10.05.1957
Efri deild: 97. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 172 í C-deild Alþingistíðinda. (3079)

30. mál, Söfnunarsjóður Íslands

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Um þetta atriði, sem hér er deilt um, urðu miklar umræður snemma á þinginu, og hefur nú fátt nýtt komið fram í þessum umræðum hér. Þegar n. afgreiddi málið, hafði henni ekki borizt bréf frá sjóðsstjórninni. Bréfið er dags. 7. nóv., en nál. 2. nóv. Á hinn bóginn var það kunnugt samt, að forstöðukona sjóðsins vildi fá að hækka alla vexti. Mig minnir, að hún væri búin að eiga tal við mig og víst fleiri nefndarmenn, þegar nefndin afgreiddi málið. En nefndin leit svo á, að það væri mjög langt gengið að rifta gerðum samningum; jafnvel þó að þetta uppsagnarákvæði sé í öllum skuldabréfum, er gengið út frá því, að lánin fái að standa, meðan staðið er í skilum. Og ég man eftir því, að nefndin var öll sammála um, að það bæri ekki að leyfa að hækka vexti af eldri lánum, þegar hún gaf út nál.

Það er mannlegt náttúrlega að skipta um skoðun og ekkert við því að segja, þó að tveir nefndarmenn hafi gert það. Ég held, að þeim hafi ekki verið eins ókunnugt um þetta sjónarmið og hv. 6. þm. Reykv. taldi að þeim hefði verið. Ég man eftir því í umr. í haust um þetta mál. Þá var það hv. þm. Vestm., sem vildi gera það að beinu skilyrði fyrir fylgi sinu við frv., að till. hans og hv. 6. þm. Reykv. yrði samþykkt. En þessa afstöðu átti ég ákaflega bágt með að skilja, því að hvað sem um þetta má segja, þá er þó eitt alveg víst, að frv. eykur mjög réttindi söfnunarsjóðsins frá því, sem nú er í lögum. Jafnvel þó að till. hv. 1. þm. N-M. yrði samþykkt, eru það ekki lítil hlunnindi fyrir sjóðinn og þá, sem þar eiga fé, að geta tekið 7% af öllum nýjum lánum í staðinn fyrir ekki nema 5%. En eins og hv. 1. þm. N-M. minntist á, verða eigendur fjár í söfnunarsjóði ekki fyrir eins miklu misrétti hvað vexti snertir og hv. 6. þm. Reykv. vildi vera láta, því að þó að undarlegt sé, þá greiðir söfnunarsjóðurinn töluvert hærri vexti en hann tekur af lánum. Þetta mun stafa af því, að söfnunarsjóðurinn hefur keypt vaxtabréf, sem gefa töluvert hærri vexti. Hvort hann hefur sjálfur lánað fé með afföllum, veit ég ekki um, en hitt veit ég, því að forstöðukonan sagði mér það sjálf, að sjóðurinn hefði keypt vaxtabréf, sem gæfu þá vexti, að hann gat greitt innstæðueigendum meira en 5% vexti. En almennir vextir af innstæðu í bönkum og sparisjóðum eru núna 5%, svo að úr því að sjóðurinn hefur getað greitt þessa vexti, meðan hann mátti ekki lána með hærri vöxtum en 5%, þá býst ég við, ef þetta frv. verður samþykkt, að hann geti farið að greiða mjög álitlega vexti og eigendur fjár þar verði ekki fyrir neinum halla, samanborið við að eiga fé annars staðar.