10.05.1957
Efri deild: 97. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 170 í C-deild Alþingistíðinda. (3076)

30. mál, Söfnunarsjóður Íslands

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Það hefur engum dottið í hug að beita sér fyrir því, að söfnunarsjóðurinn tæki óeðlilega vexti, en hitt er annað mál, að mér og fleirum hefur dottið í hug að koma í veg fyrir það, að söfnunarsjóður notaði óeðlilegar aðferðir til þess að taka vexti. Eins og hv. þm. vita, fjallar þetta frv. einmitt um, að söfnunarsjóðurinn megi setja sína vexti 7%. En þó að þetta frv. sé nú á ferðinni og þetta þyki eðlilegra, þá er það sannast mála, að söfnunarsjóðurinn hefur í raun og veru tekið hærri vexti en þessi 5%, sem lögin ákveða, því að sjóðurinn hefur tekið afföll, og afföll eru náttúrlega í eðli sínu sama og vextir. Það má kannske segja, að þessi löggjöf hafi ekki neina verulega þýðingu, því að sjóðurinn hefur í raun og veru, ef þannig er litið á málið, tekið þá vexti sem honum hefur sýnzt. En ég endurtek að lokum það, sem ég sagði áðan, að ég sé enga ástæðu til þess að það eigi að fara að segja upp lánum til þess að taka hærri vexti en verið hefur.