09.11.1956
Neðri deild: 13. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 106 í C-deild Alþingistíðinda. (2987)

18. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Flm. (Jóhann Hafstein):

Ég verð að leyfa mér að segja, að þetta er ein lágkúrulegasta ræða, sem ég hef lengi heyrt á Alþ., og hún skýrir dálítið, með hverjum hætti þessi hv. þm. situr hér í þingsölunum. Hann situr hér, þó að kjósendurnir í kjördæmi hans séu búnir að segja honum, að þeir vilji ekki hafa hann sem þingmann, þó að hann hafi fengið færri atkv. frá kjósendum sínum en andstæðingur hans í kjördæminu.

Ég hélt, að sorgarsaga hv. þm. V-Ísf. í sjávarútvegsmálum og afskipti hans af þeim væri orðin slík, að það væri ofraun, að hann mundi bæta ofan á þá sorgarsögu annarri eins skömm og þeirri ræðu, sem hann hefur nú hér flutt. Hann hefur sótt um og látið birta af sér myndir og þótzt vera brautryðjandi í sjávarútvegsmálum með kaupum á bátum og fengið til þess fé úr almannasjóðum, sem áttu að aðstoða fólkið í byggðarlagi hans. Sumir af þessum bátum komu þar aldrei, og fæstir hafa nokkurn tíma verið gerðir út. Hann gekk vel fram í því að gera út togara í þessu byggðarlagi, sem lagður var við bryggju daginn eftir kosningar. Þá var áhuginn búinn hjá þessum hv. þm. En aðrir dugnaðarmenn hafa síðan keypt þennan togara, þegar hann lá hér uppgefinn í höfninni í Reykjavík, og gert hann út í byggðarlagi þessa hv. þm. með miklum árangri fyrir fólkið, sem býr þar.

Það eru miklu fleiri raunasögur, sem hægt væri að rekja. En svo kemur þessi hv. þm. hér og heldur ræðu, eins og menn hafa nýlega hlustað á. Hann segir, að það sé betra seint en aldrei, að sjálfstæðismenn hafi áhuga fyrir fiskveiðasjóði.

Ég held nú, að ef saga fiskveiðasjóðs væri rakin, þá blandist engum hugur um það, að fyrr og síðar hafa a.m.k. ekki aðrir staðið framar sjálfstæðismönnum í að stofna til og efla þennan sjóð. En það, sem máli skiptir, er í sjálfu sér ekki að rekja slíkar sögur eins og hv. þm. gerði, og það mætti nú frekar ætla, að það væri verkefni Tímans, og þetta er sennilega skrifað til þess að birtast í Tímanum, en í raun og veru ekki sem innlegg í þingmál, því að auðvitað bar þm. að koma og lýsa afstöðu sinni til þessa frv. Ætlar hann að vera með þessu frv. eða ekki? Það er það, sem við viljum fá að heyra hér í þingsölunum. Það skiptir máli, þegar þm. koma hér til að tala um frv., sem eru á dagskrá, en ekki, hvort hægt er að fara í einhvern skæting um það, að menn séu núna að bera fram það, sem menn hafi ekki áður borið fram. Og ég vil leiðrétta það hjá hv. þm., að sjálfstæðismenn ætlist nú til stórtækari framlaga úr ríkissjóði en meðan þeir voru við völd, því að eins og fram kemur bæði í grg. og ég vék að, hefur þessi sjóður fengið á undanförnum tveimur árum 8 millj. kr. fyrra árið í framlagi frá ríkissjóði og 10 millj. kr. seinna árið, og til viðbótar var honum í fyrsta skipti ákveðið í lögum í tíð fyrrv. stjórnar 2 millj. kr. ársframlag. Þetta er nákvæmlega sama upphæð, sem nú er verið að fara fram á að ákveðið sé með lögum að sjóðurinn fái, eins og hann undanfarin ár hefur fengið, án þess að það hafi verið lögákveðið, en hins vegar ráðstafað frá ári til árs. Hér er þess vegna, einmitt um þetta atriði, ekki verið að gera annað en að slá því föstu, að framhaldið verði eins og málunum var skipað í tíð fyrrverandi stjórnar, meðan sjálfstæðismenn fóru með völd.

Svo spyr hv. þm. V-Ísf. með nokkrum vandlætingartón: Hvað hefur sjóðurinn gert til þess að nota sér heimild til lánsfjáraukningar eða til lánsfjáröflunar, þ.e.a.s. hefur sjóðstjórnin, sem er í höndum Útvegsbankans, notað heimildina til þess að afla sjóðnum 50 millj. kr. lánsfjár? Það er helzt að skilja sem svo, og hann vill láta skína í það, þessi hv. þm., að stjórn Útvegsbankans hafi vanrækt verkefni sitt í þessu efni.

Mig undrar, að slíkt skuli koma fram. Ég hélt, að þessi hv. þm. vissi, að það var ákveðið í tíð fyrrv. stjórnar og það var í samráði við stjórn fiskveiðasjóðs, að það væri fyrst og fremst Framkvæmdabankinn, sem hefði með höndum lánsfjáraflanir og þ. á m. til fiskveiðasjóðs. En nú vill svo til, að einmitt hæstv. fjmrh. er bankamálaráðherra þess banka, og það er þess vegna undir forustu hans, sem Framkvæmdabankinn hefur gert tilraunir til þess að undanförnu að afla fiskveiðasjóði lánsfjár. Ég færi hér ekki fram neinar ásakanir á hendur Framkvæmdabankanum fyrir að hafa ekki getað aflað þessa lánsfjár, en það er staðreynd, sem ég hélt a.m.k. að allir hv. þm. vissu, að þetta verkefni var í höndum Framkvæmdabankans, en ekki í höndum stjórnar Útvegsbanka Íslands. Ef Framkvæmdabankinn eða bankamálaráðherra hans vill breytingu á þessu, þá verður það að koma sérstaklega fram, því að það er óeðlilegt, að stjórn Útvegsbankans fari að leita eftir lánsfé á erlendum vettvangi, á sama tíma og það er vitað af stjórn Útvegsbankans, að Framkvæmdabankinn hefur þetta verkefni með höndum.

Varðandi það, að það væri eðlilegt, að Útvegsbankinn legði þessum sjóði eitthvert fé, þá tel ég, að það verði að sjálfsögðu að horfa á það, ekki síður en önnur verkefni. En það er nú höfuðverkefni og viðfangsefni Útvegsbankans að styðja sjávarútveginn í einni eða annarri mynd, og ég tek það fram hér, að útlán bankans til einna eða annarra þarfa sjávarútvegsins hafa farið vaxandi á liðnum árum og verið mest einmitt undanfarin tvö eða þrjú ár, þegar aðstaða sjávarútvegsins var verst. Það sannar, að Útvegsbankinn muni ekki láta sitt eftir liggja að leggja sjávarútveginum lið í. einni eða annarri mynd. Og ég hygg, að það sé óhætt að fullyrða, að sú aðstaða, sem Útvegsbankinn hefur búið fiskveiðasjóði, sé með þeim hætti, að fiskveiðasjóður megi mjög vel við una, og hefur allt verið gert til þess af bankans hálfu að liðsinna sjóðnum eftir þörfum. Hins vegar hefur ekki á undanförnum árum verið ætlazt til þess, að Útvegsbankinn legði fram stofnfé í sjóðinn. Þetta er stofnlánasjóður sjávarútvegsins, en Útvegsbankinn er fyrst og fremst rekstrarbanki sjávarútvegsins, og á þessu eru tvenn skil, og þess vegna er það eðlilegt, að fjárfestingarbanki eins og Framkvæmdabankinn hafi einmitt haft öðrum fremur með höndum tilraunir til fjáröflunar til fiskveiðasjóðs og annarra lánveitinga.

Ég skal ekki hafa fleiri orð um þetta mál. Ég hef leiðrétt í örfáum orðum missagnir, sem fram hafa komið, en endurtek, að mig furðar á því, að þm. skuli koma fram með svo lágkúruleg sjónarmið sem fram komu í ræðu hv. þm. V-Ísf. Og ef hann á eftir að tala hér aftur, skora ég á hann að gera hreint fyrir sínum dyrum og segja til um, hvort hann ætlar að fylgja þessu frv. eða ekki.