19.03.1957
Neðri deild: 70. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 110 í C-deild Alþingistíðinda. (2992)

18. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Frsm. minni hl. (Sigurður Ágústsson):

Herra forseti. Með löggjöfinni um Fiskveiðasjóð Íslands frá 16. maí 1955 var stigið gagnmerkt spor til að knýja fram auknar aðgerðir af sjóðsins hálfu til að koma til móts við útgerðarmenn og útgerðarfyrirtæki um lánveitingar til kaupa eða til byggingar fiskiskipa. Einnig má sjóðurinn veita lán til byggingar vinnslustöðva fyrir sjávarafurðir og til annarra mannvirkja, sem bæta aðstöðu til útgerðar og hagnýtingar sjávarafla, eins og segir í b-lið 4. gr. laganna.

Í 3. gr. l. er sjóðnum leyfð lántaka, þegar þörf krefur að áliti sjútvmrh., og ríkissjóði heimilað að ábyrgjast lán fyrir sjóðinn allt að 50 millj. kr.

Í athugasemdum með frv. hæstv. ríkisstj. um fiskveiðasjóð frá 1955 fylgdi ýtarleg grg. og áætlun um væntanleg útlán sjóðsins á árunum 1955–59 svo og áætlun um tekjur hans yfir sama tímabil. Þar var gert ráð fyrir, að fiskveiðasjóður þyrfti til útlána 28 millj. kr. á árinu 1956, en raunin varð allt önnur. Fiskveiðasjóður veitti lán að fjárhæð 34 millj. og 400 þús. kr. á fyrra missiri ársins 1956, eins og grg. með frv. á þskj. 18 ber með sér.

Á hálfu árinu 1956 var sem sé veitt nær 35 millj. kr., í staðinn fyrir að gerð var áætlun um, að á öllu árinu mundi aðeins þurfa 28 millj. kr. með.

Þessi útlán skiptast þannig, með leyfi hæstv. forseta: Til opinna vélbáta 19 lán, samtals 608 þús. kr., til þilfarsbáta undir 12 rúmlestum 2 lán, 239 þús. kr., til vélskipa yfir 12 rúmlestir 10 lán, samtals 8 millj. 350 þús. kr., til innfluttra eikarskipa nýrra 12 lán, samtals 8 millj. 555 þús. kr., innflutt eldri eikarskip 3 lán, samtals 948400 kr., og til innfluttra nýrra stálskipa 7 lán, samtals 5 millj. 820 þús. kr. Samtals eru þannig veitt 53 lán til nýsmíði skipa, og er lánsfjárupphæðin samtals 24520400 kr. Auk þess hefur sjóðurinn veitt á þessum sex mánuðum 33 lán til vélakaupa, samtals að upphæð 5150400 kr., og til viðgerða á skipum 16 lán, samtals 952900 kr. Þá hefur sjóðurinn einnig veitt lán til vinnslustöðva og verbúða, samtals að upphæð 3734 þús. kr.

Eins og áður er sagt, hefur sjóðurinn lánað á fyrri árshelmingi ársins 1956 samtals 34360700 kr. Það er eftirtektarvert í þessu yfirliti, að aðeins 3 millj. 737 þús. kr. af lánveitingum sjóðsins á fyrri missiri ársins 1956 gengu til vinnslustöðva og verbúða. Hér er aðeins um að ræða rúman 1/10 hluta af heildarlánveitingu sjóðsins og hlýtur að vera stórum mun minna en óskað hefur verið eftir.

Mér er kunnugt um mikil vandkvæði á þessu sviði í mínu kjördæmi. Í fjórum sjávarþorpum, þar sem töluverð útgerð er rekin, sem efnahagsleg afkoma flestra íbúanna byggist á, hefur á undanförnum tveimur árum verið unnið að því að byggja verbúðir, veiðarfærageymslur, fiskgeymsluhús, salthús, aðgerðarhús fyrir útgerðina. Til allra þessara framkvæmda á fiskveiðasjóður að veita lán, og er honum heimilað að lána allt að 3/5 hlutum kostnaðarverðs, þó ekki yfir 600 þús. kr. á hverja eign, til vinnslustöðva og annarra fasteigna útvegsins. Vegna fjárskorts hefur fiskveiðasjóður ekki séð sér unnt að veita nema smálán til nefndra framkvæmda, eða 1/10 –1/5 af kostnaðarverði. Mér er ljóst, að stjórn fiskveiðasjóðs hefur ekki séð sér fært að ganga lengra í þessum efnum, þar sem hún telur, að samkvæmt löggjöfinni um fiskveiðasjóð eigi fiskiskip fyrst og fremst að sitja fyrir lánum úr sjóðnum.

Eftirspurn eftir lánum til bátakaupa og til endurnýjunar á vélum hefur tekið að mestu það fjármagn, sem sjóðurinn hefur haft til umráða, og þar af leiðandi ekki unnt fyrir sjóðsstjórnina að sinna nema að litlu leyti öðrum verkefnum fiskveiðasjóðs um útlán. Það er og fyrirsjáanlegt, að úr þessu rætist ekki, nema hið háa Alþingi viðurkenni þörfina á því, að gerðar verði jákvæðar aðgerðir til að sjá sjóðnum fyrir auknu fjármagni.

Hv. meiri hl. sjútvn. sá sér ekki fært að fylgja okkur minni hl. með jákvæða afgreiðslu á frv., en gerir hins vegar till. um að vísa því til hæstv. ríkisstj. á þeim forsendum, að hún undirbúi nú frv. um breyt. á l. um Fiskveiðasjóð Íslands. Hv. meiri hl. veit, að fiskveiðasjóður er í fjárþröng og getur af þeirri ástæðu engan veginn aðstaðið á þessu og næsta ári með lánveitingar til þeirra framkvæmda, sem löggjöf hans frá 1955 kveður á um að hann eigi að sinna. Raunar á sjóðurinn í árslok 1956 samkv. efnahagsreikningi, sem birtur er með nál. hv. meiri hl. á þskj. 338, bankainnstæðu, sem nemur rúmum 22 millj. kr., en skuldar hins vegar um 15 millj. kr., sem eru innstæður lántakenda, sem sjóðurinn á að greiða að fullu á þessu og næsta ári. Eftir verða þá rúmar 7 millj. kr., auk þeirra tekna, sem falla til sjóðsins á þessu ári og áætlað er að muni nema um 18 millj. kr., þar með talið framlag ríkissjóðs, 2 millj. kr.

Alls mun þá fiskveiðasjóður hafa til umráða um 25 millj. kr. á yfirstandandi ári, en vitað er, að hann þarf að hafa með höndum allt að 44 millj. kr. til að geta sinnt lánastarfsemi sinni eða þeim beiðnum um lán, sem vitað er að sjóðnum hafa þegar borizt og munu berast honum á þessu ári. Hér horfir því til mikilla vandræða, ef ekki fæst úr bætt.

Að sjálfsögðu verður sjútvn. að gera ráð fyrir, að hæstv. ríkisstj. uppfylli þær skyldur sínar við fiskveiðasjóð, ekki síður en við aðrar hliðstæðar stofnanir, að gera gangskör að því að sjá honum fyrir nægilegu fjármagni, svo að hann geti starfað með eðlilegum hætti.

Efnahagsleg velferð þjóðarinnar mun enn um langan aldur verða háð því, að við Íslendingar kunnum að hagnýta okkur þau miklu og ómetanlegu auðæfi, sem fiskimiðin við strendur landsins hafa verið og eiga enn eftir að vera um langan aldur, ef rétt er að farið. Það má ef til vill með sanni segja, að við Íslendingar höfum ekki notfært okkur þau enn nema að litlu leyti, en aðrar fiskveiðaþjóðir hafa með miklum árangri stundað fiskimið okkar í hundruð ára og gera enn. Engu af framfaramálum þjóðarinnar á sviði efnahagsmálanna er því jafnnauðsynlegt að vinna að með festu og einhug sem að aukinni útgerð vélbátaflotans og botnvörpunga. Jafnframt þessu stóra verkefni er áríðandi og mjög aðkallandi, að hægt sé að tryggja húsakost í landi fyrir útgerðina til hagnýtingar sjávarafla, geymslu veiðarfæra o.fl. Til alls þessa þarf mikið fjármagn, og ætti fiskveiðasjóður, ef allt gengi með eðlilegum hætti, að hafa forustu um lánveitingar til þessara framkvæmda.

Þegar þess er gætt, hvað sjávarútvegurinn aflar þjóðarbúinu mikilla gjaldeyristekna, virðist mikil sanngirni mæla með því, að hv. alþm. samþykki frv. það á þskj. 18, sem hér er til umræðu, en þó með þeirri breyt., sem hv. þm. Borgf. (PO) og ég höfum flutt í nál. okkar um frv., á þskj. 342, að hækkun á framlagi ríkissjóðs til fiskveiðasjóðs taki fyrst gildi á árinu 1958.