14.03.1957
Neðri deild: 67. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 96 í C-deild Alþingistíðinda. (2975)

21. mál, jafnvægi í byggð landsins

Frsm. meiri hl. (Pétur Pétursson):

Herra forseti. Þessar umr. hafa nú farið að snúast talsvert yfir í nefndir, hvað þær hafi gert og hvað þær hafi verið margar og allt þar fram eftir götunum.

Mér hefur skilizt, að nefndir væru fyrst og fremst skipaðar til þess að vinna ákveðin verkefni, og mér liggur við að halda, að ef margar, ákveðnar nefndir eru skipaðar, þá eru þær skipaðar til að vinna mörg, ákveðin verkefni. Og það mætti þá kannske halda, að einmitt það væri árangur af því, að ríkisstj. er að vinna að mörgum, ákveðnum verkefnum og taka upp marga, ákveðna þætti, sem ekki hefur verið tekið til meðferðar fyrr.

Mér finnst hv. 5. þm. Reykv. (JóhH) ekki þurfa að vera að tala allt of mikið um nefndaskipun, því að mér skilst, að hans flokkur í bæjarstjórn Reykjavíkur, sem þar ræður, hafi gert talsvert að því að skipa nefndir, og ég er ekkert að lasta það, þegar nefndir eru skipaðar til þess að gera ákveðin verk á hverjum tíma.

Mér finnst það hafa komið fram við umr., að höfuðatriðið í þessum málum sé orðið það að koma sérstakri stjórn til valda í þeim sjóði, sem gert er ráð fyrir samkvæmt frv., til þess að úthluta því fé, sem þar er gert ráð fyrir, fremur en sá háttur sé hafður áfram eins og undanfarið hefur verið og er.

Það kann vel að vera, að þegar þessi mál öll eru búin að taka þann svip, sem hæstv. ríkisstj. kann að ætlast til, verði það talið heppilegt fyrirkomulag að hafa sérstaka nefnd eða stjórn sjóðs til þess að gera þessa hluti. En mér finnst, að þessi mál séu einn þáttur, eins og reyndar var viðurkennt af hv. 2. þm. Eyf. (MJ), í þessum málum öllum, í heildarskipulagi þessara mála. Ég get ekki séð neitt óeðlilegt við það á þessu stigi málsins, þegar hæstv. ríkisstj. er að vinna að málunum í heild, eins og ekki hefur verið borið á móti; hún hefur ákveðið kaup á eða fengið heimild til að kaupa allmörg skip, og fjárhæð til atvinnubóta hefur verið þrefölduð, og ég held, að það geti enginn sagt með neinum rétti, að ríkisstj. hafi gert minna en undanfarandi stjórnir, þvert á móti hefur hún gert meira. Hún er sem sagt að vinna að þessum málum í fullum gangi, og mér finnst það alveg eðlilegt og rökrétt, að hún fái þennan hluta málanna til meðferðar líka á sama tíma. Ég hygg, að ef hv. sjálfstæðismenn stæðu að ríkisstj., mundi þeim finnast það óeðlilegt að vera að taka sérstakan þátt út og meðhöndla hann alveg á sérstakan hátt.

Mér sýnist, að ekki hafi komið fram nein höfuðrök um, að það þurfi að breyta til um þetta núna. Mér hefur skilizt, að þetta atvinnubótafé hafi verið ákveðið alltaf frá ári til árs eftir því, hvernig ástandið hefur verið og hvað hefur verið fært að láta mikið í þetta. Mér skilst, að á undanförnum árum hafi þetta verið 5 millj. kr. Nú er gert ráð fyrir 15 millj. kr. Það er að vísu kannske áhættusamara að úthluta 15 millj. kr., en ég verð að segja, að ef ríkisstj. og aðrir embættismenn gátu úthlutað 5 millj. kr., eins og undanfarnar stjórnir hafa látið gera, þá held ég, að það sé nokkurt vantraust að halda, að það sé ómögulegt af þessum embættismönnum að gera það núna.

Hv. 2. þm. Eyf. kvartar undan því, hvað lítil rök komi fram í nál. á þskj. 330. Ég minntist á þetta áðan, og ég mótmælti því alveg, að það séu ekki nægjanleg rök, þegar þessir hv. þm. hljóta að vita, að ríkisstj. er að vinna að þessum málum af fullum krafti einmitt núna, og samkvæmt því, sem þeir hafa lýst yfir, styðja þeir þessar aðgerðir ríkisstj., og mér finnst, að þeir ættu að gefa ríkisstj. frið til þess að láta þessi heildarmál taka mynd á sig og sjá svo og fara þá að gera sínar breytingar, ef þeim þykir ástæða til.

En á þessu stigi málsins finnst mér alveg rökrétt, að frv., sem er einn þáttur i heildarskipulagi um aðgerðir til að stuðla að jafnvægi í byggð landsins, gangi til ríkisstj.