um þessi mál, um hverja einustu umsókn og legðu sínar till. fyrir viðkomandi ráðh. og ríkisstj. Er þessi háttur enn á? Það væri æskilegt að heyra frá hæstv. ríkisstj. um það, hvort slíkt sé enn eða hvort önnur skipan sé hugsuð á þessum málum.

En ég tel, að þessi háttur hafi verið ófullnægjandi, þegar aðeins var um þriðjungi minna fjármagn að ræða heldur en nú er ráðgert, og þeim mun meira ófullkominn, sem málið verður veigameira og fjárráðstafanirnar verða meiri.

Nú er það upplýst af hv. frsm. meiri hl. fjhn., að ríkisstj. skipaði það, sem kallað er „atvinnutækjanefnd“, og þessi atvinnutækjanefnd á að gera till. um það, hverjir eigi að fá og hvaða landshlutar eigi að fá eða verða úthlutað atvinnutækjum, skipum og öðru, sem keypt kann að verða í þessu skyni.

Er ekki dálítill veigamikill munur á þessu, ef við rekjum söguna aftur í tímann? Á nýsköpunarárunum voru sett lög um nýsköpunarráð, og það starfaði samkvæmt löggjöf frá Alþingi og fyrir opnum tjöldum og skipað fulltrúum stjórnmálaflokkanna í landinu eða fulltrúum, sem Alþingi kaus. Fjárhagsráð varð síðar arftaki þessa nýbyggingaráðs, skipað samkvæmt lögum frá Alþingi einnig og starfandi sem opinber stofnun fyrir opnum tjöldum. En hvað er þessi atvinnutækjanefnd hæstv. ríkisstj.? Samkvæmt hvaða heimild starfar þessi nefnd? Er þetta ólaunuð nefnd? Eða fær hún laun fyrir störf sín? Og hver eru þessi laun, sem þessi nefnd fær, og samkvæmt hvaða heimild eru henni þá greidd laun?

Mér telst til, að það muni fram að áramótum hafa verið skipaðar milli 20 og 30 nefndir af hálfu hæstv. núverandi ríkisstj., annaðhvort nýjar nefndir eða nýskipan á eldri nefndum, sem settar hafa verið í nýir menn á einu eða öðru sviði.

Það væri mjög æskilegt að fá nánari upplýsingar um þetta í þessum umr. frá hæstv. ríkisstj., hverjar þessar n. eru, bæði hversu margar og einnig um launakjör þessara n. Hvernig starfa þær? Eru þær ólaunaðar eða eru þeim greidd laun? Og samkvæmt hvaða heimild eru þeim greidd laun? Og hve mikil laun? En allt er þetta nýr þáttur í okkar stjórnarfari, að það séu í tugatali skipaðar af ríkisstj. nefndir til þess að fjalla um veigamikil mál, þó að sumar séu að vísu ekki neitt svipað því eins veigamiklar og það mál, sem hér er um að ræða, og margar nefndarskipanirnar í minni málum eru kannske í samræmi við venjur, sem áður hafa tíðkazt. En hér er ekki nokkur vafi á, að við erum að fjalla um mál, sem alveg sker sig úr, þegar verið er að gera opinberar ráðstafanir til þess að hafa viðtæk áhrif á það, í hvaða landshlutum atvinnutæki, skip og togarar og önnur tæki eru staðsett og hvernig þessum tækjum eru búin skilyrði í viðkomandi héruðum.

Þess vegna höfum víð í minni hl. fjhn. lagt á þetta atriði mjög mikla áherzlu í okkar nál. og m.a. vegna þess, að einn þáttur þessa jafnvægismáls, sem áður hefur verið fjallað um í till., fluttum af sjálfstæðismönnum, þ.e.a.s. varðandi skipakaup og togarakaup, er nú út úr þessu frv. tekinn og hefur verið samþ. af þinginu í öðrum frv. og í öðru formi, og af þeim sökum einnig m.a. hvílir meiri þungi nú en áður á meðferð þeirrar hliðar málsins, hvernig fjárráðstöfuninni úr hinum svokallaða jafnvægissjóði er skipað og með hverjum hætti verður um þau mál fjallað.

Meiri hl. n. leggur til, vegna þess að ríkisstj. sé að vinna að þessum málum, að þeim sé vísað til ríkisstj. En við sjálfstæðismenn teljum, að það sé einmitt ein af frumskyldum löggjafarvaldsins sjálfs að fjalla um og setja slíkum málum sem þessu þann ramma og þau mörk, sem eðlilegt er. Það er með ólíkindum, að það geti verið farsælli háttur um ráðstafanir í sambandi við að viðhalda og skapa jafnvægi í byggðum landsins, að þau mál séu falin pólitískum nefndum, sem ríkisstj. skipar algerlega án tilhlutunar Alþingis og án þess að t.d. stærsti stjórnmálaflokkur landsins hafi nokkra minnstu aðstöðu til þess, þrátt fyrir sitt mikla þingfylgi og þrátt fyrir sitt mikla kjósendafylgi, að koma þar nokkuð nálægt málum.

Við höfum, minni hl., í okkar nál., varað alvarlega við þeirri stjórnmálaþróun, sem felst í því háttalagi, sem hér er um að ræða, hvernig nú er unnið að þeim málum, sem kallað er og talið er að stefni að því að skapa aukið jafnvægi í byggðum landsins. En það eru mörg önnur mál, sem svipað er ástatt um, eins og ég sagði, og væri fróðlegt og æskilegt að fá nánari upplýsingar um í umr. og verður kannske innt frekar eftir, ef einhver tregða yrði á því af hálfu hæstv. ríkisstj. En mér fyndist, að hún gerði hreint fyrir sínum dyrum með því að láta okkur þm. í té, þegar eftir því er innt, lista yfir allar þær nefndarskipanir og nýskipanir í nefndum, sem hún hefur tekið sér fyrir hendur, frá því að hún settist að völdum, og ef mönnum finnst, að það sé ekki ástæða fyrir hana að gera það í þessu máli, þá mætti kannske gera það á öðrum vettvangi.

Ég vil að lokum vekja athygli á því, að það undarlega skeður, að þegar stjórnskipuð nefnd er búin að vinna að frv. um jafnvægi í byggð landsins og ríkisstj. flytur það á s.l. þingi, þá verður á síðari stigum málsins ekki samkomulag um það, að málið nái fram að ganga. Og nú leggja sjálfstæðismenn enn til, að þessum málum sé nánar skipað með lögum. Þá vil ég segja, að við sjálfstæðismenn mundum að sjálfsögðu verða viðmælandi um margs konar breytingar, ef menn hefðu þær í huga, við þetta frv., og það kann vel að vera, að ýmsum þáttum þess væri betur skipað en hér er lagt til. Um það virðist ekki hafa verið rætt enn þá af hálfu stjórnarsinna. En það, sem við leggjum megináherzluna á, er að koma þessum málum núna í lögskipað form, og þegar við, eins og ég sagði, nú á þessu þingi gerum enn tilraun til þess, þá leggur meiri hl. fjhn. eða fulltrúar ríkisstj. til, að málinu sé vísað til ríkisstj.

Það eru einhver einkennileg, undarleg og annarleg öfl að verki hér í þinginu, vil ég segja, sem vilja koma því til leiðar, að umfram allt megi ekki svo fara, að Alþingi fjalli um eitt af veigamestu og þýðingarmestu málunum varðandi atvinnu- og fjármál okkar, sem uppi hefur verið á undanförnum árum.

Þess vegna er það rétt, sem fram kom í ræðu hjá frsm. meiri hl. fjhn., að við sjálfstæðismenn nú leggjum veigamikla áherzlu á formshlið þessa máls, og það er ekki heldur að undra, þegar engum dylst um afstöðu okkar til efnishliðar málsins og þegar fulltrúar stjórnarflokkanna lýsa yfir áhuga sínum, sem fer í mjög hliðstæða átt varðandi efnishlið málsins og fram hefur komið hjá sjálfstæðismönnum.

Við leggjum því mikla áherzlu á, fulltrúar minni hl. í fjhn., að þessu máli verði nú skipað með l., og leggjum til, að þetta frv. verði samþ. En eins og ég sagði áðan, mundum við að sjálfsögðu vera viðmælandi um breytingar á því og einhverja aðra skipan, ef till. yrðu fluttar um það og ef hæstv. ríkisstj. vildi skoða hug sinn um og taka málið upp á þeim vettvangi að skipa því með lögum, en ekki af því handahófi, sem verið hefur og nú er, eins og málum er komið.