20.11.1956
Neðri deild: 18. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 223 í C-deild Alþingistíðinda. (3139)

50. mál, almannatryggingar

Flm. (Karl Guðjónason):

Herra forseti. Á síðasta Alþingi voru samþykkt ný lög um almannatryggingar. Þau lög gerðu ráð fyrir því, að nýr háttur yrði upp tekinn um umboðsstörf fyrir almannatryggingarnar utan Reykjavíkur, þ.e.a.s., að sá háttur, sem tíðkazt hefur frá upphafi almannatrygginganna, — en þær hófu starfsemi sína með ársbyrjun 1947, — að láta sjúkrasamlög í ýmsum bæjum landsins annast umboðsstörf fyrir sig, skyldi niður felldur, þannig að ekki kæmu aðrir aðilar til greina sem umboðsmenn trygginganna en bæjarfógetar og sýslumenn. Í eldri lögunum var gert ráð fyrir því, að einnig gætu komið til greina til að inna slík störf af höndum bæði sjúkrasamlög og sveitarstjórnir, og eins og áður er fram tekið, hafa sjúkrasamlög annazt þetta í nokkrum bæjum og annast enn. Um næstu áramót er svo fyrirhugað, að breytingin, sem lögin frá því í marz s.l. fela í sér, gangi í gildi, þannig að eftir þann tíma verði engir umboðsaðilar til nema fógetar og sýslumenn fyrir Tryggingastofnunina.

Ég fyrir mitt leyti var andvígur þessari breytingu frá upphafi, gerði þegar á þinginu í fyrra brtt. við þetta ákvæði. Hún fékk nokkurn byr og þingmenn úr þrem flokkum stóðu raunar að henni, en ekki náði hún samþykki þá. Hér hef ég freistað þess að gera enn till. um það, að þær stofnanir, þau sjúkrasamlög, sem nú annast tryggingaumboðin, þ.e.a.s. úrskurðina og útborganir fyrir almannatryggingarnar, skuli fá að halda þeim umboðum áfram, enda get ég ekki betur séð en að það sé hið hagfelldasta í málinu, a.m.k. sums staðar. Þar sem ég bezt til þekki, veit ég ekki til þess, að Tryggingastofnunin telji sig hafa upp á eitt eða neitt að klaga við þá stofnun, sem annazt hefur þetta umboð, sjúkrasamlag Vestmannaeyja. Og ég sé heldur ekki, að Tryggingastofnunin bæti hvorki þjónustu sína né heldur að hún lækki kostnaðinn við umboðið með því, að tekinn verði upp sá háttur, sem hin nýju lög um almannatryggingarnar gera ráð fyrir. Það er að ýmsu leyti mjög eðlilegt, að einmitt sjúkrasamlögin annist úrskurði og útborgun fyrir almannatryggingarnar. Ef það er réttmætt, að þeir aðilar, sem kosnir eru á hverjum tíma til þess að ráða í bæjarmálum á hverjum stað, hafi íhlutunarrétt um stjórn sjúkrasamlaga, þá er það ekki síður réttmætt, að slíkir kjörnir fulltrúar hafi einnig íhlutunarrétt um framkvæmd á lögum eins og almannatryggingalögunum, enda er þar um að ræða svo náskylda starfsemi, að ég hef ekki orðið var við nein rök, sem réttlætt geti það, að eðlilegt sé, að allt aðrar reglur gildi um þessa tvo aðila, sjúkrasamlögin og tryggingarnar, að því er þetta snertir.

Þá skal ég geta þess, að sjúkrasamlögunum sem slíkum er það nokkurt hagræði að annast einnig umboðið fyrir almannatryggingarnar; þannig bætast samlögunum nokkur verkefni. Þau þurfa hvort eð er að hafa til sinnar starfrækslu húsnæði, sem yfirleitt má ekki vera minna en tvö herbergi, þó að um sé að ræða sjúkrasamlagsstarfsemina eina saman í venjulegum bæjum, eins og þeir gerast á Íslandi. Þau geta ekkert sparað á þessum lið, þó að tryggingaumboðin séu af þeim tekin. Í mannahaldi gegnir nokkuð svipuðu máli. Sjúkrasamlögin geta ekki, svo að neinu nemi a.m.k., minnkað mannahald, þó að þetta verkefni sé af þeim tekið. Það segir sig þess vegna sjálft, að rekstur þeirra verður fjárhagslega óhagkvæmari, sem hlýtur að sjálfsögðu að koma niður í hækkuðum sjúkrasamlagsiðgjöldum á almenning.

Ég fæ ekki heldur annað séð en að það sé óhagkvæmt fyrir Tryggingastofnunina sjálfa að eiga nú — á tímum eins og við höfum lifað að undanförnu, þar sem dýrtíð hefur sífellt farið vaxandi — að semja við nýjan aðila um þessi umboð, einmitt þegar svo stendur á. Ég hygg, að Tryggingastofnunin hafi sloppið tiltölulega ódýrt við þá umboðsaðila, sem ég ber hér fyrir brjósti í þessu frv., og að engin von sé til, að hún komist út af því með léttara móti fjárhagslega við þá nýju aðila, sem hún nú ætlar að semja við um þessi umboð. A.m.k. þar, sem ég bezt til þekki, veit ég það, að fógetaembættið hefur enga aðstöðu til þess að taka þessi auknu störf í sínar hendur nema auka sitt húsnæði og auka sitt starfsmannahald, en hvorugt þyrfti að gera, ef þetta væri áfram hjá viðkomandi sjúkrasamlagi.

Hafi einhver rök verið borin hér fram á Alþingi fyrir því, að þessi breyting frá því, sem í gömlu lögunum var og frá því, sem enn er í framkvæmd, væri nauðsynleg, þá hafa þau rök algerlega farið fram hjá mér, því að ég hef bókstaflega ekki heyrt neitt það fram borið, sem réttlætt geti þessa breytingu eða talið hana eðlilega. Þess vegna tel ég, að enn sé tími til að spyrna við og breyta þessu ákvæði í það form, sem það áður var í, þannig að bæði sveitarfélögum og sjúkrasamlögum geti gefizt kostur á því auk þeirra aðila, sem annast innheimtu fyrir Tryggingastofnunina, en það eru fógetar og sýslumenn, að hafa þessi íhlutunarumboð á sínum snærum. Og í trausti þess, að þingmenn séu mér um þetta sammála að athuguðu máli, hef ég borið fram þetta frv. og haft það algerlega aðskilið frá öllum öðrum breytingum, sem ég raunar gæti vel óskað eftir að gerðar væru á almannatryggingalöggjöfinni. En þar sem hér er eingöngu um að ræða fyrirkomulagsatriði, sem er a.m.k. ekki þess háttar fjármál, að það auki nein útgjöld, hvorki trygginganna né viðkomandi sjúkrasamlaga, en á hinn bóginn svo vaxið, að ef fram hjá því verður gengið, þá getur það þyngt skatta á almenningi, — ég á þar við iðgjöld til sjúkrasamlaganna, þá vona ég, að fleiri þm. geti nú átt með mér samstöðu í þessu máli en síðast reyndist, og vænti þess, að málið fái hér skjóta afgreiðslu. Ég vil vekja athygli á því, að ef ekkert er að gert í málinu, þá gengur sú breyting, sem nýju lögin gera ráð fyrir, í gildi um n. k. áramót, svo að allur dráttur á málinu mundi verða til þess að hindra framgang þess.

Ég vænti þess svo að þessari umr. lokinni, að málinu verði vísað til hv. heilbr.- og félmn.