10.05.1957
Efri deild: 97. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 169 í C-deild Alþingistíðinda. (3075)

30. mál, Söfnunarsjóður Íslands

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Það er svo um Söfnunarsjóð Íslands, að starfsemi hans fer heldur hljóðlega, og margir eru þeir, sem ekki þekkja til hans starfshátta eða þeirra reglna, sem um hann gilda. Þegar um það er að ræða, hvort þessi sjóður megi taka eðlilega vexti, eins og gengur og gerist í þjóðfélaginu, fyrir sín útlán, þá er ekki um það að ræða, að ein bankastofnun eða lánsstofnun sé að græða fé eða safna sjóðum, heldur hvort þeir yfirleitt smáu sjóðir, sem mynda söfnunarsjóðinn, eigi að fá eðlilega vexti. Ég hef hér skrá yfir þá sjóði, sem í söfnunarsjóðnum standa, í rauninni mynda hann, og þeir eru flestir smáir að vöxtum. Það eru minningarsjóðir, það eru fræðslusjóðir, fátækrasjóðir, ekknasjóðir o.s.frv. Þessir sjóðir skipta mörgum hundruðum, nálgast meira að segja þúsund, sem þarna standa inni, og ég held, að undantekningarlaust séu það líknarsjóðir, menningarsjóðir.

Og það, sem hér er um að ræða, ef á að halda útlánsvöxtum söfnunarsjóðsins niðri, er eingöngu að gera þessum sjóðum erfiðara fyrir og ósanngjarnlega erfiðara, því að þeir fá þá lægri vexti af sinni inneign, sem á að koma til úthlutunar til líknar- eða menningarmála, heldur en þessir smáu sjóðir mundu fá, ef þeir legðu inn sjóðina í venjulegar bankastofnanir. Þetta tel ég alveg fráleitt og legg eindregið gegn því, að till. hv. 1. þm. N-M., sem hæstv. ráðh. hefur lagt með, verði samþykkt og tel það mjög ósanngjarnlega og óhyggilega að farið, ef hún nær samþykki.