16.05.1957
Neðri deild: 98. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 142 í C-deild Alþingistíðinda. (3037)

29. mál, gjald af innlendum tollvörutegundum

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Þau eru tildrög þessa máls, að fyrir nokkru var sett n. til þess að íhuga, hvað skynsamlegt væri að gera til að gera gleggri ákvæði varðandi innheimtu á gjaldi af innlendum tollvörutegundum, sérstaklega hvort nauðsyn væri á nokkrum ákvæðum til að styrkja innheimtu og eftirlit með því, að þetta gjald væri réttilega af höndum innt.

Þetta frv. er byggt á niðurstöðum n. að verulegu leyti, en þó gerðar nokkrar breyt. eða viðaukar í samráði við tollstjórann í Reykjavík. Þó var minni hl. í þessari n., sem hafði nokkra sérstöðu um sum atriðin.

Nú hefur þetta mál gengið í gegnum hv. Ed., og varð þar algert samkomulag um málið, bæði í n., sem fjallaði um það, hv. fjhn., og eins d. sjálfri. Því var lítillega breytt, þannig að um það varð fullkomið samkomulag.

Nú vil ég leyfa mér að óska eftir því, að málinu verði vísað til hv. fjhn. að lokinni þessari umr.