10.05.1957
Efri deild: 97. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 168 í C-deild Alþingistíðinda. (3074)

30. mál, Söfnunarsjóður Íslands

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég skal ekki fara langt út í þetta mál, því að það mundi verða endurtekning á því, sem ég hef áður sagt um það í fyrri umræðu. Þó get ég ekki látið hjá líða að segja örfá orð út af því, sem fram kom hjá hv. 6. þm. Reykv. Hann talaði um afstöðu sjóðsstjórnarinnar í söfnunarsjóði og flutti hér hennar sjónarmið. Mér er kunnugt um, að það er minni hl. í stjórn söfnunarsjóðsins, sem lítur öðrum augum á þessi mál en kom fram í því, sem hv. 6. þm. sagði um afstöðu stjórnarinnar, sem mun vera afstaða meiri hl. Þetta frv. fjallar um að heimila söfnunarsjóðnum að taka 7% vexti, eins og nú eru yfirleitt viðurkenndir, og jafnframt eru í frv. ákvæði, sem segja, að þó skuli ekki vera heimilt að hækka vextina á eldri lánum. Ég fyrir mitt leyti held alveg fast á því, að það sé óhæfa, sem meiri hluta stjórnar söfnunarsjóðsins virðist hafa dottið í hug, að fara að breyta vöxtum á eldri lánum, þó að þeim væri fengin heimild til þess að hafa 7% vexti af nýjum lánum. Og það eru ekki vandfundin rök fyrir þessu, m.a. þau, að það er á allra vitorði, að stjórn söfnunarsjóðsins hefur lánað talsvert mikið af lánum með afföllum og afföllin hafa beinlínis verið miðuð við, að sjóðurinn hefur ekki getað tekið hærri vexti en 5%. Svo ætti að fara þannig að, þegar svo heimilað væri að taka hærri vextina, en búið er að reikna þessi afföll undanfarið í ýmsum dæmum miðað við, hvað vextirnir sjálfir eru lágir, — þá ætti að breyta öllu á eftir og hækka vextina. Af þessum ástæðum var þetta ákvæði sett í frv. Seinna kom svo í ljós, enda kom það fram hér í ræðu hv. 6. þm. Reykv., að það mun hafa hvarflað að þessum sama meiri hluta í söfnunarsjóðsstjórninni, að yrði þetta frv. samþykkt, þá yrði sagt upp eldri lánum, þá yrði notuð ákvæði í eldri lánsskjölum til þess að segja lánunum upp, til þess að pína fram að fá hærri vexti. Þegar menn urðu varir við þetta, kom fram brtt. hv. 1. þm. N-M. um, að þetta skuli ekki vera heimilt, og ég styð hana, vegna þess að ég álít með öllu óeðlilegt að fara þannig að, að notfæra sér þannig uppsagnarákvæði á lánunum til þess að hækka vextina. Ég efast um, að ég muni standa að því, að þetta frv. verði að lögum, ef þessi brtt. hv. 1. þm. N-M. verður ekki samþykkt.