24.10.1956
Neðri deild: 4. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 131 í C-deild Alþingistíðinda. (3013)

14. mál, framleiðslusjóður

Sjútvmrh. (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir á þskj. 14, er flutt til staðfestingar á brbl., sem út voru gefin af fyrrverandi ríkisstj. Það er ekki þörf á því að fara mörgum orðum um efni frv., það er öllum hv. alþm. kunnugt, en það miðaði fyrst og fremst að því að ákveða að greiða úr framleiðslusjóði nokkurn styrk í sambandi við síldveiðarnar fyrir Norðurlandi s.l. sumar; gerði ráð fyrir því, að greitt yrði kr. 57.50 í útflutningsstyrk á hverja útflutta saltsíldartunnu og 10 kr. uppbætur á hvert mál síldar, sem unnið er í síldarverksmiðjum. Fyrir Alþ. munu koma fleiri breytingar að þessu sinni, sem gerðar hafa verið með brbl. á lögunum um framleiðslusjóð, og sé ég því ekki ástæðu til þess nú við umr. um þetta frv. að ræða það neitt frekar.

Ég legg svo til, að þessu frv. verði vísað að lokinni þessari umr. til sjútvn., þar sem ég tel, að hér sé eingöngu um sjávarútvegsmál að ræða.