11.04.1957
Neðri deild: 85. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 121 í C-deild Alþingistíðinda. (3001)

85. mál, heimili fyrir öryrkja vegna geð- og taugasjúkdóma

Frsm. meiri hl. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Frv. þetta kveður svo á, að ríkissjóður skuli lána allt að 1 millj. kr. til kaupa á húseign til handa Geðverndarfélagi Íslands, ef það vildi koma upp heimili fyrir öryrkja vegna geð og taugasjúkdóma; enn fremur, að ef starfsemi þessi gangi vel, þá geti lánið orðið óafturkræft.

Meiri hl. heilbr.- og félmn. lítur svo á, að hér sé um að ræða mjög athyglisverða hugmynd. Virðist hún vera mjög hentug lausn fyrir þessa öryrkja, og allt bendir til þess, að slík heimili séu einmitt þær hentugustu og beztu stofnanir, sem hægt væri að setja á fót fyrir þá. Enn fremur eru allar líkur á því, að slík heimili mundu losa sjúkrarúm á geðveikrahælum í landinu á tiltölulega ódýran hátt.

Þrátt fyrir þetta hefur meiri hl. n. ekki treyst sér til þess að mæla með því, að frv. verði í þeirri mynd, sem það liggur hér fyrir, samþykkt að svo komnu máli. Höfuðástæða meiri hlutans fyrir því að vilja ekki mæla með samþykkt frv. er sú, að hann vill ekki binda ríkinu á þessu stigi fjárhagsskuldbindingu og telur eðlilegast, að mál þetta komi fram í sambandi við fjárlagaafgreiðslu. Þá virðist meiri hlutanum æskilegur nokkru nánari undirbúningur að máli þessu og t.d. ekki óeðlilegt, að þetta félag, sem hefur mjög mikilvægu hlutverki að gegna, hefði um þetta einhver samráð við heilbrigðisyfirvöldin. Heilbrigðismálaráðherra hefur tjáð mér, að það hafi ekki leitað til hans eða við hann talað um þessi mál. Í þriðja lagi vill meiri hl. vekja athygli þingsins á því, að fyrir skömmu var samþ. í Sþ. þáltill. um, að æskilegt væri, að ýmis öryrkjasamtök í landinu hefðu með sér nánara samstarf og reyndu að samhæfa starfsemi sína. Þetta er mjög alvarlegt og athyglisvert mál, þar sem þegar er búið að skapa sumum öryrkjasamböndum mjög góða aðstöðu til fjáröflunar. Þessi aðstaða hefur verið notuð á ágætan hátt. En það er enn eitt rannsóknarefni, hvort þeir öryrkjar, sem hér um ræðir, geti ekki á einhvern hátt komizt inn í það samstarf, sem sú till. fór fram á að ríkisstj. beitti sér fyrir, og málum þeirra yrði þann veg í höfn komið.

Með tilliti til allra þessara röksemda vill meiri hl. nefndarinnar með mestu vinsemd gagn vart þeirri hugmynd. sem hér kemur fram, leggja til, að þessu frv. verði vísað til ríkisstjórnarinnar.