15.11.1956
Neðri deild: 16. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 215 í C-deild Alþingistíðinda. (3127)

36. mál, bifreiðaskattur o. fl.

Flm. (Kjartan J. Jóhannsson):

Herra forseti. Eins og fram kemur í grg. frv., þolir það ekki lengur . bið, að hafizt sé handa um varanlega vegagerð í kaupstöðum og kauptúnum hér á landi. Malarvegir, sem mikil umferð er um, eru mjög viðhaldsfrekir og nær ógerningur að koma í veg fyrir, að þeir verði holóttir og blautir í vætutíð, en ef þurrkur er, er moldrykið frá þeim svo mikið, að óþolandi er í þéttbýli, og stoðar lítið, þótt reynt sé að vökva. Rykbindiefni er mjög dýrt og endist tiltölulega stutt. Eina lausnin til frambúðar er því annað tveggja að malbika eða steypa vegina. Það er að vísu mjög dýrt, og er því ekki von til, að kaupstaðir og kauptún geti framkvæmt það, nema til þess fáist nokkur aðstoð.

Með frv. þessu er lagt til, að 5 aurar af hverjum lítra benzínskattsins gangi til þessa, og er það mjög hóflegt, eða aðeins 1/6 af skattinum skv. lögum nr. 84 1949. Er það svipaður hluti og upphaflega var gert ráð fyrir, er lögin voru sett 1932, að gengi til þessa frá 1. jan. 1934.

Það fer sjálfsagt nokkuð eftir staðháttum, með hverjum hætti gatnagerðin verður. Steinsteypa er enn nokkru dýrari en malbikun, en hefur gefið mjög góða raun. Þegar innlent sement kemur til sögunnar, má telja líklegt, að göturnar verði frekar steyptar en malbikaðar, vegna þess að ef þær vonir rætast, sem menn gera sér nú um sementsverðið, verður verðmunur steyptra og malbikaðra vega minni en nú er. Auk þess er að ýmsu leyti hentugra, ef gatnagerðin er í tiltölulega smáum stíl, að steypa vegina en malbika. Er það vegna þess, að tæki og áhöld til að steypa eru að heita má alls staðar til, en malbikunartæki eru óvíða til, mjög dýr og erfitt og dýrt að flytja þau á milli staða til tiltölulega lítilla framkvæmda, eins og búast má við að verði í einu á hverjum stað. Ef hallazt er að því að steypa vegina, má taka 100–200 m kafla í einu, og verður það þannig viðráðanlegra, einkum smærri stöðunum. Ef malbikað er, tekur hins vegar varla að byrja á skemmri spotta en 1 km, því að kostnaðurinn við áhöld verður óhóflega mikill hlutfallslega, ef um minni framkvæmd er að ræða í einu.

Ég hygg, að flestir þm. geti verið sammála um nauðsyn þessa, og ætla því ekki að hafa lengri framsögu, en vil leyfa mér að óska þess, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. fjhn.