29.05.1957
Neðri deild: 117. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 2419 í B-deild Alþingistíðinda. (299)

Starfslok deilda

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Það er ástæðulaust að leyna því nú í lok þessa langa þings, að um sumt hafa orðið greinir með mönnum. Þ. á m. teljum við sumir, að forseti hefði stundum getað beitt valdi sínu á annan veg en hann hefur gert, og er sú skoðun okkar enn óbreytt, frá því að þeir atburðir gerðust, sem ég hér vitna til. En þrátt fyrir þann ágreining hefur okkur aldrei dulizt, hvorki persónulegur velvilji forseta til að greiða úr öllum málum á þann veg, að sem bezt mætti fara, né heldur, að hann er röggsamur forseti og hefur yfirleitt stýrt fundum d. á þann veg, að vel hefur farið.

Ég vil því þakka forseta fyrir samstarfið á þessu þingi, og ég veit, að ég mæli fyrir hönd allra dm., þegar ég óska honum velfarnaðar nú og í framtíðinni og bið hv. þdm. um að staðfesta þær óskir með því að standa úr sætum. — [Þm. risu úr sætum.]