11.04.1957
Efri deild: 87. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 197 í C-deild Alþingistíðinda. (3099)

117. mál, umferðarlög

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. mikið.

Viðvíkjandi athugasemdum hv. þm. Barð. (SE) viðvíkjandi bifreið annars vegar og dráttarvél hins vegar, þá held ég að sé ekki þörf á nánari skilgreiningu en þar er, því að bifreið er vélknúið ökutæki, sem aðallega er ætlað til fólksflutninga eða vöruflutninga, það er aðallinn, og svo hitt: svo og til annarra nota, ef það er gert fyrir hraðari akstur en 30 km. Það er svona undanskilið. Það er aðallega til fólksflutninga og vöruflutninga, þá er það bifreið, en dráttarvélin er ökutækið, sem er aðallega ætlað til að draga annað ökutæki eða vinnutæki. Hitt er svo aukaatriði. Flestallar dráttarvélarnar, sem hér eru á boðstólum og hafa verið, eru ætlaðar fyrir hægari akstur en 30 km. Ein tegund er ætluð til dálítið hraðara aksturs, enda smíðuð til þess að vera jöfnum höndum bíll eða dráttarvél. Og að þeirri tegund undantekinni held ég, að það verði enginn ágreiningur um það hjá yfirvöldunum, hvernig á að skilgreina þessar tvær tegundir. Ég held, að það sé engin hætta á því, að dráttarvél, sem er seld sem dráttarvél og ætluð til dráttarvélavinnu, verði farið að kalla bifreið, svo að það megi keyra á henni hraðara en 30 km á klst. Ég held það sé alveg ástæðulaust að breyta þessari skilgreiningu. Um þessa einu tegund, sem bæði er notuð sem bíll og dráttarvél, verða yfirvöldin að skera úr, hvernig eigi að tolla.

Mér er meinilla víð öll ákvæði í lögum, sem fólk virðir að vettugi og brýtur, ja, nærri því að segja alltaf, og þegar ég sé bilana á götunum keyra eins og þeir keyra, þá er ég alveg viss um, að það eykur bara á virðingarleysi á lögum að láta þá halda áfram með sama ökuhraða leyfðum eins og nú er og þess vegna sjálfsagt að mínum dómi að hækka hann. Ég er þess vegna alveg á móti till. þm. Barð. og þm. Vestm. um að lækka hraðann frá því, sem er í frv.

Þá skal ég aðeins drepa á till., sem ég og 1. landsk. flytjum á þskj. 430. Það er alveg rétt hjá hv. þm. Ak., að það er ekki venja í okkar löggjöf að láta sakborning koma til skjalanna, eins og þar er gert. En þetta er svo einfaldur hlutur hér. Hann á svo létt með að afsanna sína sekt, óskaplega létt. Það er gersamlega hættulaust fyrir hann að láta taka blóðið, nema því aðeins að hann sé blæðari — það munu vera 20, 30, 40 eða eitthvað svoleiðis í öllu landinu, — þá hefur hann löglegar afsakanir, eins og tekið er fram í grg. Þess vegna held ég, að það sé sjálfsagt að samþykkja till. okkar. Ef það væri hægt við önnur afbrot yfirleitt, að láta þann, sem sakaður er um að hafa framið brot, afsanna það með eins hægu móti og þessu, þá mundi ég vilja setja það alls staðar, í öll lög. Ef einhver er sakaður um sauðaþjófnað, þá get ég ekki látið hann með einfaldri blóðrannsókn eða einhverju slíku afsanna, að hann sé sauðaþjófur. En hér á hann svo hægt með að afsanna það, að ef hann ekki vill gera það, þá dæmir hann sig sjálfan sekan að mínum dómi.

Fyrst læknarnir vilja ekki láta setja skylduna á sig að gera blóðrannsókn, og á móti því eru þeir yfirleitt allir, og ef þá eru menn, sem ekki vilja láta taka blóðprufuna, þá þeir um það. Þá bara verða þeir að skoðast með vínanda í blóði sínu. Þeir vilja það ekki, af því að þeir vita sig þá með vínanda í blóðinu, svo að þeir geti ekki sloppið. Þess vegna er það, sem þeir vilja það ekki. Þeim gengur ekkert annað til, nema eins og ég sagði áðan, það sé blæðari, sem ekki má fá rispu til þess að eiga ekki á hættu að blæða út. Og þeir menn eru til hjá okkur, það vitum við, þetta er erfðagalli, sem er í vissum ættum og ekkert er hægt við að gera, er bara hjá karlmönnum að vísu, en ekki kvenfólki, það er sama, hann fylgir kynsbogteinunum. Ef um slíka menn er að ræða, þá eru þeir löglega afsakaðir, og það er tekið fram, að ef menn geti fært gild rök fyrir undanfærslunni, þá sleppi þeir. Þess vegna held ég, að það sé alveg sjálfsagt að samþykkja þá tillögu okkar, og teldi mjög miður farið, ef það væri ekki gert.

Hitt ákvæðið, b-liðurinn, það er náttúrlega dálítið annað með hann. Það er alþekkt fyrirbrigði, að maður, sem tekinn er fyrir akstur eða eitthvert brot á akstri og valdið hefur slysi, vegna þess að hann er undir áhrifum víns, og það er nú mikill meiri hluti af slysunum fyrir það, en ekki fyrir of hraðan akstur, þá er það fyrirbrigði til að reyna að komast hjá að láta sanna á sig, að þeir hafi keyrt undir áhrifum víns, að hella í sig, stundum bara um leið og þeir fara út úr bílnum. Þá taka þeir flöskuna og drekka og segja svo: Ég var alveg „ófullur“, þegar ég var að aka. Ég er bara fullur núna. Ég drakk, eftir að ég hætti akstri. Ef menn gera slíkt og því um líkt eða hlaupa burt og inn í hús til að ná þar í vín og hella í sig, sem þeir líka gera stundum, þá vil ég dæma þá menn með vínáhrifum, þótt þeir finnist ekki fyrr en seinna, en þó rétt á eftir.

Mér finnst báðar þessar till. vera þess eðlis, að við eigum að samþykkja þær. Ég viðurkenni fúslega, að það er dálítið önnur stefna en almennt er fylgt í íslenzkum lögum, — ég segi almennt, — því að það eru til dæmi í íslenzkum lögum, þar sem er farið eins að og hér er ætlazt til. Þau eru til, þannig að það er ekki neitt brot á þeirri reglu, sem íslenzk löggjöf hefur fylgt, það er aukið við undantekningartilfellin, þeim er fjölgað með þessu, og ég mundi ekki fylgja því, ef ekki væri svo upplagt fyrir manninn, sem sakfelldur er, að sýkna sig með því að láta taka blóðprufuna, eins og hér er gert ráð fyrir að hann geri. Það er alveg upplagður hlutur, kostar hann ekki neitt, svo að ef hann ekki vill láta sýkna sjálfan sig með því að lofa að láta taka af sér blóðprufu og rannsaka það, þá er alveg áreiðanlegt, að þá hefur hann ekki hreina samvizku og þá er rétt að dæma hann undir áhrifum víns.