03.12.1956
Neðri deild: 25. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 228 í C-deild Alþingistíðinda. (3151)

68. mál, afnám aðflutningsgjalda af dráttarvélum og vélum í fiskiskip

Flm. (Pétur Ottesen):

Herra forseti. Eins og vikið er að í grg. þessa frv., horfir mjög óvænlega til um þá hásköttun, sem nú er á bátavélum. Það er gerð grein fyrir því hér, að innflutningsgjöldin af bátavélum, sem tekin eru með verðtolli, framleiðslusjóðsgjaldi og söluskatti, nemi um 30% eða rúmlega það. Auk þess er tekinn af vélum þessum vörumagnstollur, sem nemur 24 1/2 eyri af hverju kg.

Þetta hefur leitt til þess, þessi hái skattur, sem nú er kominn á þessar vélar, að það er orðið algild regla, þegar skipta þarf um vélar í bátunum, að þá eru þeir sendir til útlanda til þess að framkvæma þetta, og það liggur í því, að af vélum, sem fluttar eru inn til landsins niðursettar í báta, er enginn tollur tekinn, og útvegsmönnum þykir það þess vegna borga sig fjárhagslega að hafa þennan háttinn á. En þetta leiðir til þess í fyrsta lagi, að sú atvinna, sem leiðir af því að skipta um vélarnar í bátunum, hverfur úr höndum landsmanna til erlendra manna. Þetta er þó engan veginn af því, að það sé ekki hægt að fá þetta verk unnið jafnvel og örugglega hér í landinu eins og hægt er erlendis. Í því efni standa fagmenn okkar á þessu sviði alveg gersamlega á sporði erlendum sérfræðingum og geta gert þetta á allan hátt jafnvel og traustlega. Annað hefur og komið í ljós í sambandi við þá öfugþróun í atvinnuháttum landsmanna, sem af þessu hefur leitt, sem er það, að af þessu stafar einnig slysahætta, því að þegar bátarnir eru sendir yfir hafið, — sem oft er að haustlagi gert, því að það þykir hentugur tími til þess að skipta um vélar í bátunum, — þá er oft úfinn sjór og allra veðra von. Og það benda allar líkur til þess, að a.m.k. í eitt skipti hafi orðið slys af þessu, því að bátur, sem var á útleið og var með gamla og slitna vél, fórst á þeirri leið.

Það er þess vegna allt, sem mælir með því, að þetta mál sé tekið til athugunar að nýju. Auk þess bendir allt til, að tilraun til skattinnheimtu til ríkissjóðs með þessum hætti nái ekki tilgangi sínum, af því að í vaxandi mæli er það svo, að bátarnir eru nú sendir til útlanda í þessu skyni, og þar með tapast vitanlega allur tollur af innfluttum bátavélum. Ég las í blaði núna nýlega, að frá einni verstöð væru annaðhvort farnir eða í þann veginn að fara fimm bátar til útlanda í því skyni að láta skipta um vélar í þeim. Þetta sýnir augljóslega, hvert stefnir í þessu efni.

Þá hef ég, eða við flm., einnig tekið inn í þetta frv. ákvæði um, að sama skuli gilda að því er snertir dráttarvélar, en þær eru aðallega notaðar í þágu landbúnaðarins. Þar er að sjálfsögðu um að ræða undirstöðuatriði í þróun og velfarnaði landbúnaðarins, að þeir, sem að honum vinna, eigi þess kost að geta fengið vélar til þeirra framkvæmda, bæði til jarðvinnslu og auk þess til nota við framleiðsluna. Það virðist þess vegna vera sams konar grundvöllur fyrir því, að farið sé fram á, að einnig falli niður innflutningsgjöld af þessum vélum, og er það einnig lagt til í þessu frv. Ég hef aflað mér upplýsinga um það, hverju muni hafa numið aðflutningsgjöldin af dráttarvélum á yfirstandandi ári, en á því ári var mikill, máske óvenjulega mikill innflutningur á þessum vélum, og nam það samanlagt til þessa tíma eitthvað um 3 millj. kr., svo að það er þó ekki meiru á bak að sjá í því efni. Mun þó, eins og ég tók áður fram, hafa verið einna mestur innflutningur á slíkum vélum á þessu ári.

Mér þykir svo ekki ástæða til að fara fleiri orðum um þetta frv., en vildi leggja til, að að lokinni þessari umr. yrði frv. vísað til fjhn.