11.04.1957
Efri deild: 87. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 187 í C-deild Alþingistíðinda. (3095)

117. mál, umferðarlög

Alfreð Gíslason:

Herra forseti. Það ber mjög oft við, þegar lögreglan færir drukkinn ökumann til læknis til þess að láta taka honum blóð til rannsóknar, að maðurinn neiti að láta taka sér blóð. Þetta er auðvitað mjög óheppilegt við rannsókn málsins og gerir erfiðara fyrir um að dæma réttilega. Nú er gert ráð fyrir því í frv. til umferðarlaga, að slíkur maður skuli vera skyldur til að láta taka sér blóð. En þá kemur annað vandkvæði til, og það er, að reynsla er fyrir því, að læknir undir þeim kringumstæðum, að maðurinn neiti að láta taka sér blóð, neiti jafnframt að gera það með valdi. Þess vegna hefur komið til mála að skylda báða aðila, manninn, sem færður er til læknisins, og lækninn sjálfan til að undirgangast og framkvæma aðgerðina.

Í grg., sem hv. allshn. fékk frá læknadeild háskólans, er mjög varað við því að skylda lækna til að fremja slíka aðgerð eða aðrar gegn vilja sínum, enda hefur ekki verið horfið að því ráði í frv. Það má því búast við, að sú skylda, sem þar er lögð á herðar þess manns, sem lögreglan færir til læknis til blóðtöku, verði lítils virði í framkvæmdinni. Færist maðurinn undan, mun læknirinn í allflestum tilfellum neita að taka blóðið. Þess vegna leggjum við í minni hl. allshn. það til á þskj. 430, að gerð verði breyting á frv., eins og það er orðað í a-lið tillögunnar, þannig að ef maður, sem lögreglan hefur fært til læknis til rannsóknar, neitar að gangast undir þá aðgerð, er læknirinn telur nauðsynlega, þá skuli litið svo á, að hann hafi eigi getað stjórnað ökutækinu örugglega, nema hann geti fært gild rök fyrir undanfærslu sinni.

Ég er að vísu ekki lögfróður, en ég get ekki séð, að neitt sé við að athuga að setja slík ákvæði inn í lögin. Í fyrsta lagi er aðeins slegið föstu, að maðurinn skuli dæmast á þann veg, að hann hafi ekki getað stjórnað tækinu örugglega. Með því fengi hann tiltölulega vægan dóm, þar sem hann telst ekki óhæfur til aksturs. Og í öðru lagi á hann kost á því að færa rök fyrir undanfærslu sinni, og þá er það á valdi dómarans, hvernig hann metur slíkt.

Í öðru lagi flytur minni hl. allshn. brtt., einnig við 25. gr., eins og segir í b-lið á þskj. 430, þess efnis, að ef ökumaður hverfur af vettvangi, eftir að hann hefur átt hlut að umferðarslysi, og náist skömmu síðar undir áhrifum áfengis, þá skuli talið, að hann hafi við aksturinn haft það áfengismagn í blóði, er hann þá hefur.

Það mun ekki sjaldan hafa borið við, að þá er menn í drukknu ástandi hafa brotið af sér, valdið slysum eða árekstrum, hafi þeir hlaupizt á brott, og lögreglan fyrst náð í þá fleiri eða færri klukkustundum síðar og þeir þá verið áberandi drukknir. Þessir menn hafa máske hlaupið burt til þess eins að geta sagt eftir á, að þeir hafi verið ódrukknir við aksturinn, en hafi drukkið síðar vegna taugaóstyrks eða einhvers annars. Það er mjög óheppilegt, að menn geti haft möguleika á því að skjóta sér þannig undan þungri ábyrgð.

Í grg., sem áfengisvarnaráð sendi hv. allshn., er lagt til, að reynt verði í lögunum að komast hjá þessu. Þeir segja í þeirri grg. á þennan hátt um þetta atriði, með leyfi hæstv. forseta:

„Viðbót þessi er í samræmi við tillögur norrænu nefndanna. Það er alkunnugt, að menn, er aka bifreiðum undir áhrifum áfengis, freistast til að reyna að komast undan eftirför lögreglu og grípa þá gjarnan til þess ráðs að hella í sig meira áfengi, eftir að akstri lýkur, og það jafnvel að lögreglumönnum ásjáandi, og staðhæfa síðan, að þeir hafi einskis áfengis neytt fyrr en að akstri loknum. Með þessu ákvæði er stefnt að því að loka slíkri undankomuleið og jafnframt að stuðla að því, að menn freisti síður slíkra ráða.“

Ég fer ekki fleiri orðum um þessar brtt. á þskj. 430, en ég vil aðeins láta í ljós undrun mína sem leikmanns á, að lögfróðir menn skuli ekki geta fallizt á þessar tillögur, allra helzt þegar um lögfróða menn er að ræða, sem hafa mikla reynslu í þessum efnum, sem fer í sömu átt og ég nú hef getið um.

Við 2, umr. um frv. til umferðarlaga gerði ég grein fyrir brtt. á þskj. 416, en þar legg ég til, að marktölurnar 0.60 og 1.30% vínandamagn í blóði verði lækkaðar í 0.50% og 1.20%. Ég skal ekki endurtaka það, sem ég þá sagði, en bæta aðeins við örfáum orðum.

Í bókinni Stimulanser, sem rituð er af kunnustu vísindamönnum Dana á sviði læknisfræðinnar, er skýrt frá athugunum, sem gerðar voru á 2438 manns, er neytt höfðu áfengis. Sýndu þær athuganir það m.a., að um 25% þessara manna voru greinanlega undir áhrifum áfengis, áður en vínandamagnið í blóði þeirra náði 0.60%, þeirri tölu, sem frv. slær föstu að ölvun hefjist við. Rúmlega 600 manns í þessum hópi mundu þannig sleppa við ákæru fyrir ölvun við akstur samkvæmt umferðarlagafrv., enda þótt þeir væru merkjanlega miður sín vegna áfengisneyzlu.

Eins og af þessu má sjá, enda alkunna, eru menn mjög misnæmir fyrir áfengi. Sumir þurfa mikið, til þess að ölvunar gæti, aðrir lítið.

Þegar um er að ræða áfengisneyzlu í sambandi við stjórn ökutækis, ber að miða við þá, sem lítið þola. Almannaheill krefst þess. Það er vegna öryggis vegfarenda, að banna verður öllum ökumönnum að neyta þess magns áfengis, sem nægir til að gera hænuhausana miður sín. Við þá verður sem sé að miða, og hvað þá snertir er markið 0.60% of hátt og raunar allt of hátt.

Ef maður, sem vegur 75 kg, drekkur þrjá snafsa ákavítis eða þrjár flöskur af dönskum bjór, kemst vínandamagnið í blóði hans máske upp undir 0.60%, en nær því ekki, jafnvel þótt hann drekki það í einni lotu og á fastandi maga. En margur sá, sem slíku áfengismagni hvolfir í sig fastandi, lætur á sjá og verður ekki samur um stund á eftir. Það munu margir fara nærri um, þótt leikmenn og engir fræðimenn séu.

Marktölurnar, sem í frv. eru táknaðar með 0.60% og 1.30%, er ekki unnt að ákveða of lágar, en þeim mun auðveldara er að setja mörkin of hátt. Ég sting upp á lækkun nefndra talna og minnkast mín þó raunar fyrir, hve smátækur ég er. Samt óttast ég, að mér hafi ekki tekizt að sannfæra hv. þdm. um réttmæti þessarar lækkunartillögu. Er þó málstaðnum ekki um að kenna, því að hér er um að ræða mikilsvert slysavarnarmál, sem fremstu menningarþjóðir nú leggja vaxandi áherzlu á.

Ölvaðir ökumenn eru alls staðar plága, sem beita verður öllum ráðum til að útrýma.

Ég greindi frá því um daginn, að samgöngumálaráðherra Svía hefði nýlega lagt fram frv. þess efnis, að lægri mörkin yrðu þar lækkuð úr 0.80% í 0.50%. Er búizt við, að sú lagabreyting öðlist gildi 1. júlí í sumar.

Ég vil ljúka máli mínu með þessum orðum ráðherrans, teknum úr grg. frv.:

„Það virðist kominn tími til að slá því föstu með löggjöf, að áfengisneyzla og stjórn ökutækis eiga enga samleið. Í samræmi við nútíma kröfur um góða umferðarmenningu, ber löggjafanum að leggja áherzlu á, að menn skuli sneiða hjá jafnvel óverulegri áfengisneyzlu í sambandi við akstur“.