08.04.1957
Neðri deild: 82. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 230 í C-deild Alþingistíðinda. (3156)

72. mál, girðingalög

Frsm. (Ágúst Þorvaldsson):

Herra forseti. Nefndin hefur athugað frv. þetta um breytingu á girðingalögunum og hefur orðið sammála um að mæla með því, að það yrði samþ. með nokkrum breytingum. Nefndin hefur haft málið alllengi til athugunar, og hafa henni borizt bréf og erindi frá ýmsum aðilum um þetta mál, m.a. ályktun frá búnaðarþingi. Nefndin sá sér ekki fært að taka þessar till. að fullu til greina, en hins vegar var henni ljóst, að ýmsir annmarkar væru á lögunum og full nauðsyn væri að bæta úr þeim. Það hefur t.d. komið í ljós, að ákvæði í 9. gr. um það, að eigendum vega væri heimilt að girða kringum vegi sína, hefur orðið til mjög bagalegs trafala fyrir ýmsa landeigendur, sem leyft hafa byggingu sumarbústaða á landi sínu, því að sumir þeirra hafa girt meðfram vegum sínum á báðar hliðar, svo að beitarafnot fyrir búpening viðkomandi bænda hafa torveldazt. Nefndin gerir því till. um, að þetta heimildarákvæði falli niður, en í staðinn komi skýr ákvæði um það, hvernig með skuli fara, þar sem svona stendur á. Ætti það að vera hlutaðeigandi aðilum til gagns, að ákvæði um þetta séu skýr, svo að ekki geti komið til ágreinings um þetta atriði í framtíðinni, en á slíku mun nokkuð hafa borið að undanförnu.

Ég hef svo ekki um þetta fleiri orð, en vænti þess, að málinu verði að þessari umr. lokinni vísað til 3. umræðu.