26.10.1956
Neðri deild: 6. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 149 í B-deild Alþingistíðinda. (308)

8. mál, lán til togarakaupafyrir bæjarútgerð Reykjavíkur

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Það mikla óhapp skeði, að togarinn Jón Baldvinsson strandaði og fórst. Hann var eign Bæjarútgerðar Reykjavíkur. Ákveðið var, að bæjarútgerðin reyndi að eignast togara í stað þess, er fórst, og var leitað til ríkisstj, um fyrirgreiðslu, til þess að það mætti takast, og farið fram á, að ríkisstj. ábyrgðist lán til togarakaupanna. Þegar þetta gerðist, var Alþingi ekki að störfum, en á hinn bóginn mjög erfitt að draga málið, þangað til Alþingi kæmi saman, hefði valdið miklu tjóni og verulegri töf. Niðurstaðan varð því sú, að fyrrv. ríkisstj. réðst í að gefa út brbl. um heimild handa ríkisstj. til þess að takast á hendur þessa ábyrgð, og hér eru nú brbl. lögð fyrir til staðfestingar. Er það von mín, að hv. Alþingi vilji fallast á þetta, og vil ég leyfa mér að leggja til, að málinu verði vísað til hv. fjhn. að lokinni þessari 1. umr.