11.04.1957
Efri deild: 87. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 197 í C-deild Alþingistíðinda. (3098)

117. mál, umferðarlög

Alfreð Gíslason:

Herra forseti. Mér skildist á hv. þm. Ak., að hann teldi brtt. minni hl. allshn. á þskj. 430 allt að því ganga í berhögg við réttarvitund vestrænna þjóða. Um þá hluti er hann að vísu miklu fróðari en ég, og þess vegna langar mig til þess að spyrja í sambandi við ræðu hans einnar spurningar.

Hann gat þess, að sönnunarskyldan hvíldi einvörðungu á saksóknaranum, en að engu leyti á sökudólgnum. Sökudólgurinn væri þar alveg frjáls og laus allra mála. Honum væri ekki einu sinni skylt að svara spurningum. Sú skylda væri ekki á hann lögð einmitt af þessari ástæðu, að það færi í bága við réttarvitund vestrænna þjóða.

Nú er það tekið fram í 25. gr. frv. til umferðarlaga, að manni, sem lögreglan hefur tekið og fært til læknis til blóðtöku, sé skylt að undirgangast þá aðgerð. Er þetta þá ekki einnig brot á réttarvitund vestrænna þjóða? Ég veit, að það er rétt, að sökudólg er ekki skylt að svara spurningum. En fer þetta þá ekki í berhögg við þann anda eða réttarvitund? Ég held, að það sé m.a. leyfilegt af tollyfirvöldum að taka mann til gaumgæfilegrar skoðunar gegn vilja hans og með valdi, „kroppsvísitering“, eins og það er nefnt á erlendu máli. Þetta er einnig nokkuð hart að gengið og miklu harðar að gengið en þó að sökudólgur yrði að svara spurningum.

Það hefur þannig verið um að ræða allmikið misræmi í því, sem skapar þó réttarvitund vestrænna þjóða, og ég get ekki með nokkru móti séð neitt athugavert við það, að manni, sem hefur verið færður til læknis til blóðtöku og neitar að gangast undir hana, sé veitt refsing, sem ekki er annað né meira en sektir. Þess vegna tel ég þetta heldur léttvæg rök gegn a-lið till. minni hl. allshn.