02.04.1957
Neðri deild: 79. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 132 í C-deild Alþingistíðinda. (3015)

145. mál, jarðhiti

Forsrh. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Þetta frv. er nokkuð seint fram komið, að ýmsir munu segja, en ástæðan til þess er sú, að undirbúningi þessa máls hefur ekki verið lokið fyrr en alveg nýlega.

Það kemur fram í grg. fyrir þessu frv., að tildrög þess eru þau, að ályktanir komu fram hér á Alþingi um það, að nauðsynlegt væri að setja löggjöf um jarðhita, og það er raunverulega samkvæmt þeim óskum, sem höfðu verið endurteknar, að 30. nóv. 1954 skipaði þáv. landbrh., Steingrímur Steinþórsson, nefnd til að undirbúa löggjöf um jarðhita og jarðhitarannsóknir. Í n. voru skipaðir þeir Jakob Gíslason raforkumálastjóri, og var hann form., Ólafur Jóhannesson prófessor og Gunnar Böðvarsson yfirverkfræðingur. Síðan kom Baldur Líndal efnafræðingur til starfa í n., en hann hefur, eins og kunnugt er, fengizt talsvert við jarðhitarannsóknir á undanförnum árum.

Þegar ég óskaði eftir því, að þetta frv. yrði lagt hér fyrir Alþingi það, sem nú situr, þótt svo mjög sé áliðið, er það vegna þess, að ég álít, að það sé nauðsynlegt með mál, sem eru allyfirgripsmikil, eins og þetta mál, sem hér er lagt fyrir, að þau séu lögð fyrir þing og athuguð milli þinga. Ég geri naumast ráð fyrir því, að hv. Alþingi telji sig geta haft svo hraðan á um afgreiðslu þessa máls, að málinu verði lokið á þessu þingi. En ég álit það til mikillar gagnsemdar, að málið verði lagt fyrir þetta þing, til þess að það verði rætt milli þinga og athugað milli þinga.

Eins og grg. ber með sér, hefur farið fram ýtarleg rannsókn á því, hver er eignar- og umráðaréttur manna yfir jarðhita, hérlendis og erlendis, og er allýtarleg grg. eftir Ólaf Jóhannesson prófessor um þetta atriði. Enn fremur er önnur ritgerð eftir Jakob Gíslason raforkumálastjóra og Baldur Líndal um jarðhitann á Íslandi.

Það er enginn efi á því, að það er mikil nauðsyn að setja ákveðnar reglur um eignayfirráð yfir jarðhita, og það þarf ekki lengi að leita eftir því ákvæði þessa frv., sem er þýðingarmest af ákvæðum frv., en það er það, að enginn landeigandi skuli . eiga jarðhita fyrir neðan 100 m frá yfirborði jarðar. Þetta ákvæði er vitanlega veigamest, og utan um þetta ákvæði í sjálfu sér er frv. byggt. Það er gert ráð fyrir því, að ríkið sé eigandi að öllum jarðhita, sem er fyrir neðan 100 m frá yfirborði jarðar. Þetta er byggt á því, að það munu vera, eftir því, sem mig minnir, aðeins tveir einstaklingar, sem hafa ráðizt í það að bora niður fyrir 100 m. Kostnaðurinn við borunina er það mikill, að það er alltaf áhættusamt fyrir einstaklinga að leggja út í þann kostnað, og reynslan er að minnsta kosti sú fram að þessu, að það munu ekki vera nema tveir einstaklingar, sem hafa lagt í það. Út frá þessu sjónarmiði m.a. er lagt til, að þetta ákvæði. verði sett um jarðhita, og enn fremur út frá því sjónarmiði, að jarðfræðingar telja, að sá jarðhiti, sem liggur fyrir ofan 100 m frá yfirborði jarðar, sé venjulega staðbundinn, en sá hiti, sem er lengra niðri og miklu lengra niðri, er oft og einatt, að jarðfræðingar álykta, á stórum svæðum, nær oft langt út fyrir landareign einnar jarðar eða fleiri. Út frá þessu sjónarmiði eru jafnframt settar þær takmarkanir á eignarrétti manna yfir jarðhita, að það má enginn bora á landareigninni eftir jarðhita nær landamerkjum en 200 m, svo að þarna kemur önnur takmörkun. Til þess að framkvæma slíka borun nær landamerkjum þarf sérstakt leyfi, og er þetta ákvæði sett út frá því sjónarmiði, að oft hagar þannig til, að ein borun eftir heitu vatni eyðileggur nálægar hitauppsprettur, eins og endurtekin reynsla er af við borun nálægt Reykjavík og víðar.

Það eru mörg ákvæði í þessu frv., sem sjálfsagt orka tvímælis. En samkv. eðlilegri reglu fer ég ekki inn á að ræða þau einstöku atriði. Það er t.d. ákvæði 55. gr., hvort raforkumálastjóri á að hafa sérstaka stjórn allra þessara mála. Undir hann á að heyra sérstök deild, sem fari með öll mál, er jarðhita snerta. Að vísu er það svo, að jarðhitinn hefur í hugum manna verið líklegur til þess, einkanlega gufa, þegar til hennar næst, að geta með henni framleitt ódýrt rafmagn, þó að ekki hafi komið til þess enn, og þess vegna hefur þetta í framkvæmdinni orðið þannig. En sjálfsagt er það til athugunar eins og margt annað í þessu frv.

Ég skal svo ekki hafa þessi orð fleiri. Eins og ég sagði í upphafi, tel ég þarft, að þetta mál sé rannsakað nú þegar og rætt á milli þinga, og væri æskilegt, að sú nefnd, sem fær þetta mál til meðferðar, tæki þá til athugunar, á hvern hátt það yrði bezt gert, m.a. hvaða aðilum ætti að senda þetta frv. til umsagnar, ef það verður ofan á, að það verður ekki afgreitt á því þingi, sem nú situr.

Ég geri ráð fyrir, að það sé eðlilegast, að málinu verði eftir þessa umræðu, um leið og því verður vísað til 2. umr., vísað til landbn. eða allshn. Það snertir ákaflega mikið eignarrétt bænda, í þessu tilfelli jarðhitann, en kannske þykir eðlilegra, að það fari til allshn., og er það með tilliti til þess, að þetta eru mál alþjóðar.