07.05.1957
Efri deild: 95. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 136 í C-deild Alþingistíðinda. (3022)

29. mál, gjald af innlendum tollvörutegundum

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Ég verð að byrja með því að biðja afsökunar á því, hvað n. hefur afgreitt þetta mál seint. Hún tók það fyrir tveimur dögum eftir að því var til hennar vísað, en þá ákvað hún að senda það til umsagnar tollstjóra og Félags ísl. iðnrekenda.

Það dróst, að n. bærust svör, einkum dróst það að því er tollstjóra snertir, og hefur raunar aldrei komið frá honum skriflegt svar. Af þessum sökum dróst það. að n. afgreiddi málið, og það er rétt að segja hverja sögu eins og hún er. Að lokum fór svo, að það féll næstum í gleymsku fyrir mér að þetta mál væri óafgreitt, og tek ég á mig alla sök á því, að n. hefur ekki afgr. það fyrr.

Eins og þeir hv. þm. vita, sem voru hér á síðasta þingi, er þetta frv. ekki nýtt, því að það var lagt fyrir síðasta þing, þá að vísu fyrir hv. Nd., en það varð ekki útrætt þá.

Frv. er samið af þriggja manna nefnd, og í henni áttu sæti Ólafur Jensson fulltrúi frá hendi fjmrn., Stefán Thorarensen lyfsali, f.h. Félags ísl. iðnrekenda, og Sveinn Þórðarson fulltrúi, sem tilnefndur var af tollstjóra, mun hafa haft samráð við hann um málið. Mönnum mun það enn fremur kunnugt, að n. varð ekki á eitt sátt, heldur klofnaði og sendi tvö frv. til rn. Að öðru frv. stóðu þeir Ólafur Jensson og Sveinn Þórðarson, en að hinu Stefán Thorarensen lyfsali. Það frv., sem hér liggur fyrir, er í meginatriðum samhljóða frv. meiri hl. þessarar n., þó hafði tollstjórinn í Reykjavík gert nokkrar brtt. við það, eftir að það var tilbúið, og voru þær teknar til greina.

Í þessu frv. felast ekki miklar breyt. frá núgildandi lögum. Það má miklu frekar segja, að frv. sé borið fram til skýringar á þeim l., sem nú gilda, og til hægðarauka. Það eru ekki t.d. hækkuð gjöld af innlendum tollvörum, heldur eru þau eins og þau hafa verið undanfarið, en nú bætt við þeim álögum á þau, sem verið hafa, og er þetta óneitanlega handhægara en að vera að framlengja ákvæði um þessar viðbætur á hverju þingi. Tel ég það mjög til bóta. Að öðru leyti felast í frv. nánari reglur um meðferð þessara mála og innheimtu gjaldanna svo og um skilyrði þau, sem þarf að uppfylla til þess að geta fengið leyfi til tollvörugerðar.

Í því sambandi er þó rétt að geta þess, að gjaldið fyrir leyfisbréf til tollvörugerðar er hækkað úr 100 kr. í 2000 kr. Er það í raun og veru aðeins í samræmi við tímana, sem nú eru, því að það mun láta nærri, að almenn verðhækkun sé orðin svo gífurleg síðan þetta ákvæði var sett um 100 kr. leyfisgjald. — Enn fremur er sú breyting gerð, að leyfisbréfagjaldið rennur í ríkissjóð, eins og yfirleitt gjöld af öðrum leyfisbréfum og sams konar skilríkjum, og er það aðeins til samræmingar við það, sem alls staðar annars staðar er, eða a.m.k. í flestum tilfellum.

Að öðru leyti tel ég nægja að vísa um efni frv. til ýtarlegrar grg., sem því fylgir, þar sem eru skýringar á hverri grein fyrir sig.

Eins og ég sagði í upphafi, var leitað álits íslenzkra iðnrekenda og tollstjóra. Svar barst frá Félagi ísl. iðnrekenda, þar sem það gerir ýmsar till. um breytingar á frv., og ganga þær mjög í sömu átt og frv. Stefáns Thorarensens lyfsala.

Tollstjóri aftur á móti mætti á fundi hjá n., þegar hún endanlega afgreiddi málið, og hans afstaða var sú, að hann taldi frv. eins og það er til mikilla bóta, og mér virtist hann leggja frekar á móti öllum tillögum iðnrekendafélagsins og sýndi fram á, a.m.k. með sumar þeirra, að þær væru frekar þýðingarlitlar og breyttu litlu. Samt sem áður hefur n. ákveðið að taka þessar till. til nánari athugunar fyrir 3. umr. málsins, og kann þá að vera, að n. sýnist að taka einhverjar af þessum till. upp eða ganga að einhverju leyti til móts við þær, þó að ég fullyrði ekkert um það. Enn fremur mun n. athuga frv. þá nánar, og kynni að vera, að hún bæri fram brtt, við 3. umr., jafnvel um atriði, sem Félag ísl. iðnrekenda gerir ekki till. um.

Ég get nefnt það strax, að það er sérstaklega eitt atriði, sem n. mun taka til sérstakrar íhugunar. Það er um það, að frv. er, eins og menn sjá, miðað við einstaklinga, að einstaklingar fái leyfi til þess iðnrekstrar, sem hér um ræðir. En nú er það vitanlegt, að það eru ýmis firmu, sem reka slíkan iðnað, og þá hefur það verið haft þannig, að leyfið verður að veita á nafn eins af stjórnendum fyrirtækisins, en ekki firmanu sjálfu. Nú gæti það verið álitamál, hvort ekki mætti ákveða hér, að veita mætti firma leyfi til framleiðslu á þessum vörum, en þá yrði að sjálfsögðu að áskilja, að forstjóri þess fullnægði þeim skilyrðum, sem einstaklingum eru sett. Mundi þetta vera fremur einföld breyting. Ég skal ekki fullyrða, hvort er veruleg þörf á henni, en n. mun athuga þetta nánar.

Mér virðist, að n. muni öll vera þeirrar skoðunar, að frv. sé til bóta, og hún mælir með samþykkt þess, en einstakir nm. hafa ekki enn tekið afstöðu til hugsanlegra brtt. við frv. og ekki bundið sig við það heldur að bera ekki slíkar brtt. fram. — Einn nm., hv. þm. Vestm. (JJós), var fjarverandi, er n. afgreiddi málið.

Það má segja, að það hefðu verið réttari vinnubrögð ef til vill, að n. hefði gengið algerlega frá málinu fyrir þessa umr. og annaðhvort mælt með því óbreyttu eða þá borið fram brtt. En við lítum þannig á, að þar sem afgreiðslan hafði dregizt jafnlengi og raun ber vitni um, væri rétt að koma frv. áleiðis og hafa heldur þann hátt á að bera þá fram breytingar við 3. umr., ef samkomulag yrði um það eða ef einstakir nm. kysu það. En núna er það till. nefndarinnar allrar, að frv. gangi til 3. umr.