09.11.1956
Efri deild: 11. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 158 í C-deild Alþingistíðinda. (3058)

30. mál, Söfnunarsjóður Íslands

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Það eru tvö atriði, sem mig langar til að benda á í sambandi við þetta mál.

Fyrra atriðið er það, sem að vísu öllum er ljóst, að söfnunarsjóðurinn samanstendur af eilífðarsjóðum, sem ekki má skerða, og þess vegna er ekki nema eðlilegt, að hann hafi látið menn sæta nokkuð öðrum lánakjörum en aðra menn, — vægari kjörum, — og það hefur hann yfirleitt gert og þó borgað út hærri vexti til innstæðueigenda. Þetta vil ég undirstrika. Hann er ekki venjuleg peningastofnun, útlánastofnun, hefur opið tvo tíma i mánuði, eins og hann hefur oftast haft o.s.frv., þannig að hann er rekinn með allt öðru sniði en aðrar peningastofnanir, og á þess vegna að búa við nokkuð annað form.

En það, sem ég sérstaklega vildi taka fram í þessu sambandi og biðja n. að athuga, er það, að eftir því sem mér er kunnugt, en það má vel vera, að mér sé það ekki nógu kunnugt, hefur söfnunarsjóðurinn í öllum sínum útlánum áskilið sér rétt til þess að segja upp lánum, með að vísu nokkrum fyrirvara, líklega dálítið misjöfnum fyrirvara, en með nokkrum fyrirvara. Ef hann fær leyfi til þess að hækka vextina, eins og þeir vilja nú og við leyfum honum að nokkru leyti, þá er opin leið fyrir hann að segja upp öllum eldri lánum til þess að veita aftur ný lán til sömu aðila með hærri vöxtum. Það þarf að stemma stigu við því. Það á hann ekki að geta gert að mínum dómi. Þess vegna vildi ég beina því til n., að síðari liðurinn í 1. gr. frv. þarf að orðast öðruvísi. Það þarf að loka fyrir þann möguleika, að söfnunarsjóðsstjórinn geti sagt upp eldri lánum til þess að lána þau aftur út með hærri vöxtum en áður. Hann hefur þannig lagað fé undir höndum, að það er engin ástæða til þess að láta hann sérstaklega græða á því að ávaxta það vel með því að taka háa vexti. Enda þótt margir af þeim sjóðum, sem þar eru, séu ætlaðir til góðra hluta, þá eru líka aðrir, sem enginn veit hvað úr verður, eins og eina krónan, sem lögð var inn og á að ávaxtast, þangað til hún er orðin að milljón, og svo eiga vextirnir að falla til fátækasta manns hér í landinu, sem verður sjálfsagt dálítið erfitt að finna, og ýmsir aðrir svipaðir sjóðir, sem hann ávaxtar, en verður erfitt að framkvæma, þegar þar að kemur, og óvíst, að hvaða notum koma.

Ég vildi biðja nefndina að athuga þetta. Ég vil láta loka fyrir það, að hann geti sagt upp eldri lánum í því skyni að hækka vextina.