27.05.1957
Neðri deild: 109. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 149 í C-deild Alþingistíðinda. (3044)

29. mál, gjald af innlendum tollvörutegundum

Björn Ólafsson:

Herra forseti. Ég get nú trúað hv. þm. V-Húnv. (SkG) fyrir því, að ég er ekki svo bjartsýnn að búast við því, að hann gangi inn á þessar tillögur mínar, hversu sanngjarnar sem þær væru. Ég er ekki þar með að segja, að hv. þm. sé ósanngjarn, en honum hættir ekki við að hlaupa af sér hornin til þess að vera með till., þótt sanngjarnar séu, sérstaklega ef þær koma frá andstæðingum.

Ég skildi orð hv. þm. á þann veg, þau orð, sem hann mælti i sinni fyrri ræðu, að afstaða n. út af tollun á mjólkurís markaðist af umsögn Mjólkursamsölunnar og vegna þess að Mjólkursamsalan legði á móti því, að þessi vara yrði tolluð, þá teldi n. sjálfsagt að fara eftir því. Nú skilst mér á hv. þm., að það sé alls ekki meiningin, að Mjólkursamsalan sé neinn hæstiréttur í því, hvaða innlendar vörur eigi að . gera tollskyldar, og ég skildi hann svo, að hann mundi taka það til nánari athugunar að tolla þetta sælgæti, þó að talsvert mikil mjólk sé í því. En ég vil endurtaka það, sem ég sagði áðan, að mig furðar mjög mikið á því, að einmitt þessi eina vara, sem yfirleitt er talin lúxusvara og sælgæti, skuli ekki vera tekin undir toll, jafnvel þó að mjólk sé að miklu leyti notuð í vöruna og jafnvel þó að Mjólkursamsalan selji þá mjólk.

Hv. þm. taldi, að orðin „ósöluhæf“ og „óseljanleg“ væru nokkuð sömu meiningar. En ég vil benda honum á, að það er venjulegur skilningur, þegar rætt er um ósöluhæfar vörur, að þá er átt við gallaðar eða skemmdar vörur. Hins vegar geta vörur verið óseljanlegar, þó að þær séu hvorki skemmdar né gallaðar, og á ég þar aðallega við vörur, sem eru háðar tízku. Vörur, sem komnar eru úr tízku, geta verið gersamlega óseljanlegar, og það getur þess vegna verið hagsmunamál fyrir viðkomandi framleiðanda að láta ónýta vöru til þess að þurfa ekki að borga af henni toll. Þess vegna teldi ég, að það ætti að ná yfir slíkt ekki síður en það, þó að vara skemmdist og sé ekki hægt að selja hana af þeim orsökum.

Það er mjög mikill munur á því, hvort tollvörugjaldið er greitt um leið og vara er framleidd eða um leið og hún er seld, og það kemur til af því, að menn liggja oft langan tíma með vörur, sem þeir geta ekki selt. En um leið og þeir eru búnir að framleiða vöruna, er í raun og veru tollurinn fallinn í gjalddaga. Framleiðendur innlendra tollvara innheimta fyrir ríkissjóð, að mig minnir, á þessu ári um 16 millj. kr. Það er þess vegna ekkert smámál fyrir þá, hvort þeir þurfa að borga tollinn um leið og varan er framleidd eða hvort þeir geta fengið að borga tollinn þrem mánuðum eftir að hún er framleidd. Ég vil benda á, að fæstir af þessum mönnum, sem framleiða þessar tollvörur og eiga að innheimta þessar milljónir fyrir ríkissjóð, geta selt vörurnar á þann hátt, að þeir fái peningana um leið og þeir afhenda þær. Þeir verða að lána vörurnar í 2–3 mánuði, og ef þeir eiga að greiða tollinn, um leið og varan er framleidd, geta þeir komizt í stórkostleg vandræði fjárhagslega að standa undir greiðslunum til ríkissjóðs, sem þeir eru ekki búnir að innheimta frá viðskiptavinum sínum. Það er því ekki nema sanngirni gagnvart þessum mönnum, að ríkissjóður bíði með að innheimta tollinn, þangað til framleiðendur hafa fengið hæfilegan tíma til að innheimta hann hjá viðskiptavinum sínum.

Eins og lánsfjáraðstaðan er nú hér á landi, getur það valdið mönnum mjög miklum erfiðleikum, ef ríkissjóður er látinn ganga svo hart eftir tollvörugreiðslunni eins og hér er gert ráð fyrir í frv., og þetta er ekki nema sanngirniskrafa á hendur ríkissjóði, að hann veiti gjaldfrest, eins og hann gerir nú að nokkru leyti. Ég geri ráð fyrir, að það séu nú yfirleitt um tveir mánuðir, en ég vil, að ráðh. hafi heimild til þess að veita þriggja mánaða gjaldfrest, ef hann telur það nauðsynlegt og sanngjarnt.

Hv. þm. sagði, að sér fyndist algerlega óþarft að nema burt ákvæði í frv., að afrit skyldu send af hverri einustu sölunótu, sem iðnaðurinn í landinu gefur út, og þessi afrit yrðu send til tollstjóra. Mér hefur nú heyrzt undanfarið, að afköstin á tollstjóraskrifstofunni væru ekki þannig, að miklu væri bætandi á það starfslið, sem nú er þar. En ég get sagt hv. þm. það, að ef tollstjóraskrifstofan á að vinna úr hverri einustu sölunótu, sem gefin er út af iðnaðinum í landinu, þá er óhætt fyrir fjmrh. að gera ráð fyrir talsvert mikilli aukningu á starfskröftum í þeirri stjórnardeild. Það mætti gjarnan vera betri afgreiðsla en verið hefur og er í tollafgreiðslunni. Mér er það ljóst, að hæstv. ráðh. hefur gert talsvert mikið til að kippa því í lag, að afgreiðslan yrði betri, en það hefur samt sem áður ekki tekizt að gera hana viðunandi. Hún er alls ekki viðunandi, eins og hún er í dag, og ef á að bæta á hana þeim milljónum af sölunótum, sem iðnaðurinn gefur út, þá held ég, að afgreiðslan batni ekki, ef ekki verður gerbylting í starfsmannahaldi stofnunarinnar. Það voru einu sinni sett þau ákvæði í sambandi við innflutningsnefndina, þegar mest var skriffinnskan hérna; að kaupmenn og innflytjendur voru allir skyldaðir til að senda hverja einustu sölunótu til verðlagseftirlitsins. Þessi skriffinnska er nú komin í algleyming aftur. Mér er kunnugt um það, að þau hundruð þúsunda eða milljónir af sölunótum, sem sendar voru, hlóðust upp í verðlagseftirlitinu, og aldrei var nokkur maður, sem leit á eina nótu, sem þangað kom.