19.11.1956
Neðri deild: 17. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 219 í C-deild Alþingistíðinda. (3133)

39. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Flm. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Örlæti hefur um aldaraðir verið talið þjóðardyggð á Íslandi. Fyrir kraft þeirrar dyggðar hefur stórum verkum verið í framkvæmd hrundið, verkum, sem eru óræk vitni íslenzkrar atorku og menningar. Í trausti á þá dyggð er frv., sem hér liggur fyrir, til orðið.

Árið 1943 voru samþykkt á Alþingi lög um skattfrelsi gjafa til barnaspítalasjóðs Hringsins, en kvenfélagið Hringurinn hefur mikið látið að sér kveða í líknarmálum. Ári síðar fékk Samband íslenzkra berklasjúklinga sams konar ívilnun, og veitti hún þeim félagsskap stórfé. Og fyrir tveimur árum voru samþykkt lög um skattfrelsi gjafa til Krabbameinsfélags Íslands, en öll þessi lög giltu aðeins um eins árs skeið.

Við lestur umræðna um lög þessi kemur í ljós, að lítill sem enginn ágreiningur mun hafa verið um nauðsyn þeirra, en nokkrir hv. þm. töldu þó enn betur farið, ef stefnt hefði verið meira í sömu átt og gert er með frv., sem hér er til umræðu.

Það er ekki áhorfsmál, að félög þessi hafa verið vel að hinum veitta stuðningi komin, og tæplega verður opinberum aðilum talin eftirsjá í fé því, sem til þeirra hefur verið veitt. Sú hugsun vaknar því í fyrsta lagi, hvort ekki sé rétt og siðferðilega skylt að veita á þennan hátt áframhaldandi stuðning félögum þessum, sem starfa þjóðinni til heilla; og í öðru lagi, að fleiri félög og stofnanir vinni að brýnustu þjóðþrifamálum, sem greiða beri fyrir; þess vegna sé rétt að veita frambúðarheimild til frádráttarhæfra framlaga þeim til stuðnings með beinum ákvæðum skattalaga.

Einhverjir kynnu nú að ætla, að með því móti væri ausið um of af brunni beinna tekna hins opinbera. Þess vegna er sá varnagli sleginn í frv. að binda heimildina við tiltekið hámark hundraðshluta af hreinum tekjum gefanda.

Það er að sjálfsögðu álitamál, hvernig ákvarða beri leyfilegan frádrátt, og frv. næði betur tilgangi sínum, ef hundraðshlutinn væri stærri. Þess vegna mundi ekki á mínu fylgi standa, ef hann hækkaði í meðferð hv. Alþingis á frv. En ætla má, að þeir, sem opinberar fjárreiður annast, felli sig betur við smærri spor en stærri frá því, sem nú er í þeim efnum, og frv. sé þá þeim mun líklegra til að ná fram að ganga.

1. gr. frv. fjallar um skattfrelsi gjafa til kirkna svo og félaga og stofnana, sem vinna að vísindum, menningar- og mannúðarmálum, fari gjöfin ekki fram úr 15% af nettótekjum gefanda, enda hafi þá skattyfirvöldum borizt tilkynningar um gjafirnar frá þeim aðilum, sem þær hafa þegið. Orðið „fjárhæð“, sem notað er í 1. gr., er ætlazt til að nái til allra þeirra framlaga, sem fjárhagslegt gildi hafa samkvæmt almennum skilningi. Hugtakið „nettótekjur“ eða hreinar tekjur er hér notað í sömu merkingu og það er skilgreint í reglugerð um tekjuskatt og eignarskatt frá 30. des. 1955, þ.e.a.s., heildartekjur að frádregnum lögleyfðum kostnaði samkv. 21.–40. gr. reglugerðarinnar, m.ö.o. heildartekjurnar, eins og þær verða að loknum frádrætti, öðrum en persónufrádrætti samkv. 41. og 42. gr. reglugerðarinnar.

Það hefur mjög verið rætt um það og ritað, hvernig bætt verði úr fjárþörf íslenzkra kirkna, hvort heldur er til kirkjubygginga eða kirkjulegrar starfsemi. Varla getur mönnum blandazt hugur um, að þessa undirstöðu íslenzkrar menningar beri að styðja og vernda á allan hátt sem unnt er, eins og raunar ríkisvaldinu er lögum samkv. skylt.

Með þessu ákvæði, sem um er að ræða í frv., væri og komið til móts við ályktun hins almenna kirkjufundar, sem haldinn var nú í haust.

Nauðsynlegt er að búa sem bezt að félögum til stuðnings og styrktar bágstöddu fólki, sjúklingum eða öryrkjum. Allir eru samdóma um, að mikið sé uppeldisgildi félaga eins og t.d. ungmennafélaga, skátafélaga og bindindisfélaga, svo að fátt eitt sé nefnt. Og tæplega getur menn greint á um þýðingu barnaverndarfélaga, dýraverndunarfélaga eða félaga til verndunar á náttúru landsins og græðslu þess. Sama er að segja um stofnanir, sem starfa á vegum þessara félaga eða sjálfstætt í svipuðum tilgangi.

Þá er ekki síður ástæða til að minna á og leggja á það ríka áherzlu, hversu mörg og mikilsverð viðfangsefni bíða enn íslenzkra vísindamanna og fræðastofnana. Þar er einmitt um að ræða verkefni, sem oft þurfa að sitja á hakanum eða bíða vegna fjárskorts. Hér er átt við ýmsar rannsóknir á náttúru landsins, rannsóknir í þágu atvinnuveganna og í þágu heilbrigðismálanna. Einnig eru jafnvel óunnin störf á sviðum þeirra fræða, sem einna mest hefur verið unnið að á Íslandi, sögu og málvísinda. Enn er mikið verk að vinna í rannsóknum og útgáfu handrita og heimilda, fornminja, lista, ættfræði eða mannfræði, svo að dæmi séu nefnd. Og þó að margir starfi að slíkum málum og þjóðfélagið leggi ríflega fram fé til sumra þessara rannsókna, er áreiðanlega tímabært, að einstaklingar og aðrir skattgreiðendur sýni framtak einnig í því að styrkja þessi nauðsynlegu vísindastörf. Þá viðleitni yrði æskilegt að styðja með skattfrelsi á borð við það, sem hér er farið fram á.

Heimild ákvæðisins er höfð mjög rúm, þar eð oft kunna ný félög og stofnanir að taka til starfa, sem skilið ættu að falla innan takmarka þess, og önnur að ljúka störfum; enn fremur vegna þess, að innan þessa ramma rúmast flest áhugamál fólks, þau er til almannaheilla horfa, og þar með eru fleiri skattgreiðendur hvattir til að verja einhverju af tekjum sínum í þessum tilgangi. Þiggjendur þeir, sem í gr. eru taldir, mega samkv. henni njóta skattfrjálsra framlaga án tillits til þess, hvort þeir fá opinbera styrki eða ekki og hvort sem þeir eru opinberar stofnanir eða ekki.

Sums staðar með miklum menningarþjóðum erlendis er áhugi almennings til að vinna að málum, sem nú hafa verið nefnd dæmi um, efldur af hinu opinbera með lagasetningu svipaðri þeirri, sem frv. þetta lýtur að.

Í Bandaríkjum Norður-Ameríku hefur til skamms tíma verið heimilt að láta allt að 15% heildartekna — sem er heldur þrengra hugtak en heildartekjur samkv. okkar lögum, en þó víðara en hreinar tekjur hjá okkur — koma til frádráttar við skattaákvörðun, séu gefendur einstaklingar og fénu varið í einhverjum eftirgreindum tilgangi. Í fyrsta lagi til stofnana eða sjóða, sem vinna eingöngu að trúmálum, mannúðarmálum, vísindum, bókmenntum eða menntamálum, svo og til verndar börnum eða dýrum, ef starfsemin er ]ögum landsins samkvæm, er ekki rekin í hagnaðarskyni fyrir meðlimi og ekki í þeim höfuðtilgangi að hafa áhrif á löggjöf landsins; í öðru lagi til samtaka, sem starfa á svipuðum grundvelli og t.d. Oddfellowreglan, ef framlögin eru eingöngu notuð í þeim tilgangi, sem áður var getið; og í þriðja lagi til ýmissa opinberra aðila, ef gjafirnar ganga aðeins til almenningsþarfa. Auk þessa eru svo nefndir aðilar, sem styrkja uppgjafahermenn o.fl., sem við á þar í landi. Sem dæmi um þiggjendur eru nefndir skátafélagsskapurinn, kirkjur, spítalar og Rauðikrossinn, auk margra annarra aðila. Þessi heimild í lögum Bandaríkjanna hefur gefið svo góða raun, að í fyrra var hinn skattfrjálsi hundraðshluti hækkaður í 20% heildartekna og 30%, ef um var að ræða sjúkrahús, sem rekin eru af hinu opinbera, eða kirkjur.

Bandaríska ákvæðið er að því leyti þrengra en það, sem í frv. er ráðgert, að gefendur, sem góðs njóta af því, eru aðeins einstaklingar, en í frv. er notað orðið skattþegn, sem nær bæði til einstaklinga og félaga.

Svipuð lagaregla og hér hefur verið lýst gildir einnig í Englandi. Samkv. upplýsingum brezka sendiráðsins er hún framkvæmd þannig, að hið opinbera heimtir að vísu skatt af þeirri upphæð, sem gefin er, en er skuldbundið til að láta þann skatthluta ganga til sama aðila og gjöfina þáði.

Í báðum þessum löndum njóta slík félög eða stofnanir opinberrar verndar. Félögin eru konungleg í Bretlandi og skrásett hjá hinu opinbera í Bandaríkjunum. Þetta mun að sjálfsögðu auðvelda framkvæmd laganna. En hér á landi er engu slíku til að dreifa, og mundi því koma til kasta dómstóla að skera úr, ef mikill vafi kynni að rísa um, hvort stofnun eða félag félli undir 1. gr. þessa frv.

Það hefur oft sannazt, að vilji Íslendinga til fórna við góð málefni er mikill, eins og nú hefur síðast sézt þessa dagana á hinni almennu fjársöfnun til Ungverja, sem svo sárt eru leiknir af ofbeldi erlends kúgunarafls. Telja má, að margur mundi fús leggja á sig aukavinnu, ef honum væri heimilt að nota tekjur af henni óskertar til þeirra þjóðnýtra mála, sem hann ber mest fyrir brjósti. Auk þess sem vinnuafl gæti þannig betur nýtzt, er sennilegt, að fjármunir þiggjenda nýttust einnig betur, því að draga mundi úr þörf fyrir kostnað vegna ýmiss konar fjársöfnunarleiða, svo sem happdrættis og hlutaveltna, en auðveldara mundi vera að afla frjálsra framlaga. Loks má svo ætla, að minna yrði um beina opinbera styrki sótt en nú er. Þeir gætu minnkað og með tímanum jafnvel horfið að því er til vinsælustu stofnana tæki.

Að öllu samanlögðu má því segja, að opinberar fjárhirzlur muni ekki ýkja mikils í missa þrátt fyrir breytingu þessa, ef að lögum verður. Á hinn bóginn mun með þessu að íslenzkri höfðingslund hlúð í þágu almannaheilla.

Ég vil svo leyfa mér að leggja til, að frv. verði vísað að lokinni þessari umr. til hv. fjhn.